sunnudagur, nóvember 25, 2007

Jólaskap

Það er svo skrýtið að sætastur er langfyrstur á okkar heimili til að komast í jólaskap. Yfirleitt er hann á hjólunum á eftir okkur Kolfinnu til að róa okkur niður í jólalögunum og seríunum en nú er minn bara farinn að söngla jólalöginn og orðinn ægilega spenntur.

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Svo er líka skrýtið...

...hvað ég er orðin gömul. Vinsælasta hljómsveitin á Íslandi þessa dagana er án efa Sprengjuhöllin. Þegar ég var yngri, miklu yngri, skipti ég um bleyjur á einum meðlima Sprengjuhallarinnar.

ÚFF!

Svona er svo skrýtið

Mamma mín eignaðist fjögur börn á tveimur ólíkum áratugum. Þrjú á áttunda áratugnum og og eitt á þeim níunda. Ég á bara tvö börn en þau eru fædd á tveimur ólíkum öldum.

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Namm

Það eru komnar mandarínur inn á heimilið.

JóÓlin JóÓlin aAstaðar.

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Nýr drengur

Steingleymdi áðan því að Kristínu og Gumma fæddist í morgun lítill drengur. Fjórtán merkur, heilbrigður og eflaust fjallmyndalegur eins og foreldrarnir.

Til hamingju með þetta elskurnar!

Dálítið fyndið að mér finnst Iðunn enn nýfædd en nú þegar eru í vinahópnum mínum fæddir tveir drengir sem eru yngri og þrjú börn til viðbótar eru á leiðinni.

Nýjasta æðið

ég er algjörlega dottin í fésbókina. Er búin að hafa upp á gömlum vinum út um allar trissur, ferlega skemmtilegt.

Pínkubarnið er búið að vera heima síðustu daga með kvef og augnsýkingu. Fórum með hana til læknis áðan og fengum dropa í augun. Þarf vitaskuld ekki að taka það fram að pínkubarninu þykir ekki góð hugmynd að láta klína einhverju í augun á sér og argar þess vegna hástöfum þegar það er reynt. Hún hefur annars ekkert verið að slaka á vegna veikindanna heldur er hún fullu uppi í gluggakistum, undir sófa og inni í hillu. Ég held að það séu engin takmörk fyrir því sem henni dettur í hug.

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Innlit útlit

Það væri alveg horfandi á Innlit útlit ef ekki væri fyrir Arnar Gauta...

Lappan mín

Hér sit ég í stofunni minni með nýjasta fjölskyldumeðliminn, nýjasta gæludýrið, í fanginu. Sætastur fékk notaða fartölvu fyrir lítinn pening í vinnunni sinni og færði mér hana í einhvers konar fyrirfram jólagjöf. Ég efast ekki um að hún á eftir að nýtast vel. Mig hefur lengi dreymt um að eignast slíkan grip og hef ýmsar hugmyndir um að nota hana mikið. Ég endist eitthvað svo illa fyrir framan borðtölvuna en held ég geti vel vanist þessari.

Ég held að Lúkas Þorlákur eigi afmæli í dag, óska honum og hans til hamingju með það!

mánudagur, nóvember 05, 2007

Biflían

Ég hef haft það fyrir sið í nokkur ár að skipta lokhljóðum út fyrir önghljóð í ákveðnum orðum. Þannig segi ég gjarnan Pefsí en ekki Pepsí og oftar er ekki Biflía í stað Biblía. Rak mig svo ekki í rogastans áðan, þar sem ég sat og fletti Orðabókinni, eins og ég geri oft og hnaut um orðið Biflía.

Biflía, -u KV (oftar ritað Biblía, einnig biblía) heilög ritning kristinna manna, Gamla og Nýja testamennti; Biflíuljóð ljóð ort um efni úr Biflíunni; Biflíumyndir; Biflíusögur úrvalskaflar (endursagnir) úr Biflíunni.

Ég hef hins vegar ekki fundið Pefsí í bókinni góðu (þ.e. Orðabókinni ekki Biflíunni (þó ég efist nú um að það finnist þar heldur)).

