þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Ég er gömul frænka sem heitir Ingeborg...

Frænka mín ein lítil sem er flutt ásamt honum Krissa sínum til lands Ikea og handbolta er farin að blogga. Ég óska henni hjartanlega til hamingju með það og bæti litla snillingnum inn á listann.

Óska henni líka til hamingju með það.

Ný og betri ég

Lengi getur gott bestnað hefur gjarnan verið haft fyrir satt. Í mínu tilfelli verð ég nú reyndar að velta því fyrir mér hvort satt sé. Ég er nefninlega þeirrar skoðunar að ég hafi verið svo assgoti gott eintak frá upphafi.

Nú stendur sem sé til að bestna mig. Og hvernig ætla ég að fara að því, jú með því að taka að mér að kenna 750 þús. tíma á viku og enn fleiri aukaverkefni, einkatíma fyrir menntaskólakrakka og meira ef ég get. Þetta er gert í þeirri trú að manneskjan (í þessu tilfelli ég sjálf) blómstri undir álagi og geti af sér ótrúlegustu afurðir. Sú er v0nin að með þessu læri ég að slökkva á sjónvarpinu, lesa fleiri bækur, fara oftar út, þéna meiri peninga, stunda meira kynlíf og svo framvegis og svo framvegis. Það gæti jafnvel farið svo að megrunin sem ég er búin að vera í, því sem næst árangurslaust, síðan ég man eftir mér fari kannski að bera árangur.

Þessi er nú vonin og þeir sem eru ósammála geta alveg tjáð sig um það.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Rigning

Gangaverðirnir eru að þrífa gluggana og þá er eins og úti sé rigning. Mér finnst rigningin góð.

föstudagur, ágúst 19, 2005

Herbst

Þá er búið sumarfríið, allt í einu og án þess að ég tæki eftir því. Á sunnudaginn áttaði ég mig skyndilega á því að ég hafði ætlað að gera ýmislegt skynsamlegt í sumar, þrífa skápa, breyta herberginu hennar Kolfinnu og svo framvegis. Við hjónin ákváðum því, á síðasta degi sumarfrísins að mál væri að drífa í þessu og ruddum öllu út úr bæði fataskápnum og herberginu og hófumst handa. Að sjálfsögðu þýddi þetta að heimilið er búið að vera rústir einar alla vikuna og allt út um allt. Ikea stóð náttúrulega undir nafni og átti ekki til á lager nema sumt af því sem okkur vantaði svo biðin varð heldur lengri en til stóð og endurskipulagið á heimilinu lét á sér standa. Í gær fórum við svo og sóttum það sem á vantaði, á elleftu stundu því dóttirin var væntanleg heim af vestfjörðum með föður sínum. Við náðum að ganga frá flestu áður en hún kom heim (ég hefði þó mátt þurrka úr gluggakistunni), litla stýrið hélt sig vera að dreyma þegar hún kom inn í nýju svítuna því hún hafði ekki hugmynd um framkvæmdirnar þegar hún fór að heiman. Full þakklætis lofaði hún öllu fögru um tiltekt og umgengni í „nýja“ herberginu. Við sjáum nú með það.

Skólinn er að hefjast og ný og krefjandi verkefni á döfinni. Mér finnst lífið spennandi og gaman að vera til. Veturinn leggst vel í mig og persónulega held ég að ég muni blómstra í vetur. Við sjáum nú til með það.