fimmtudagur, febrúar 13, 2003

Karlhylli eða drenghylli dóttur minnar er ekkert í ætt við þann darraðadans sem samskipti mín og „veikara“ kynsins hafa verið í gegnum tíðina. Ég fór í foreldra viðtal á leikskólann og hún Magga, leikskólakennarinn hennar, hafði áhyggjur af því að hún væri vond við einn drenginn í „gimsteinahópi“. Henni fannst þetta mjög skrýtið í ljósi þess hversu sterka réttlætiskennd Kolfinna hefur og hversu sárreið hún var sjálf þegar hún var lögð i einelti í skamma hríð í haust. Magga hafði í fyrstu ekki grun um hvað hér væri á ferðinni en hélt samt að þetta gæti verið eitthvað sem tengdist kærasta/kærustu vangaveltum. Kolfinna er löngu lofuð, í fyrravetur var hún í slagtogi við sér eldri mann (villingur eins og mamman), Pálma John sem þurfti að fara í skóla í haust. Pálmi var búinn að reyna að tryggja feng sinn með því að segja mér að hann ætlaði að giftast henni en litla fiðrildið sá auðvitað við honum og í stað þess að sitja í festum yngdi hún upp og fann sér nýjan kærasta, ofursjarmörinn Gunnar Árna og þá komum við að kjarna sögunnar. Þegar ég fór að ganga á Kolfinnu kom í ljós að drengurinn sem varð fyrir aðkasti hennar vildi svo gjarnan fá að kyssa hana í tíma og ótíma. Þetta var litlu, sjálfstæðu skessunni minni ekkert um enda má enginn kyssa hana í leyfisleysi því hún á sinn líkama sjálf og ræður því hverjir eru eða eru ekki að kyssa hana. Þetta fannst mér góð lexía en benti henni jafnframt á að það væri rétt leið og röng leið við að segja fimm ára strákum að þeir megi ekki kyssa mann.

Allt þetta veldur mér talsverðum heilabrotum. Kærastavangaveltur finnast mér persónulega alveg óþarfar þegar maður er fimmaðverðasex. Það setur einhvern stimpil á vináttu stelpu og stráks sem er alveg óþarfur. Stelpur og strákar eiga að geta verið vinir án þess að þar búi eitthvað annað að baki og þegar fimm ára börn geta ekki verið vinir án þess að svona hugmyndum sé hldið á lofti veit ég ekki vel hvað gerist eftir nokkur ár. Það er hollt og gott að eiga beiðan og ólíkan vinahóp og þess óska ég dóttur minni, ekki þess að hvergi megi strákur koma nálægt henni án þess að vera kallaður kærasti.

En getum við annars ekki bara verið vinir????

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home