mánudagur, mars 31, 2003

Stundum þegar ég er með túrverki minnir það mig á að ég er lifandi. Að ég dreg andan, að ég finn til, að ég er kona en stundum langar mig líka að leggjast í sófann og hætta að vera til í smá stund.

föstudagur, mars 28, 2003

Erfiður dagur, púff, farin heim að undirbúa afmæli.

fimmtudagur, mars 27, 2003

Turning Japanese, I think I'm turning Japanese
I really think so.

miðvikudagur, mars 26, 2003

Seth Green er fyndinn.
Growing up: 'I was teasied because I was short, with red hair and had a funny name; and was hugely egoistical because I was so ridiculously intelligent and desperate for attention. I got the shit beat out of me plenty. I learned how to defend my self by becoming famous.'

Skemmtilegt.

þriðjudagur, mars 25, 2003

Nú er klukkan að verða fimm og ég er að fara að drífa mig heim til að gefa Valdísi og Vigfúsi kaffi (koffínlaust, því henni tókst auðvitað að þróa með sér ofnæmi fyrir koffíni, rugludallur). Ef allt fór eins og til stóð þá lentu þau í Keflavík klukkan 7 í morgun og ætluðu að mæta í kaffi klukkan fimm. Best að drífa sig....

mánudagur, mars 24, 2003

Ég veit sko hvað ég var að gera fyrir sex árum síðan....

Hún á ammæl'í dag, hún á ammæl'í dag....

Við ætlum að fara á Pasta basta í kvöld og fá okkur að borða og krota á dúkana, en samt aðallega að krota á dúkana. Kannski gef ég henni pakka af því hún er svo góð???

föstudagur, mars 21, 2003

Úr því að það er til Lexicon ætti þá ekki, svona til að gæta fullkomins jafnréttis, að vera til Dyslexicon líka?

Nú er Birgitta vinkona okkar Haukdal aldeilis búin að fá samkeppni. Rússneski lesbíu dúettinn Ta tu ætlar að keppa í júróvsjón. Ta tu dúettinn á heiðurinn að ósmekklegustu og fyrirlitlegustu markaðssetningu sem um getur. Hafi einhver haldið að með því að halda á lofti samkynhneigð (hvort sem hún er nú sönn eða login) látandi vel hvor að annarri léttklæddar í myndböndum og á tónleikum séu markaðsöflin sem á bakvið þær standa að reyna að höfða til samkynhneigðra veður sá hinn sami í villu og svima. Markaðsetningunni er ætlað að höfða til undirliggjandi blætisdýrkunar (fetish) allra karlmanna á lesbíum. They're exploiting the hell out of everyone....

Birgitta litla verður að koma upp með eitthvert rosalegt trix ef hún ætlar að slá svona lagað út. Ekki svo að skilja að ég hafi haldið að hún hafi átt nokkurn séns til að byrja með.

Í gær, eftir vinnu bjuggum við mæðgur okkur vel og hlýlega og fórum síðan í bæinn til að vera kommúnistar. Kolfinna skildi ekki alveg ekki af hverju við værum kommúnistar og ekki vel hvað kommúnistar væru svo hún ákvað að við værum túristar, það skildi hún í það minnsta. Við hlýddum á ræðumenn og öskruðum nokkur slagorð, bara svona rétt til að halda á okkur hita. Þetta virðist ekki mikið framtak til að stuðla að friði í heiminum en einhvern veginn var ég samt ánægð með mig þegar ég fór heim. Mitt lóð vegur ekki þungt á vogarskálarnar en í það minnsta taldi kollurinn á okkur þegar hausatalninginn var gerð og því fleiri sem mótmæla þeim mun meiri áhrifamáttur. Þetta sást þegar við fórum og mótmæltum aðförinni að falun gong iðkendum í fyrra, styrkur fjöldans rann um æðar okkar og okkur fannst við alls megnug. Mun færri mættu á Lækjartorg í gær en mættu í fyrrasumar á Austurvöll en hattinn ofan fyrir alla þá sem rifu sig út í suddann og létu í sér heyra.

