fimmtudagur, febrúar 27, 2003

Einu sinni fyrir langa löngu var strákur, Gosi Pétur, sem átti kött. Kötturinn hans var strengjabrúða en svo átti hann líka lifandi kött og svo átti hann líka dreka. Einn daginn þá var strákurinn að leika sér með strengjabrúðuna og þá kallaði mamma hans á hann í mat. Gosi Pétur og drekinn áttu báðir að fá að borða, báðir fengu lambasteik og kötturinn fékk fisk. Mamma sagði við Gosa Pétur: „Þú þarft að læra að bjarga þér, á morgun ferðu í burtu og verður í marga marga daga“. „Já já“ sagði Gosi Pétur og fór síðan að sofa.

„Bless mamma“ sagði Gosi Pétur daginn eftir og tók drekann sinn, köttinn sinn og strengjabrúðuköttinn og lagði af stað. Þá heyrðist einhverstaðar „ekki gleyma mér!“ það var drekamamman og hún fékk að koma með. Allt í einu birtist stór og svartur úlfur undir þeim (þeir voru nefninlega fljúgandi á bakinu á drekamömmunni). Drekamamma horfði á hann með illu auga og spúði svo á hann eldi þar til hann var steindauður.

Þeir hittu fílinn Arnór, hann var vinur þeirra sem getur labbað á vatni og hann slóst í för með þeim. Þá mættu þeir einhverju sem var miklu hræðilegra en úlfur.....það var varúlfur (sagt með áherslu stóreygs tæplega sex ára barns) og vinur hans var með, hinn varúlfurinn.....hvað skyldi gerast næst....

Þetta er framhaldssaga Kolfinnu Kötlu, fylgist með frá upphafi.

miðvikudagur, febrúar 26, 2003

Fangor viðurkennir á blogginu sínu að þjást af sjúkdómnum graduatus terrificuss sem útlekst á ástkæra ylhýra, óeðlileg hræðsla við að útskrifast úr háskóla og takast á við lífið. Í sama skeyti lýsir fangor því yfir að hann ætli að ganga í hjónaband í sumar, „that would scare the willies out of me“. Ég þjáist nefninlega af puer discustimus sem er allt annar en alveg jafn sjaldgæfur og hættulegur sjúkdómur. Kannski við ættum að stofna aðstandenda- og stuðningshóp.

Ef ég ætti kommentakerfi væri hugsanlega hægt að svara þessari spurningu... Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

mánudagur, febrúar 24, 2003

To be is to do
-Rousseau
To do is to be
-Sartre
Do be do be do
-Sinatra

Nú er það búið. Nú er ég formlega orðin bókmenntafræðingur. Ég er ekki viðkvæm og kemst sjaldan við. Ég græt ekki í jarðarförum og bíómyndir koma ekki út á mér tárum ég felldi ekki einu sinni tár þegar Kolfinna Katla kom í heiminn en þar sem ég sat í stórasalnum í Háskólabíó og beið eftir því að vera kölluð á svið var ekki mjög langt í tárin. Ég sökk niður í sætinu mínu og hugsaði um síðustu þrjú ár. Ég hugsaði um tékkareikninginn minn og framfærslulánin, ég hugsaði um fiskibollur í dós og útsölur í hagkaup, ég hugsaði um lítið kríli sem var hent manna á milli þegar hún var í páskafríi, jólafríi eða sumarfríi, ég hugsaði um andvökunætur og magasár af fjárhagsáhyggjum. Ég hugsaði um mömmu og pabba sem stöppuðu í mig stálinu, án hverra ég hefði aldrei komist í gegnum þetta og ég hugsaði um alla vinina, nýja og gamla sem hafa verið mér samferða, skemmt mér og farið í taugarnar á mér en flestir stutt við bakið á mér með ráðum og dáð þegar á reyndi. Og ég hugsaði um sjáfa mig og allt sem ég hef lært og hversu mikið ég hef þroskast, hversu ég er stolt af sjálfri mér að hafa lokið fyrsta áfanga á leið minni um fullorðinslífið.