Syngjandi

Ég vildi bara benda ykkur sem ekki vitið á, að það jafnast á við geðlyf að syngja í kór. Ég er búin að vera á leiðinni að finna mér kór til að syngja í síðustu fjögur árin og nú lét ég loks verða af því. Hélt nú að ég myndi aldrei hafa gaman að því að syngja í kvennakór en lét undan hópþrýstingi og skellti mér í Kvennakór Hafnarfjarðar. Mér finnst það bara alveg dáindis skemmtilegt. Ég, sem yfirleitt dreg ýsur fyrir framan varpið eftir klukkan níu á kvöldin, er ekki einu sinni byrjuð að geyspa þó æfingin sé til hálf ellefu.

Við erum að æfa jólalögin þessa dagan, sem spillir nú ekki gleðinni yfir þessu öllu saman. Og í verðum með voða fína jólatónleika í desember (desember hentar einmitt mjög vel fyrir allt sem er jóla... eitthvað). Ég læt nú vita nánar um það síðar. Aldrei að vita nema einhverjir af hundtryggum lesendum mínum láti nú bara sjá sig.

Er annars farin að efast um að nokkur maður lesi þetta lengur. Ég er alveg hætt að fá komment.

mánudagur, október 29, 2007

Ekki veit ég

hver andsk.... var að þessu drasli en nú kom ég loksins inn færslunni sem ég ætlaði að setja inn á fimmtudagskvöldið. Ég varð að taka út fyrirsögnina og þá var það í lagi.

Url contains illegal characters......kjaftæði.....var svona nett að verða brjáluð.

Er ekki hægt að nota íslenska stafi

í fyrirsögninni?

Er ekki

hægt að nota íslenska stafi?

this blooooody....

...thing doesn't work

123

testing 123

fimmtudagur, október 25, 2007

Árið 2004 gengu Margrét Dóra, vinkona mín, og Hjálmar, hennar maður í hjónaband. Þau hjónin völdu að fara til borgardómara og halda kirkju og prestum utan við þessa athöfn. Upp á vegg á heimili þeirra er vottorð um að þann 02.03.04 (ef ég man rétt) hafi þau gengið í hjónaband.

Á kirkjuþingi í dag var ákveðið að samkynhneigðir megi enn ekki ganga í hjónaband en fengu þó gulrótina staðfest sambúð. Ég fæ ekki séð, þegar kirkjan hefur slíkt ægivald yfir þessu, orði hjónaband, hvers vegna gagnkynhneigðir trúleysingjar og allir þeir sem kjósa að láta að gefa sig saman á nokkura afskipta kirkjunnar teljast í hjónabandi en samkynhneigðir meiga ekki nota þetta orð.

Það væri klárlega barnaskapur að reyna að halda því fram að deilan snúist eingöngu um orð. Að samkynhneigðir hafi í dag, þegar þeir fengu leyfi til að ganga í staðfesta sambúð í kirkju og hjá presti, náð jafnrétti á þessu sviði. Ef þetta væri eingöngu spurning um orðið væri kirkjunni klárlega ekki svona í mun að kynvillingarnir notuðu það ekki.

þriðjudagur, október 23, 2007

Afmæli

Hann afi minn, Jón Jónsson Stefánsson, hefði orðið tíræður í dag hefði hann lifað. Við héldum upp á það með pompi og prakt um helgina. Dætrunum var komið í næturgistingu og við fórum á Lækjarbrekku ásamt föngulegum hópi. Mikið var skálað fyrir karli enda snillingur hinn mesti sem hefði þótt það viðeigandi á svona degi.

Mest héldum við hjónin auðvitað uppá að vera tvö í kotinu í fyrsta skipti í 13 mánuði. Alger snilld svona næturpössun ég get alveg ímyndað mér að það líði ekki 13 mánuðir þangað til við reynum hana aftur.

miðvikudagur, október 10, 2007

Hugsa sér frið

Þessi er sérstaklega fyrir mömmu.


Að hugsa himnaríki
og helvíti ekki til
aðeins jörð og himin
það er auðvelt ef ég vil.
Að hugsa að allir lifðu
og hrærðust hér og nú

Hugsaðu þér hvergi
nein landamæri lögð
að drepa og deyja fyrir
né deilt um trúarbrögð.
Já hugsaðu þér heiminn
halda grið og frið.