Á leiðinni heim í bílnum æpti Kolfinna Katla full baráttuanda: „Ekki í okkar nafni“. Ég er ekki viss um að barnið hafi vitað hverju hún var að mótmæla, auk þess sem ég er alfarið á móti því að börnum sé blandað í pólitísk baráttumál eða áróður. Hér ræðir hins vegar ekki um hreinan pólitískan áróður heldur baráttuna fyrir friði og friður kemur börnunum við.

fimmtudagur, mars 20, 2003

Hver og ein Tomahawk flaug kostar um 50. milljónir króna. Ekki dettur mér í hug að reyna velta upp hugmyndum um önnur not fyrir þessa fjármuni.

Það viðrar vel til loftárása (o.k. ég veit ég stal þessum) en það viðrar ekki jafn vel til mótmælastöðu á lækjartorgi klukkan hálf sex dag heima á kalda Íslandi. Eigum við ekki að reyna að sýna af okkur smá manndóm og mæta samt?

miðvikudagur, mars 19, 2003

Enn er allt bilað hjá mér í dag. Ég blogga og fæ bara error og villuboð í hausinn. Ekki finnst mér það nú fallega gert. Ég ákvað að vera agalega sniðug og taka mér langan hádegismat, skreppa heim og fá mér afganga og jafnvel eina reykju eftir matinn, forréttindi sem ég alla jafna get ekki leyft mér. Ekki gekk það nú vel og allt sem ég hafði upp út krafsinu, fyrir utan hádegismat og reykju, er skaðræðis brunasár á hendina, ekki þægilegt.

Ég fór í búð í gær og í dag á ég flottustu sokka í HEIMI.

þriðjudagur, mars 18, 2003

Orð dagsins: Bombing for peace is like fucking for virginity.

það er eitthvað bilað, ég blogga en ekkert kemur. Allt er bilt.

Ætlar þetta allt að vera bilað í dag.

Í morgunþætti stöðvar tvö í morgun flutti Illugi Jökulsson pistilinn rétt eins og endranær á þriðjudögum. Oft mælist honum vitaskuld skrambi vel, enda manvitsbrekka hin mesta. Pistillinn þótti mér góður og vitna því í hann hér. Í morgun varð Illuga að yrkisefni nauðsyn þess að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Allt tal um yfirvofandi „stríð“ er tóm firra og yfirbreiðsla, það er enginn að fara í stríð. Hins vegar stendur til að bandaríkjamenn, dyggilega studdir af bretum (í það minnsta Tony Blair, svo bregðast krosstré) og í óþökk flestra annarra þjóða heimsins og Smeinuðuþjóðanna ráðist inn í Írak. Nefnum hlutina sínum réttu nöfnum. Þegar Írakar réðust, með yfirgangi og látum inn í Kúveit fyrir rétt um tólf árum síðan datt engum í hug að það væri stríð heldur innrás og enn þann daginn í dag tölum við um „innrás“ íraka inn í Kúveit...

Guði sé lof að við tilheyrum hinum „siðmenntaða“ hluta jarðkringlunnar. Veröld þar sem öll dýrin í skóginum eru vinir og Bangsapabbi vakir yfir okkur og gætir hagsmuna okkar, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

mánudagur, mars 17, 2003

Og enn ruglast haloscan...

laugardagur, mars 15, 2003

Nú erum við mamma fullar. Stefnan var sett á að leysa eitt til tvö verkefni í þessu annars dásamlega námi sem við erum í en það endaði auðvitað í gargandi fulleríi (þetta er ekki ásláttarvilla) og mamma matar mig á nóakroppi með skeið...
Ég sakna gömlu góðu daganna þegar viðmiðin og gildin voru önnur en þau eru í dag. Þegar ég var hvött til að klára matinn minn og hrósað þegar ég var dugleg að borða.... „ef þú verður dugleg og klárar allan matinn þinn þá færðu ís“, „svona Rannveig mín klára bjórinn sinn annars sendum við hann svöngu börnunum í Afríku“. Those were the days my friend, we thought they'd never end.....

fimmtudagur, mars 13, 2003

Allt vald til lesbinldra....