Á laugardagskvöldið var ég aftur hætt komin þegar vinir mínir og ættingjar fóru um mig fögrum orðum (kannski ekki bara af þeim bar skylda til þess heldur kannski líka vegna þess að þeim líkar bara ágætlega við mig) í tilefni dagsins. Hamingjuóskir og hamagangur í formi ásláttar og söngs. Hver einasti koss, hvert einasta knús og öll fallegu orðin sem voru ekki sögð upphátt heldur hvíslað í eyrun mín gerðu mig stóra og stolta og glaða í hjartanu mínu. Ég þakka fyrir mig.

Síðast í morgun var stutt í tárin. Þrjátíu ár að baki og óvíst með framhaldið. Ég hef dálítið kviðið þessum degi, þessari tölu en í dag er ég eiginlega bara stolt. Mér finnst flott að vera þrítug kona og gæti ekki hugsað mér að breyta neinu.

föstudagur, febrúar 21, 2003

Nú stendur mikið til. Ég ítreka enn og aftur, partý í húsi framsóknarfloksins við Digranesveg 12 í Kópavogi, enginn boðinn, allir velkomnir.

Á enninu á mér, rétt á milli augnanna, er bóluskrýmsli að vakna til lífs. Ég held hún ætli að lýsa yfir sjálfstæði fyrir morgundaginn. Ef þetta er ekki dæmigert þá veit ég ekki hvað er, jú kannski ef ég hefði fengið frunsu í ofanálag. Það er auðvitað enn von ég gæti vaknað í fyrramálið með móður allra frunsna (skrýtið orð) í andlitinu. Ég sem ætlaði að vera svo sæt og fín á morgun, ég held að móðir mín hafi jafnvel minnst eitthvað á að fá fagmenn í andlitið. Þessi bóla fer alveg með mig, hún er svo stór að ef ég beygi mig áfram myndast nær óbærilegur þrýstingur á milli augnanna. Hversu oft fær maður svo hræðilega bólu að hún veldur manni höfuðverk, í eiginlegum skilningi.

Ég er ósköp róleg yfir morgundeginum. Ég hef aldrei verið manneskja sem æsir sig yfir svona smámunum. Kann einhver góða uppskrift að bollu?

fimmtudagur, febrúar 20, 2003

Ég er nú ekki mjög dugleg að fá fólk til að passa fyrir mig á kvöldin svo ég geti farið út á galeiðuna, mér nægja yfirleitt pabbahelgarnar til þess. Í gærkvöldi gerði ég hins vegar undantekningu og fékk nákonu mína til að hlusta eftir krílinu mínu og skellti mér á andarungann með Möggu Dóru og Hrönn. Flissuðum mikið og skemmtum okkur vel, takk fyrir kvöldið dömur mínar. Þegar ég kom heim hafði ég auðvitað vit á því að fara ekki að sofa heldur dreif mig í að horfa á BBC útgáfuna af Hitch Hikers Guide to the Galaxy á vídeó. Það var auðvitað rosalega góð hugmynd og þess vegna dreg ég nú ýsur ofan í lyklaborðið. KAFFI, KAFFI, MIG VANTAR KAFFI...

miðvikudagur, febrúar 19, 2003

þetta er algjör snilld. Bridget Jones on line. Þetta eru alvöru þreifingar með bókmenntir í nýjum miðli. Ég er reyndar bara komin fram í apríl en þetta lofar góðu.

Ég vissi alltaf að ég væri kisi, sæti, sæti kisi.
You are Greebo. Stay the hell away from me.
You are Greebo. Stay the hell away from me.


