föstudagur, mars 31, 2006

Kisur

Ég er stoltur eigandi tveggja seinheppnustu kisa undir sólinni. Auk þess er ég sannfærð um að fresskettir í Kópavogi séu allir á kafi í neyslu og rugli og stórhættulegur félagsskapur fyrir kisurnar mínar litlu. Í gærkvöldi þurfti enn eina ferðina að ræsa út dýralækni þegar Þoka kom heim með svöðusár á fætinum eftir slagsmál við einn af þessum stórhættulegu pörupiltum úr Kópavogu. Það er ekki langt síðan Blíða kom heim með skottið lafandi vegna sýkingar eftir svipaða meðferð. Eru kisurnar mínar lagðar í einelti?

Þoka litla þurfti svæfingu og Ólöf dýralæknir, besta kona í heimi, saumaði skurðina og setti umbúðir á fótinn. Nóttin var ansi erfið eftir að svæfingin hætti að virka og litla greyið fór að staulast um, hálf vönkuð enn af lyfjunum, með staurfót sem hún skildi ekkert í. Hún komst ekki áfram og lítið afturábak, valt aðallega og datt um sjálfa sig og skældi ámátlega. Líðnum ætti að vera ljóst að ég svaf ekki mikið meðan á þessu gekk og heldur var sú sem aldrei grætur nálægt því að fella tár. á endanum slakaði hún nú á í fanginu á mér undir sæng og kúrði framundir morgun þó ekki svæfi hún mikið. Í dag er hún búin að prufukeyra staurfótinn og er auðvitað alls ekki ánægð með hann en getur þó talsvert staulast um. Hún er voða dugleg en brjóstumkennanleg. Mamma hennar átti líka voða bágt í nótt. Vildi helst fara með á spítalann og hringsólaði í kringum hana og reyndi að þrífa hana þegar hún kom heim án mikils árangurs. Sú litla kvæsti á hana og mamma virtist sár. Hún var einhvern vegin alveg eins og við hin, vildi gera eitthvað fyrir litla greyið en gat ekkert gert.

Nú ætlar sætastur að kaupa tryggingar fyrir kisurnar sínar svo lækniskosnaðurinn ætti að fara lækkandi.

fimmtudagur, mars 30, 2006

Cure for Pain

Er að hlusta á Cure for Pain með Morphine, það er bara lovely.

Bætti loksins Hörpu vinkonu og hennar fallegu fjölskyldu í Mílanó inn á linkalistann. Löngu tímabært en fyrir þá sem ekki þekkja til hefur hún gengið undir heitinu Hrappur Vessmann í mínum bókum síðan ég horfði á fílinn Blámann í Ríkissjónvapinu þegar ég var krakki og fær því þann virðingartitil á listanum. Ég skoða reglulega síðuna hennar og er orðin nokkuð þreytt á því að fara einhverjar krókaleiðir inn á hana, best að hafa hana bara við höndina.

Langar heim að sofa. Langur dagur í vinnunni í dag og mín orðin nokkuð lúin.

Advertising Space

Gerði nokkuð merkilega uppgötvun nýlega. Robbie Williams er alls ekki að auglýsa geiminn í nýjasta laginu sínu. Ég var búin að velta því fyrir mér af hverju geimurinn þyrfti á auglýsingum að halda, getur verið að fólk hafi hreinlega ekki tekið eftir honum???? Fyrir algjöra tilviljun fór ég að hlusta á textan í téðu lagi, Advertising Space, kemur þá ekki í ljós að hann alls ekki að auglýsa geiminn heldur fjallar lagið um auglýsingapláss..... Ein voða vitlaus.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Lagið um það sem er bannað

Af hverju langar mann alltaf í það sem er bannað. Ég er að mestu leyti laus við allt sem heitir löngun í sælgæti og gotterí. Mig langar ekkert í súkkumæru eða brjóstsykur, snakk eða sykurfroðu. Mig langar hins vegar stanslaust í lakkrís. Mig langar í lakkrís með súkkulaði og lakkrís með marsípani, lakkrísbrjóstsykur og lakkrís beint af trjánum.
Og lakkrís má ég alls ekki borða. Ullabara.

mánudagur, mars 27, 2006

Tóri

Eitthvað hlýtur fólk að vera farið að efast um tilvist mína þar sem ekkert spyrst af mér á öldum bloggvakans. Mig hafa hrjáð ýmis konar kvillar og flensur og vil ég ekki ræða það frekar. Umræðuefnið alls ekki skemmtilegt og ég legg það því ekki á lesendur.