Tímaritið „Í formi“ er enn eitt lóðið á vogarskál alltumfaðmandi og kaffærandi líkams- og æskudýrkunar sem mótar íslenskt samfélag. Það æpir á lesanda sinn: vertu sætari, vertu grennri, vertu unglegri, vertu hraustari og vertu graðari. Hreinræktað íslenskt reglublað fyrir villuráfandi og stefnulausar íslenskar konur. Í dag ætla ég ekki að tæta það í mig (það væri of auðvelt) heldur benda á stórmerkilega grein á blaðsíðu 11. Þar segir frá vísindamönnum við háskóla í London sem höfðu ekkert betra við tíma sinn að gera en að afsanna gamlar kerlingabækur, að fótstórir karlmenn hafi einnig langan lim. Eftir mælingar á 104 karlmönnum á öllum aldri var því slegið föstu að ekkert samband væri þarna á milli.

Grískir kollegar þeirra í höfðu ekki heldur neitt skynsamlegt að gera svo þeir brugðu brandi (málbandi) og fundu fylgni á milli langra vísifingra og langra lima.

„Fyrirgefðu gætirðu nokkuð bent mér í áttina að næsta apóteki? ahe
mm!“

miðvikudagur, mars 12, 2003

Ein tönn hrundi í gær. Framtönnin í neðrigómi vinstramegin, hún er búin að vera laus síðan í haust. Nú gengur hún um, brosir stollt allan hringinn og glennir skarðið sitt framan í hvern sem er. Nú finnst henni hún vera orðin stór. Gljúfrið á milli tannanna er stórglæsilegt og þar mætti vel koma fyrir í það minnsta einni ef ekki tveimur fullorðins.
Þarna liggur munurinn á því að vera tæplega sex ára og því að vera ekki tæplega sex ára. Ef framtönnin í neðrigómi vinstramegin hefði hrunið úr mér þætti mér það ekkert æðislegt...

mánudagur, mars 10, 2003

Ég er svo mikið partýljón.
Vá hvað þetta var skemmtileg helgi, vá maturinn, vá rauðvínið, vá félagskapurinn, vá formúlan og VÁ og VEI hvað það var gaman að sjá enga rauða kalla á palli.
Og auðvitað vá Mosi og Cleo sætustu litlu kisurnar sem fannst góð hugmynd stunda skæruhernað á maganum á mér á meðan ég var að reyna að sofa.

laugardagur, mars 08, 2003

Til hamingju með daginn, KONUR um heim allan!

föstudagur, mars 07, 2003

Eins gott að það er ekki súkkulaðiselur og skötumús á matseðlinum á morgun...

Matthías Jóhannessen, ritstjóri og skáld bjó til lýsingarorðið skarphéðinn. Þetta lýsingarorð er í miklu uppáhaldi hjá mér. Matthías notaði það reyndar um fjall, talaði um að Hvannadalshnjúkur væri skarphéðnastur allra (minnir mig). Ég vildi gjarnan kynnast manni sem væri skarphéðnastur allra, hann mætti meira að segja vera skarphéðnari en flestir eða margir, það væri alveg nóg fyrir mig. Jafnel mjög skarphéðinn eða frekar skarphéðinn væri skárra en óskarphéðinn.

Ég myndi taka hann með mér í geymsluna!!!

Latur í dag og nennir ekki að hanga í vinnunni. Langar út að leika. Langar út að leika.

fimmtudagur, mars 06, 2003

Þetta segir mér nú ekki neitt
img src="http://images.quizilla.com/D/daddysgirl/1038272647_icsAncient.jpg" border="0" alt="Ancient">
You come from an Ancient Civilization. Egypt,
China, Rome... a piece of all the greatest
civilizations of their time can be found in
you.


Where Did Your Soul Originate?
brought to you by Quizilla


Orð dagsins: Betri er fúll andardráttur en enginn.