What Discworld Animal Are You?
brought to you by Quizilla

þriðjudagur, febrúar 18, 2003

Blogger-batteríið fer allt mikið mikið í taugarnar á mér núna. Allt er seinvirkt þ.e. ef það virkar yfirleitt. Ég nenni eiginlega ekki mikið að vera að púkka upp á þetta blogg-drasl. Google var að kaupa móðurfyrirtæki blogger.com, skyldi það tengjast þessu veseni öllu saman?

mánudagur, febrúar 17, 2003

Stundum eru kommentin inni stundum er no comment. Stundum eru arkífurnar mínar inni og stundum úti. Hvernig á ég að fylgjast með.

AAAAAndsssk..... Ég var búin að skrifa langa og skemmtilega lýsingu á öllu sem á daga mína hefur drifið síðan ég bloggaði síðast og þegar ég „postaði“ þá barasta gufaði það upp. Ég er í brjáluðu skapi og ætla ekki að blogga það allt aftur. Nægir að segja, ammæli hjá Ágústi, málningarvinna í Grafavoginum, þreyta í öxlum, partý um næstuhelgi í sal Framsóknarfloksins í Kópavogi, hvað myndi ekki Gunnar Birgis segja „Það er gott að búa í Kópavogi“.

föstudagur, febrúar 14, 2003

Litli frændinn minn hann Arnór Snær, yngsti þunglyndissjúklingur sem ég þekki, á afmæli í dag. Til hamingju með ammælið Nóri minn. Sennilega væri ég þunglynd líka ef ég væri búin að ger mér grein fyrir því að ég þyrfti að burðast ævina á enda að eiga afmæli á helv.... valentínusardeginum. Til gamans læt ég fylgja nokkur skemmtileg gullkorn sem þessi litli frændi minn hefur látið falla við hátíðleg tækifæri

„þetta er asnaleg útilega, ég vil fara heim“

„ég vil ekki vera hérna, þetta er leiðinleg veisla“

„þetta er lótur sófi, ætla ekki að sitja í honum“

„Nei, þetta er ekki skemmtilegt“

Það er rétt að taka það fram að litla krúttið elskulega (litla lirfan ljóta) er fjögurra ára í dag. Hvernig er hægt annað en að elska svona gleðiklump?


Eitt er það að segjast ætla að leika lausum hala og annað að framkvæma. Það er bara búið að vera svo mikið að gera hjá mér í vinnunni að ég hef ekki enn sett inn mikið á bloggið. Börnin í 4. bekk eru að vinna að heimildaritgerðum í íslensku og ég er búin að vera að hjálpa þeim að leita að heimildum. Þetta finnst mér reyndar skemmtilegasti hluti vinnunar minnar svo ég kvarta ekki. Hitt finnst mér samt merkilegt að þau skuli komin upp í menntaskóla gjörsamlega glórulaus um það hvernig bókasafn „fúnkerar“ fæst hafa hugmynd um að hér ráði ríkjum eitthvert ákveðið kerfi, hvað þá hvernig það virkar. Mörg þeirra halda að við höfum bara lagt bókasafnið tiltölulega vel á minnið og séum bara svona duglegar að leita og ótrúlega fundvísar. Einn piltur rak upp stór augu þegar ég benti honum á að allar hillur væru merktar, „vá en sniðugt“. Þegar ég svo sýndi honum að íslenskar skáldsögur höfðu raðtöluna 813 og röðuðust síðan í stafrófsröð eftir nafni höfundar hélt ég að augun ætluðu út úr höfðinu á honum, þetta fannst honum brjálæðislega sniðugt...

Ég er ekki viss um að reynslusögur af bókasafninu hafi sérstaklega mikið skemmtanagildi. Kannski ég haldi mig bara við það sem ég kann best; kvarta og kveina, bölsótast yfir samferðafólki mínu og segja hetjusögur af Kolfinnu Kötlu, stórkostlegasta barni undir sólinni og þó víðar væri leitað.

Nú er sko kisa heima veik og mýsla getur leikið lausum hala í allan dag.........I'm the queen of the library.

