miðvikudagur, maí 23, 2007

Skjár 1

Ég hef yfirleitt verið tiltölulega ánægð með að hafa Skjá 1 og þótt hann ágætis (ókeypis) viðbót við sjónvarpsflóruna. Þó að ekki sé boðið upp á neitt þungavigtar menningarefni þá finnst mér afþreyingin alveg ljómandi. Þeir bjóða oft upp á skemmtilegustu (ammerísku) þættina og oft nýja og ferska. Það er hins vegar eitt sem ég er ekki ánægð með á téðum skjá og það er sú stefna þeirra að gera öllum þessum gripasýningum ungs fólks svona hátt undir höfði. Þeir kappkosta að sýna allar keppnir í ungfrú þetta og herra hitt í beinni útsýningu í tíma og ótíma. Nú tekur svo steininn úr þegar þeir ákveða að sýna „undirbúningsþætti“ á hverjum degi á besta tíma alla vikuna fram að næstu svona keppni. Hefur þessum ófögnuði ekki verið gert nógu hátt undir höfði hingað til? Var þessi viðbót nú alveg nauðsynleg?

mánudagur, maí 14, 2007

Í dag er fánadagur á Íslandi

14. maí er fánadagur íslenskur og ég er ein af fáum sem veit nákvæmlega hvers vegna. Ég tek það fram að það er ekki vegna þess að sauðþrá og hálf rotin ríkisstjórnin hélt velli (ég get samt ekki ímyndað mér að framsóknarmenn bjóði þjóðinni upp á frekari setu í ríkisstjórn). Nei það er vegna þess að „fossseti“ vor Ólafur Ragnar á „ammæli“ í dag. Af því til efni ætla ég svo sannarlega ekki að óska honum til lukku með daginn, ég þekki hann jú ekki neitt og hann les aldrei bloggið mitt. Hitt afmælisbarn dagsins er hins vegar einn af mínum dyggustu lesendum enda er henni málið skylt. Móðir mín ástkær á afmæli í dag. Til lukku með daginn mamma mín!

Heimatilbúið húsráð fyrir mig og þrjár aðrar manneskjur á landinu sem eiga ekki uppþvottavél

Ég er ákaflega stolt af þessu húsráði, ég fann það upp alveg sjálf í eldhúsinu mínu þar sem ég stóð, hlandblaut á maganum og vaskaði upp með gamla laginu. Ég verð að venja mig á að nota svuntu. Mér hefur alltaf þótt næsta ómögulegt að ná fitu og olíu af öllu sem er úr plasti; pastasigti og öllu tupperveri en ef maður notar þvottasvamp í staðin fyrir uppþvottabursta.......ótrúlegt hreinlega.

Þeim sem halda, í framhaldi af þessari færslu að skemmtlegurnar í mér þarfnist smurningar eftir alla heima- einveruna í fæðingarorlofinu bendi ég á að gera þá endilega eitthvað í því. Bjóða mér í bíó, leikhús óperu eða bara á kaffihús; koma í heimsókn og ræða við mig um bókmenntir, heimspeki eða bara fótbolta. Mér líður dásamlega með börnunum mínum tveimur en ég viðurkenni að vera aðeins farin að þrá félagskap fullorðinna.

föstudagur, maí 11, 2007

Pínu fúl

Svo virðist að Íslendingar séu alveg pikkfastir í annarideildinni í Eurovision og komast ekki upp úr henni. Hvað er til ráða. Mér finnst þetta bara verst af því að það minnkar svo vægi laugardagspatýanna þegar Ísland er úti.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Það er ekki....

...einleikinn andskoti að reyna að vinna með þetta bloggerdrasl. Það reyndist ekki nóg að klippa færsluna hér að undan í tvennt ég þurfti að klippa kvikindið í þrennt. Hvurslags eiginlega er þetta. Er einhver sem getur bent mér á hvernig ég get lagað þennan fjanda, annars endar örugglega með því að ég gef upp öndina fyrir alvöru hér í blogglandi.

Hinir dauðu vakna I

Eins og gera má ráð fyrir er fjölskyldan fyrir nokkru komin heim úr velheppnaðri för til Kananslands. Allir skemmtu sér alveg stórvel og stúlkurnar mínar voru alveg til fyrirmyndar. Það var hreint með ólíkindum hversu meðfærilegt pínkubarnið var í öllu umstanginu. Við versluðum hreinlega allt sem hægt var að versla. Ef einhver trúir því ekki getur hann komið í heimsókn og fengið að horfa á DVD diskinn Fat-burning Kickboxing Workout for Dummies sem ég keypti mér. Swear to god...


Hinir dauðu vakna II

Ég hef verið komin á fremsta hlunn með að setja hér inn langhund nokkrum sinnum en aldrei komið því í verk. Að frétta er þetta helst:

Kjartan: Er núna að ljúka síðustu vikunni sinni í Símanum. Á mánudaginn byrjar hann að vinna hjá Ansa og er nokkuð spenntur fyrir því . Hefur ákveðið að verða þrítugur í næsta mánuði. Væntanlega verður reynt að gera eitthvert mál úr því en það verður auglýst síðar.

Kolfinna Katla: Er að klára síðasta mánuðinn á yngsta stigi í grunnskóla. Á næsta ári verður hún komin á miðstigið. Er að vinna í því að missa það sem eftir er af barnatönnunum. Þegar allar augntennurnar verða farnar má hún fara í tannéttingar. Ekki lítil tilhlökkun þar.

Iðunn Ösp: Er komin með sex tennur sem hún er ákaflega stolt af og notar til að bryðja seríós allan daginn. Er búin að læra að sýna hvað hún er stór, klappa (þó aðallega fyrir sjálfri sér) og vinka. Er farin að sitja, skríða, standa upp og ekki síst.....DETTA. Síðustu tvær eða þrjár vikurnar síðan hún ákvað að rísa á fætur hafa verið ansi erfiðar því hún er sífellt á hausnum en neitar algjörlega að gera nokkuð annað en að standa í fæturna. Þetta horfir til betri vegar því ég sé að hún er búin að læra að setjast niður úr standandi stöðu sem er mikil framför hjá því að láta sig bara gossa.

Hinir dauðu vakna III

Sjálf: Er búin að fá staðfest að ég verð með 5. bekk næsta vetur. Til stóð að ég færi jafn vel upp á elsta stigið í íslenskuna en það breyttist. Reyndar er ég mjög ánægð með það. Í mínum skóla er því nefninlega þannig farið að það er mun skemmtilegra, af ýmsum ástæðum, að kenna á miðstigi en á elsta stigi.

Um helgina er þríheilagt; Eurovision, kosningar og formúla. Ekki leiðinlegur pakki það. Ég er að skipuleggja ofur-laugardag þar sem ég ælta að fara og kjósa, sjá Risessuna, fara á opnun myndlistarsýningar, fara í sund og enda í grilli og partýi í Mosó. Ef einhver ætlar að hafa það skemmtilegra en ég skora ég á hann að segja frá.

blogger er....

...DRASL