mánudagur, febrúar 26, 2007

Menningar og meiningar

Mikil ósköp hvað fjölskyldan hefur verið menningarleg upp á síðkastið. Á fimmtudaginn fórum við á setningu vetrarhátíðar og hlýddum á undurljúfa tóna eldorgelsins franska sem naut dyggrar aðstoðar Steintryggs dúettsins og Gísla Galdurs. Ég átti von á því að eldorgelið sjálft væri meira sjónarspil en raun bar vitni en þetta var dáindis skemmtilegt allt saman.

Á laugardaginn var ákveðið að láta eins og rykið á gólfunum væri ekki til heldur skellti fjölskyldan sér í bæinn þar sem hún kíkti á Jón Sefánsson og frönsku sýninguna Frelsun litarins/Regard fauve. Báðar ágætis sýningar en hvorki mjög framúrstefnulegar eða sláandi meira svona gamaldags og notalegar. Mér fannst stóra dóttir mín bara krúttlegust þegar hún hafði orð á því að hún hefði nú ekki gaman að því að skoða svona sýningar sem væru eintóm málverk heldur vildi hún fleiri skúlptúra. Krúttið! Að lokinni sýningunni kíktum við svo í Iðu, skoðuðum bækur og hönnun, drukkum kaffi og kakó og keyptum okkur svo sushi til að taka með heim. Allt í allt huggulegasti afmælisdagur.

föstudagur, febrúar 23, 2007

Í pínkubarnasundi

Iðunni Ösp finnst rosalega gaman í ungbarnsundi eða pínkubarnasundi eins og það er kallað í
Færeyjum.

Mannlegi tannhringurinn

Eins og ég sagði frá nýlega fékk ungbarnið fyrstu tönnina á dögunum. Það hefur alls ekki linað kvalirnar í gómunum því að næsta tönn er skammt undan. Þrátt fyrir að móðirin hafi vitaskuld verið að rifna úr stolti yfir þessaru pínulitla postulínsundri og gert heiðarlega tilraun til að berja hana aftur niður í gómin með teskeið af einskærri hamingju yfir þessu litla pling sem kemur þegar lamið er í hana verður að viðurkennast að þetta er svo sannarlega ekki allt tekið út með sældinni. Þar sem barnið er pirrað í gómnum treður það öllu sem það finnur upp í sig og nagar eins fast og litlu gómarnir ráða við. Eitt er það sem ég set upp í hana oft á dag og það eru geirvörturnar á mér og samkvæm sjálfri sér bítur hún vitaskuld líka í þær. Það er EKKI notalegt.

Nú sér vonandi fyrir endann á þessu vandamáli þar sem ég sé að næsta tönn er alveg að bresta á. Hún gæti hreinlega verið komin upp en ég ætla að fresta því að finna hana þangað til á morgun. Mér finnst bara flottara að finna hana þá. Ég er líka búin að æfa mig voða vel í að verða hissa þegar ég finn hana.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Upplýsingar

Nú bráðvantar mig að heyra í einhverjum sem hefur verið með brjóstabarn í Bandaríkjunum. Nánar tiltekið Flórída. Ég þarf nefninlega að fá að vita hvernig hinir teprulegu Bandaríkjamenn taka á brjóstagjöf á vergangi. Þætti ég dónalegasta kona í heimi ef ég vippaði út öðru brjóstinu á kaffihúsum, matsölustöðum í mollum o.s.frv., eins og ég geri jafnan hér heima, og gæfi barninu sopann sinn og ef svo er get ég þá alls staðar komist í „skipti- gjafaherbergi svo ég þurfi nú ekki að særa blygðunarkennd blessaðra kananna.

Enn fremur, er einhver þarna úti sem getur lánað Iðunni göngugrind? Hún komst í svoleiðis hjá Úlfhildi um daginn og fannst það frábært.

mánudagur, febrúar 12, 2007

Veðurfræðingar ljúga I

Hér kemur pistill sem ég er búin að reyna síðan á föstudag að koma inn á þetta bloggerdrasl. Ég neyddist að lokum til að setja hann inn í tvennu lagi. Ég er alveg við það að gefast upp á blogger og flýja á vit einhvers annars kerfis.