Þú hlýtur bara að vera að grínast í mér.

fimmtudagur, febrúar 13, 2003

Annað hvort var það fyrsta verk Elfu Bjarkar í nýju íbúðinni að tengja tölvuna, áður en hún raðaði inní pottaskápinn eða reyndi að koma skipulagi á fötin sín, önnur en náttsloppinn, eða hún er ennþá á Eggertsgötunni. Heldur þykir mér líklegt að hún sé enn á Eggertsgötunni og mér finnst það gott, ég skil ekkert í henni að vera að æða þarna út í óbyggðir og vegaleysur í Grafarvoginum. Það verður stórt skarð höggvið í litla sambýlið á jarðhæðinni. Svo skilst mér að jólasveinarni hinumegin við mig ætli að flytja aftur heim í jólalandið á Ísafirði i vor og Svövu Rán fannst ekki nóg að flytja á Höfn í Hornafirði í vor ætlar hún alla leið til útlanda. Hvað verður um aumingja mig? Valdís og Vigfús koma í það minnsta heim ssjúkk.Ógeðslega langar mig í eina reykju núna. Það er þyngra en tárum taki að vera reyklaus alla daga til fimm en svona er ég nú dugleg.

Svarið við spurningunni what kind of girfriend are you er ekki mjög flókið.....well, I'm not.

You're a Motherly little Girlfriend
-Motherly- You're the motherly type. You love to
take care of the one you love, and generally
you can be a bit overprotective and possessive,
but you know, that isn't always such a bad
thing. At least you'll be a good mom in the
future.


What Kind of Girlfriend Are You?
brought to you by Quizilla


Karlhylli eða drenghylli dóttur minnar er ekkert í ætt við þann darraðadans sem samskipti mín og „veikara“ kynsins hafa verið í gegnum tíðina. Ég fór í foreldra viðtal á leikskólann og hún Magga, leikskólakennarinn hennar, hafði áhyggjur af því að hún væri vond við einn drenginn í „gimsteinahópi“. Henni fannst þetta mjög skrýtið í ljósi þess hversu sterka réttlætiskennd Kolfinna hefur og hversu sárreið hún var sjálf þegar hún var lögð i einelti í skamma hríð í haust. Magga hafði í fyrstu ekki grun um hvað hér væri á ferðinni en hélt samt að þetta gæti verið eitthvað sem tengdist kærasta/kærustu vangaveltum. Kolfinna er löngu lofuð, í fyrravetur var hún í slagtogi við sér eldri mann (villingur eins og mamman), Pálma John sem þurfti að fara í skóla í haust. Pálmi var búinn að reyna að tryggja feng sinn með því að segja mér að hann ætlaði að giftast henni en litla fiðrildið sá auðvitað við honum og í stað þess að sitja í festum yngdi hún upp og fann sér nýjan kærasta, ofursjarmörinn Gunnar Árna og þá komum við að kjarna sögunnar. Þegar ég fór að ganga á Kolfinnu kom í ljós að drengurinn sem varð fyrir aðkasti hennar vildi svo gjarnan fá að kyssa hana í tíma og ótíma. Þetta var litlu, sjálfstæðu skessunni minni ekkert um enda má enginn kyssa hana í leyfisleysi því hún á sinn líkama sjálf og ræður því hverjir eru eða eru ekki að kyssa hana. Þetta fannst mér góð lexía en benti henni jafnframt á að það væri rétt leið og röng leið við að segja fimm ára strákum að þeir megi ekki kyssa mann.

Allt þetta veldur mér talsverðum heilabrotum. Kærastavangaveltur finnast mér persónulega alveg óþarfar þegar maður er fimmaðverðasex. Það setur einhvern stimpil á vináttu stelpu og stráks sem er alveg óþarfur. Stelpur og strákar eiga að geta verið vinir án þess að þar búi eitthvað annað að baki og þegar fimm ára börn geta ekki verið vinir án þess að svona hugmyndum sé hldið á lofti veit ég ekki vel hvað gerist eftir nokkur ár. Það er hollt og gott að eiga beiðan og ólíkan vinahóp og þess óska ég dóttur minni, ekki þess að hvergi megi strákur koma nálægt henni án þess að vera kallaður kærasti.

