Nú er það búið. Nú er ég formlega orðin bókmenntafræðingur. Ég er ekki viðkvæm og kemst sjaldan við. Ég græt ekki í jarðarförum og bíómyndir koma ekki út á mér tárum ég felldi ekki einu sinni tár þegar Kolfinna Katla kom í heiminn en þar sem ég sat í stórasalnum í Háskólabíó og beið eftir því að vera kölluð á svið var ekki mjög langt í tárin. Ég sökk niður í sætinu mínu og hugsaði um síðustu þrjú ár. Ég hugsaði um tékkareikninginn minn og framfærslulánin, ég hugsaði um fiskibollur í dós og útsölur í hagkaup, ég hugsaði um lítið kríli sem var hent manna á milli þegar hún var í páskafríi, jólafríi eða sumarfríi, ég hugsaði um andvökunætur og magasár af fjárhagsáhyggjum. Ég hugsaði um mömmu og pabba sem stöppuðu í mig stálinu, án hverra ég hefði aldrei komist í gegnum þetta og ég hugsaði um alla vinina, nýja og gamla sem hafa verið mér samferða, skemmt mér og farið í taugarnar á mér en flestir stutt við bakið á mér með ráðum og dáð þegar á reyndi. Og ég hugsaði um sjáfa mig og allt sem ég hef lært og hversu mikið ég hef þroskast, hversu ég er stolt af sjálfri mér að hafa lokið fyrsta áfanga á leið minni um fullorðinslífið.
Á laugardagskvöldið var ég aftur hætt komin þegar vinir mínir og ættingjar fóru um mig fögrum orðum (kannski ekki bara af þeim bar skylda til þess heldur kannski líka vegna þess að þeim líkar bara ágætlega við mig) í tilefni dagsins. Hamingjuóskir og hamagangur í formi ásláttar og söngs. Hver einasti koss, hvert einasta knús og öll fallegu orðin sem voru ekki sögð upphátt heldur hvíslað í eyrun mín gerðu mig stóra og stolta og glaða í hjartanu mínu. Ég þakka fyrir mig.
Síðast í morgun var stutt í tárin. Þrjátíu ár að baki og óvíst með framhaldið. Ég hef dálítið kviðið þessum degi, þessari tölu en í dag er ég eiginlega bara stolt. Mér finnst flott að vera þrítug kona og gæti ekki hugsað mér að breyta neinu.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home