Mér er sagt ég sé með óra
en ég er ekki einn um það.
Já komdu með,
við höldum hópinn
gerum heiminn að griðastað

Að hugsa sér að engar
eignir væru til
græðgi og hungur horfin,
hvergi ranglátt spil.
Að hugsa öll gæði heimsins
og jarðar deilast jafnt

Mér er sagt ég sé með óra
en ég er ekki einn um það.
Já komdu með,
við höldum hópinn,
gerum heiminn að einum stað.

Þegar tveir snillingar koma saman Lennon og Eldjárn....smart.

þriðjudagur, október 09, 2007

Tiltekt

Var loksins aðeins að taka til í krækjunum mínum. Uppfærði bæði Lísu og Hörpu sem eru með nýjar slóðir, og snaraði inn Huldu Gunn sem er löngu tímabært. Ekki hafði ég nú fyrir því að henda út letingjunum sem aldrei blogga. Það lítur eitthvað svo illa út komandi frá mér að skammast yfir því að fólk bloggi ekki. Svo yrði veggurinn eitthvað svo allsber.

Óvitanum ratast rétt á munn

Ekki er hann nú orðin stór orðaforði pínkubarnsins en þó eru komin nokkur orð og hljóð sem hún notar óspart. Á dögunum var ég að lesa fyrir hana þroskaritið Andheiti og lék allt saman með miklum tilþrifum án þess þó að fá mikil viðbrögð: „Hvað er andheiti við lítill.....stór, hvað er andheiti við inni.....úti, hvað er andheiti við upp.... niður“ og svo framvegis þangað til við komum að týndur. „Hvað er andheiti við týndur?“ Spurði móðirin og ekki stóð á svarinu hjá pínkubarninu sem gól hátt og snjallt ........BU. Bu er auðvitað andheitið við týndur.

föstudagur, október 05, 2007

Snilldin ein

Tímamótarannsóknir á "samkynhneigðarsprengju," sem gerir að verkum að óvinahermenn fyllast óviðráðanlegri kynlöngun til hvors annars, eru meðal þeirra "vísindaafreka" sem hljóta hin svonefndu Ig Nóbelsverðlaun í ár. Einnig var verðlaunuð tilraun til að lækna þotuþreytu í hömstrum með stinningarlyfi.

Meira hérna.

mánudagur, október 01, 2007

How the mighty have fallen

Þú veist þú ert í vondum málum þegar Kevin Federline er skárra foreldrið þitt.

þriðjudagur, september 25, 2007

Sérdeilis skemmtilegt

Við hjónin skelltum okkur í bíó í gærkvöldi. Fyrsta skipti sem við förum tvö ein í bíó síðan pínkubarnið fæddist. Fórum að sjá Astrópíuna hans Gunna. Ég verð að vera sammála öllum gagnrýnendum sem segja hana einhverja skemmtilegustu íslensku mynd síðan Sódóma var upp á sitt besta. Verð að játa að litli nördinn minn hló miklu meira og stundum á allt öðrum stöðum en hinir í salnum því hann skildi alla nördabrandarana.

Litli nördinn er annars búinn að koma ár sinni vel fyrir borð í nýju vinnunni sinni. Er búinn að heilla yfirmenn sína upp úr skónum með dugnaði og frumkvæði og er nú að raða á sig hinum og þessum ábyrgðarhlutverkum. Í lok október á hann að fara til útlanda á einhver námskeið. Væri kannski ekki í frásögur færandi nema hvað hann á annað hvort að fara til London eða Cairo. Ekki svo mikill munur á því. Minn situr nú dagen lang á bæn og vonar að hann fá að fara til Cairo.

mánudagur, september 24, 2007

Stundaglas

ég hef enn vöxt eins og stundaglas..........það er bara mjög stórt stundaglas nú orðið.

Gott ef þetta stendur bara ekki heima

Fiskur (19. febrúar - 20. mars):

Þú ert rugluð og týnd sál og hefur ekki hugmynd um hvernig þú átt að nýta hæfileika þína eða í hvaða átt þú átt að fara. Þú vilt vera alls staðar og upplifa allt. En þar sem þetta er ómögulegt, þá fer allt í vitleysu. En það gerir ekkert til, þú ert sérfræðingur í sjálfsblekkingum og því að flýja raunveruleikann.