En getum við annars ekki bara verið vinir????

Valdafíklar og stríðsæsingamenn allra landa, sundrist
splundrist

miðvikudagur, febrúar 12, 2003

Dugleg í gær, „væbblast“ í dag. Svona er dagsformið.

þriðjudagur, febrúar 11, 2003

Það styttist í stórhátíð. Aðeins rúm vika til stefnu og ég er ekki búin að gera neitt. Ég er ekki einu sinni búin að redda mér sal en ég hef þá alltaf Höskuldarbúð ef illa fer. Ég er alls ekki búin að meðtaka það að þetta sé búið, ég er enn að bíða eftir símtalinu þar sem mér verður sagt að einhverra hluta vegna geti ég bara því miður ekki útskrifast, af því að ég er svo mikill asni. Reyndar fékk ég nett hland fyrir hjartað áðan þegar María Ásdís hringdi í mig til að forvitnast um það hvers vegna í ósköpunum ég hefði ekki lokið við kúrsinn bókmenntaritgerðir. Ég var að hugsa um að segja henni að það væri nú bara vegna þess að Gottskálk Jensson væri viðurkenndur hálfviti og hrokagikkur en kunni ekki við það svo ég sagði henni bara að ég teldi mig hafa lokið þessum kúrsi 1995 (þegar samnemendur mínir í háskólanum voru að velja femingarfötin sín og kreista síðustu graðbólurnar úr andlitinu) hjá stórvinkonu minni Helgu Kress. Hún hélt að það gæti vel verið, sagðist ætla að athuga málið og bögga mig ekki frekar ef þetta væri allt á þurru. Síðan hefur ekkert til hennar spurst svo ég geri ráð fyrir að ég sé „good to go“. Þá er það bara spurningin hvor ég þori að fara úr að ofan eins og ég var búin að lofa Ásgeiri, og jafnvel enn betri spurning, þolir Ásgeir það ef ég fer úr að ofan eða verðum við að láta okkur nægja vaselín í lofanum trixið hennar Möggu Dóru.

Ég mundi það skyndilega í gær að ég er víst ennþá í skóla. Ég er að vísu búin með BA gráðuna mína en ég er ennþá skráð í sex einingar í íslensku og hafði hugsað mér að reyna að sinna því. Það var hins vegar dálítið seint að ætla að fara að muna eftir þessu í gær þar sem ég á að skila heimaverkefni í dag. Vitaskuld tókst okkur mömmu að rúlla þessu upp í sameiningu í gærkvöldi og tekst að skila þessu inn fyrir klukkan eitt í dag.

Nú er kisa úti svo mýsla litla leikur sér inni. Hún Þórdís, mikil sómakona og yfirmaðurinn minn á bókasafninu, er á fundi og þess vegna er ég núna að taka mér góðan tíma í að skrifa greinagott og skemmtilegt blogg í stað þess að skjóta bara inn stuttum frösum. Ég held reyndar að Þórdís hafi ekkert á móti því að ég eyði nokkrum mínútum dag hvern í þessar færslur mér finnst bara svo vont að verða uppvís að því að slæpast. Það hjálpar heldur ekki til að téð Þórdís virðist hafa fengið þá flugu í höfuðið að ég sé afskaplega greind og dugleg og samviskusöm (hvernig í ósköpunum sem hún komst nú að þeirri niðurstöðu) og mér er illa við að svipta hana þessari ágætu blekkingu. Þetta er sennilega besta herkænska og stjórnviska, telja undimönnum sínum trú um það að þeir beri ábyrgð og til þeirra sé borið traust. Leiðitamir kjánar eins og ég falla algerlega fyrir þessu og gera allt það sem þeir eiga að gera í vinnunni, í stað þess að laumast upp á kassaloft og fá sér lúr.