Mikið óskaplega er ég orðin þreytt á því að fjölmiðlar leiti alltaf hreint í skoðanabanka veðurfræðingsins Haraldar Ólafssonar þegar ræða á menntamál. Þó að maðurinn hafi slegið sig til riddara kennslu- og uppeldisfræða í síðasta kennaraverkfalli gerir það hann alls ekki að „autoriteti“ um málefni kennara eða nemenda. Nýjasta dæmið má finna í Blaðinu í dag (föstudaginn 9.). Þar er verið að fjalla um ímyndarherferð kennara, enn eina tilraunina til að kveða niður þá kreddu að kennarar vinni ekki fyrir laununum sínum. Trausti Hafsteinsson blaðamaður á Blaðinu leitar umsagnar áðurnefnds riddara. Haraldur „segist í raun vita lítið um hver raunverulegur vinnutími kennara sé.“ Skynsamari maður en Haraldur hefði hugsanlega látið það nægja þar sem hann hefur þegar viðurkennt að vita ósköp lítið um málið en ónei. Hann tjáir sig um hvað hann grunar að eigi sér stað og hvað hvarflar að honum að megi betur fara. Hann endar svo á vísdómsorðum fyrir alla: „Í skólastarfi sem og öllu öðru starfi, skulu menn gæta þess að verja tíma vel.“ Orð sem eiga vissulega rétt á sér en ósköp er það orðið hátt hrossið sem maðurinn hefur troðið sér upp á.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Hans í Koti

Blogger er skítalabbi, Iðunn Ösp er komin með eina tönn og ég er farin að sofa.

Veðurfræðingar ljúga II


Sjálf er ég þeirrar skoðunnar að veðurfræðingar vinni alls ekki fyrir laununum sínum. Þeir sjást í sjónvarpinu í u.þ.b. tvisvar sinnum tíu mínútur á hverju kvöldi og flytja einhverjar örstuttar veðurfréttir á rás eitt sem einungis bændur og sjómenn hlusta á. Þess utan ljúga veðurfræðingar oft og mikið eins og Bogomil benti á í sumar. Það er ekkert á veðurspár að treysta og ég held að ég geti eins tékkað á þessu sjálf næst þegar ég míg úti. Ég held að veðurfræðingar ættu að einbeita sér að því að vinna fyrir kaupinu sínu og ná einni og einni spá réttri í stað þess að eyða tímanum í að velta því fyrir sér hvað kennarar gera í sínum vinnutíma.

Og amen eftir efninu.




miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Stíbblaður nebbinn

Nú er mín sko orðin horuð. Ekki svo að skilja að ég sé að leggja af, ég burðast enn með þessi tvö kíló sem ég bætti á mig um jólin. Nei það er nefið sem er horað. Ég er rétt nýstaðin upp úr magaælupestardruslu og þá ræðst þetta kvikindi aftan að mér. Þetta kemur vitaskuld niður á nýhafinni sundiðkun Iðunnar Aspar því við neyðumst til að skrópa í sundinu á morgun. Iðunn er ekkert lítið skotin í Snorra og stendur sig eins og hetja. Hún er náttúrubarn í vatninu nákvæmlega eins og stóra systir hennar. Það háir henni ekki neitt að vera helmingi (eða því sem næst) þyngri en frumburðurinn hún stendur keik og finnst það gaman.

laugardagur, febrúar 03, 2007

Og ein tilraun í viðbót

Ég vissi að við áttum ekki að súkkulaðihúða rúmið hennar.

Og ekki Guðmund Stefán heldur.

Tilraun 2

Ekki seinna vænna að kenna ungbarninu að meta merkjavöru.

Stóra skautadrottningin mín mátar jólagjöfina sína.

Það tekur hálfa aðra eilífð að setja myndir inn með þessu móti en nú ætla ég að gerast djörf og reyna að setja inn tvær myndir í einu. Sjáum hvað vinur minn new-blogger segir við svoleiðis tilraunastarfsemi.

föstudagur, febrúar 02, 2007

Tilraun

Þetta er tilraun þrjú til að setja inn myndir með vini mínum new-blogger. Mæðgurnar um jólin.