þriðjudagur, febrúar 11, 2003

Ég mundi það skyndilega í gær að ég er víst ennþá í skóla. Ég er að vísu búin með BA gráðuna mína en ég er ennþá skráð í sex einingar í íslensku og hafði hugsað mér að reyna að sinna því. Það var hins vegar dálítið seint að ætla að fara að muna eftir þessu í gær þar sem ég á að skila heimaverkefni í dag. Vitaskuld tókst okkur mömmu að rúlla þessu upp í sameiningu í gærkvöldi og tekst að skila þessu inn fyrir klukkan eitt í dag.

Nú er kisa úti svo mýsla litla leikur sér inni. Hún Þórdís, mikil sómakona og yfirmaðurinn minn á bókasafninu, er á fundi og þess vegna er ég núna að taka mér góðan tíma í að skrifa greinagott og skemmtilegt blogg í stað þess að skjóta bara inn stuttum frösum. Ég held reyndar að Þórdís hafi ekkert á móti því að ég eyði nokkrum mínútum dag hvern í þessar færslur mér finnst bara svo vont að verða uppvís að því að slæpast. Það hjálpar heldur ekki til að téð Þórdís virðist hafa fengið þá flugu í höfuðið að ég sé afskaplega greind og dugleg og samviskusöm (hvernig í ósköpunum sem hún komst nú að þeirri niðurstöðu) og mér er illa við að svipta hana þessari ágætu blekkingu. Þetta er sennilega besta herkænska og stjórnviska, telja undimönnum sínum trú um það að þeir beri ábyrgð og til þeirra sé borið traust. Leiðitamir kjánar eins og ég falla algerlega fyrir þessu og gera allt það sem þeir eiga að gera í vinnunni, í stað þess að laumast upp á kassaloft og fá sér lúr.

Þar kom að því. Hún Kolfinna Katla gekk algerlega frá mér í síðustu viku. Ég hefði haldi að það væri nóg að takast á við það að litla krílið á að fara í skóla næsta haust og er alveg við það að missa framtennurnar í neðrigómi en nei hún þurfti að bæta gráu ofan á svart og spyrja mig hvernig börnin verða til. Þetta kom svo gjörsamlega í þjóðhnappana á mér að af mér datt andlitið, ég átti svo sem von á þessu með skólan og tennurnar en spurninguna um býflugurnar og blómin ætlaði ég að láta ósvaraða í nokkur ár í viðbót. Þegar móðirin hafði svo roðnað og blánað í dálitla stund og gerði sig líklega til að svara þessari erfiðu en samt sem áður fullkomlega eðlilegu spurningu sló litla kvikindið öll vopn úr höndum hennar með því að útskýra þetta sjálf á afar einfaldan og látlausan hátt.... ég held það hafi hjálpað því sannast sagna er ég farin að ryðga all verulega í þessu ;-)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home