þriðjudagur, desember 13, 2005

Smá viðbót

Í tilefni yfirlýsinga minna um ágæti hljómsveitarinnar Hraun hef ég bætt Hjalta og Svabba á annars rýran linka lista minn.

Best

Þuríður Óttarsdóttir, deildarstjóri miðstigs, hefur hlotið titilinn deildarstjóri Íslands. Þennan titil hlýtur hún fyrir það stórkostlega uppátæki sitt að gefa kennslukonum á miðstigi í skóinn á hverjum morgni. Við settum reyndar ekki skóinn í gluggann en hún hefur gripið til þess ráðs að skilja eftir súkkumæru og jórturleður í póstkössunum okkar. Nú bíð ég með sömu tilhlökkun og fimm ára eftir morgninum til að sjá hvað bíður mín. Ég fer jafnvel eldsnemma að sofa og mæti í vinnuna fyrir allar aldir slík er tilhlökkunin. Frábært hvað svona lítil viðvik geta glatt mann á aðventunni.

Ég hef einhverntíma heyrt því fleygt að titilinn hljómsveit Íslands hafi þokkapiltarnir (og stúlkan) í Stuðmönnum eignað sér fyrir löngu síðan. Þá bábylju ætla ég nú að kveða niður og lýsi því yfir að uppáhalshljómsveitin mín HRAUN er og verður hljómsveit Íslands. Uppistand þeirra á jólakennaragleði (eða á ég að hafa það kennarajólagleði) um helgina vakti slíka og þvílíka kátínu að ofsykruðum aðventubörnum og unglingum sem ekki geta verið kjurr, góð eða glöð hefur enn ekki tekist að þurrka sælubrosið af samkennurum mínum.

Lifi deildarstjórinn!
Lifi Hraun!