Þar kom að því. Hún Kolfinna Katla gekk algerlega frá mér í síðustu viku. Ég hefði haldi að það væri nóg að takast á við það að litla krílið á að fara í skóla næsta haust og er alveg við það að missa framtennurnar í neðrigómi en nei hún þurfti að bæta gráu ofan á svart og spyrja mig hvernig börnin verða til. Þetta kom svo gjörsamlega í þjóðhnappana á mér að af mér datt andlitið, ég átti svo sem von á þessu með skólan og tennurnar en spurninguna um býflugurnar og blómin ætlaði ég að láta ósvaraða í nokkur ár í viðbót. Þegar móðirin hafði svo roðnað og blánað í dálitla stund og gerði sig líklega til að svara þessari erfiðu en samt sem áður fullkomlega eðlilegu spurningu sló litla kvikindið öll vopn úr höndum hennar með því að útskýra þetta sjálf á afar einfaldan og látlausan hátt.... ég held það hafi hjálpað því sannast sagna er ég farin að ryðga all verulega í þessu ;-)

mánudagur, febrúar 10, 2003

Mér finnst mér varla stætt á öðru en að kjósa DD lista ef silfurrefurinn fer fram með slíkt framboð. Ekki lýst mér nú á það að vera nauðbeygð til að kjósa eitthvað sem tengist Sjálfstæðisflokknum.

föstudagur, febrúar 07, 2003

Bara eitt..... Michael Jackson er fríííík!

fimmtudagur, febrúar 06, 2003

Ég afrekaði hið ómögulega í gær. Mér tóks að halda mér vakandi yfir Enterprise, lélegasta Star Trek „spinoffi“ enn sem komið er. Ég hef oft reynt að halda rænu en dett yfirleitt útaf áður en þátturinn er hálfnaður. Ég held að Gene Roddenberry fari hring eftir hring í gröfinni og óski aðstandendum þáttanna út í hafsauga fyrir þetta framtak. Hugmyndin á bak við þáttinn er ekki bara góð, hún er frábær en úrvinnslan er til skammar og Scott Bakula... need I say more? Að gera þátt af ætthvísl Star Trek sem fjallar um fyrstu skref jarðarbúa í fjölplánetusamfélagi hefði átt að virka mjög vel, gamall rígur á milli vulkana og jarðarbúa ætti að fá nýja vídd og forneskjuleg tæknin (í samanburði við DS 9 eða Voyager) ætti að vera mjög spennandi en því miður, hefur þetta allt saman mistekist hrapalega. Ég kenni introinu um. Upphafslag þáttanna er það allra, allra versta sem ég hef nokkurntíma heyrt Peter Cetera, Michael Bolton, Gorgio Moroder og Marvin Gibb... all rolled in to one. Ég hef reyndar þá kenningu að þetta sé Scott Bakula sjálfur, hvernig lýst ykkur á það?

miðvikudagur, febrúar 05, 2003

Öll „komment“ liggja niðri í dag... hverju skyldi þetta sæta?

þriðjudagur, febrúar 04, 2003

Skellti mér aldeilis austur fyrir fjall nýliðna helgi. Blótaði þorra að fornum sið og stóð mig bara vel. Kneifaði ölið ekki minna en hver annar durgur og lagðist til svefns á sófanum hjá mömmu og pabba, huggulegt það.

Þorrablótið var eins og endranær ofurskemmtilegt og þakka ég öllum sem ég hitti skemmtunina og bið afsökunar þá sem ég hitti ekki. Fyrst ég er byrjuð þá er kannski ekki úr vegi að biðja líka afsökunar þá sem ég hitti og þakka skemmtunina þeim sem ég hitti ekki. Eða þannig.