föstudagur, mars 21, 2003

Í gær, eftir vinnu bjuggum við mæðgur okkur vel og hlýlega og fórum síðan í bæinn til að vera kommúnistar. Kolfinna skildi ekki alveg ekki af hverju við værum kommúnistar og ekki vel hvað kommúnistar væru svo hún ákvað að við værum túristar, það skildi hún í það minnsta. Við hlýddum á ræðumenn og öskruðum nokkur slagorð, bara svona rétt til að halda á okkur hita. Þetta virðist ekki mikið framtak til að stuðla að friði í heiminum en einhvern veginn var ég samt ánægð með mig þegar ég fór heim. Mitt lóð vegur ekki þungt á vogarskálarnar en í það minnsta taldi kollurinn á okkur þegar hausatalninginn var gerð og því fleiri sem mótmæla þeim mun meiri áhrifamáttur. Þetta sást þegar við fórum og mótmæltum aðförinni að falun gong iðkendum í fyrra, styrkur fjöldans rann um æðar okkar og okkur fannst við alls megnug. Mun færri mættu á Lækjartorg í gær en mættu í fyrrasumar á Austurvöll en hattinn ofan fyrir alla þá sem rifu sig út í suddann og létu í sér heyra.

Á leiðinni heim í bílnum æpti Kolfinna Katla full baráttuanda: „Ekki í okkar nafni“. Ég er ekki viss um að barnið hafi vitað hverju hún var að mótmæla, auk þess sem ég er alfarið á móti því að börnum sé blandað í pólitísk baráttumál eða áróður. Hér ræðir hins vegar ekki um hreinan pólitískan áróður heldur baráttuna fyrir friði og friður kemur börnunum við.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home