Eitt er það að segjast ætla að leika lausum hala og annað að framkvæma. Það er bara búið að vera svo mikið að gera hjá mér í vinnunni að ég hef ekki enn sett inn mikið á bloggið. Börnin í 4. bekk eru að vinna að heimildaritgerðum í íslensku og ég er búin að vera að hjálpa þeim að leita að heimildum. Þetta finnst mér reyndar skemmtilegasti hluti vinnunar minnar svo ég kvarta ekki. Hitt finnst mér samt merkilegt að þau skuli komin upp í menntaskóla gjörsamlega glórulaus um það hvernig bókasafn „fúnkerar“ fæst hafa hugmynd um að hér ráði ríkjum eitthvert ákveðið kerfi, hvað þá hvernig það virkar. Mörg þeirra halda að við höfum bara lagt bókasafnið tiltölulega vel á minnið og séum bara svona duglegar að leita og ótrúlega fundvísar. Einn piltur rak upp stór augu þegar ég benti honum á að allar hillur væru merktar, „vá en sniðugt“. Þegar ég svo sýndi honum að íslenskar skáldsögur höfðu raðtöluna 813 og röðuðust síðan í stafrófsröð eftir nafni höfundar hélt ég að augun ætluðu út úr höfðinu á honum, þetta fannst honum brjálæðislega sniðugt...
Ég er ekki viss um að reynslusögur af bókasafninu hafi sérstaklega mikið skemmtanagildi. Kannski ég haldi mig bara við það sem ég kann best; kvarta og kveina, bölsótast yfir samferðafólki mínu og segja hetjusögur af Kolfinnu Kötlu, stórkostlegasta barni undir sólinni og þó víðar væri leitað.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home