Tókst nýlega hér á síðunni að móðga stórvinkonu mín Völu og biðst ég hér með velvirðingar á því. Það er náttúrulega ekki forsvaranlegt að slá svona um sig með einhverjum vanhugsuðum yfirlýsingum, ekki síst þegar svívirðingarnar beinast gegn Völu Nönn sem er ein af ástæðunum fyrir því að ég nenni yfirleitt í vinnuna á morgnanna.

Veðrið platar mann upp úr skónum þessa dagana. Það er svo fallegt; sólin skín og himininn er blár eins og litla Ameríkubarnið sagði í útvarpinu um daginn. Þvílíkt Reykjarvíkurundur. Drengurinn sem var ef ég man rétt 13 eða 14 ára og hafði lesið Hobbitann og fengið mikinn áhuga á fornnorrænni menningu og ekki síst íslensku. Ameríkubarnið settist því niður og kendi sjálfu sér íslensku eins og lög gera ráð fyrir. Talaði orðið (að því er virtist) kórrétta íslensku og dundaði sér við að þýða íslenskar barnabækur á ensku; Litla gula hænan og Þorrablót lágu orðið í valnum. Sumt fólk.

fimmtudagur, mars 09, 2006

Svo bregðast krosstré

Af einhverjum óskiljanlegum og óafsakanlegum ástæðum steingleymdi ég að óska konum allra landa til hamingju með daginn í gær. Að sjálfsögðu bæti ég hér með úr þessu og óska mér og öðrum til hamingju og alls hins besta í framtíðinni.

Í gærkvöldi horfði ég á sjónvarpið. Það telst nú tæpast til tíðinda því ég geri nú svona heldur meira af því en ég vildi gera opinbert. Klukkan hálf níu stóð valið á milli þess að horfa á Project Runway á ríkis eða Fyrstu skrefin á skjánum. Skemmst er nú frá því að segja að móðirin verðandi (sem er náttúrulega löngu orðin móðir en er bara að verða það aftur) krúttaðist til að horfa á Fyrstu skrefin. Ég er bara að velta því fyrir mér hversu stór hluti af þeirri ákvörðun byggist á óléttu. Einhvern tíma hefði ég sennilega haft mun meiri áhuga á þætti um framúrstefnulega fatahönnun en litlum barnakrúttum.

Þátturinn þótti mér reyndar nokkuð skemmtilegur og fræðandi og horfi örugglega á þann næsta og gott ef ég freistast ekki til að kaupa tímaritið líka. Nei er það ekki full mikið? Að horfa á fæðingu fær mann auðvitað alltaf til að missa þvag, ekki síst þegar maður veit að þetta á fyrir manni að liggja innan skamms.

Verðandi faðir horfði auðvitað með mér áhugasamur og spenntur og fannst mér það vel. Það skiptir ótrúlega miklu máli að hann missi sig pínulítið í þessu líka finnst mér.

ógleði komin aftur...

... með trukki og dýfu. Þessi vika búin að vera skrambi erfið, með gubbuna í hálsinum. Er samt búin að mæta í vinnu alla vikuna og er núna að reyna að mana mig upp í spenning fyrir árshátíð Símans á laugardaginn, það gengur reyndar ekkert rosalega vel.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Að rifna úr spenningi

Það eru núna nákvæmlega 4 dagar 19 klukkustundir 53 mínútur og 52 sekúndur.

Þeir skilja þetta sem eiga að skilja þetta.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Komin heim

Kaupmannahöfn var ljúf eins og við var að búast. Skítakuldi en ósköp notaleg stemning. Heimsótti vini mína Georg Jensen og Holmegaard með smá viðkonu í Illums boglighus. Verð bara að segja að þeir kunna hönnunina sína þarna í Danmörku. Hefði vel getað eitt svo ósköp miklu meiri pening en ég gerði. Gerði nokkuð góð fatakaup á fjölskyldun nema hvað sú ólétta fékk ekki óléttubuxur sem pössuðu. Gott að vita að hún Dorothy vinkona mín Perkins er farin að búa til óléttuföt.

Hjartans þakkir fyrir afmæliskveðjur og aðrar kveðjur, bæði í sms og bloggi. Og frú Fangor ég held að það sé skyldukaffi um helgina áður en ég hætti hreinlega að þekkja þig í sjón.

Góður matur í Köben. Og líka bjór skilst mér. Það er eitthvað rangt við það að sitja á Hvids Vinstue og sötra sódavatn.