Í vinnunni minni er geymsla. Mér hefur áður orðið rætt um þessa geymslu, þá í samanburði við kassaloft þar sem Svövu Rán þótti einu sinni góð hugmynd að fá sér lúr. Stundum þarf ég að gera eitthvað í þessari geymslu. Ég þarf að sækja bækur, ganga frá bókum og stundum dvelst mér þar góða stund við að flokka og raða tímaritum. Þegar ég er í geymslunni grípur mig yfirþyrmandi löngun til að gera eitthvað af mér, eitthvað ljótt (og ég er ekki að tala um að kúka í heyjið eða tímaritarekkana). Geymslan er bara eitthvað svo einstaklega vel til þess fallin, hálfrökkvuð, stútfull af drasli og angandi af gömlum bókum. Ég hef enn ekki fundið þessum pervertísku kenndum mínum farveg en það er alltaf möguleiki. Ég veit, þetta er ekki alveg í lagi en guð ætli mamma sé nokkuð að lesa þetta....

miðvikudagur, mars 05, 2003

Hafið þið séð auglýsingu konunnar sem vantar upplýsingar í ævisöguna sína. Hún er að auglýsa eftir fólki sem þekkti hana á yngri árum og getur sagt eitthvað um hana, gott eða slæmt. Blessuð konan hefur eytt stórum hluta ævinnar í óminni og alsælu vímunnar og þarf nú að auglýsa eftir minningunum sínum. Hvort er þetta ofurgrátlegt eða heimsins mesta rokk?

ég er með stórsmellinn „tvöföldum Rey.....kjanesbraut“ á heilanum. Skemmtilegt. Og eins og Jón, vinur minn, Ævarr myndi segja: gott danslag.

Ég er svo húsleg og gamaldags að ég bauð til veislu í gær. Nanna og Jón Geir, Elfa og Gunni og Tumi komu og þáðu af mér kræsingar. Saltað kjöt og baunasúpa a'la amma á Sigló. Þeim virtist líka maturinn vel, í það minnsta grenjuðu þau af ofáti þegar þau kvöddu og fannst mér það vel í anda dagsins. Það var líka ágætis upphitun að kalla allan hópinn saman svona til að hita upp fyrir næstu helgi. Ég hlakka svo til. Í tilefni dagsins ætla nýbúarnir í Grafarvoginum að bjóða til veislu, skötuselur og súkkulaðimús skilst mér. Til stendur að spila til þrjú og kneifa dálítið öl (og sennilega kaffi) og horfa síðan á Ástralíu með tilheyrandi nattemad og kruðeríi. Undir morgun verður sennilegast lagst til svefns á einni stórri flatsæng í stofunni. Ég held það sé ekki hægt að hafa það skemmtilegra.

Upp er runninn öskudagur. Ég gerði út af örkinni kúrekastelpu í morgun og vonast til að hún komi heim af leikskólanum með ránsfeng af rauðskinnum. Ef svo óheppilega vil til að engir rauðskinnar verða á vegi hennar sá ég í það minnsta tvær árennilegar Línur með langa sokka sem má alveg gera sér að góðu enda flétturnar rauðar.

Mottó gærdagsins: Oft má salt kjöt liggja.

mánudagur, mars 03, 2003

....Þá sprautaði Arnór vatni en varúlfarnir klóruðu og bitu svo drekarnir þurftu að klóra og bíta líka. Fíllinn og drekarnir spúðu vatni og eldi á varúlfana þangað til þeir gátu ekki staðið upp af því að þeir voru dauðir og það var dálítið gott á þá.

Gosi Pétur og litli drekinn fóru á bakið á mömmunni og þau flugu af stað en þau stoppuðu aðeins á leiðinni af því að þeir sáu villihund sem ákvað að vera vinur þeirra. Hundurinn hét Vaskur. Þeir komu auga á kastala þar sem var prinsessa sem leiddist svo mikið af því að hún var ein, hún átti samt vini en þeir gátu ekki verið hjá henni. Gosi Pétur átti reyndar að leita að þessari prinsessu og mömmu hennar sem var í öðrum kastala. Kóngurinn beið svo í enn öðrum kastala. Prinsessan var föst uppi í hæsta turninum því Kottel sem var ill kona hafði rænt henni. Verðirnir spurðu Gosa Pétur hvað hann væri að gera og hann plataði þá og sagðist vera að leita að Kottel en svo laumaðist hann og bjargaði prinsessunni....

Spennan magnast og svei mér ef rómantíkin er ekki skammt undan....