Takið gleði ykkar á ný.
Já kæru lesendur þið getið tekið gleði ykkar á ný. Gleymið öllu ergelsi yfir slöku gengi í Kiev, gleymið sorgum ykkar yfir því að hafa ekki náð í miða á Iron Maiden og gleymið öllum hugrenningum um að gaman væri nú að skella sér á Foo Fighters eða Duran Duran. Fyrir alla muni látið ykkur ekki detta í hug að þið hafið mist af neinu skemmtilegu af því þið tímduð ekki að borga ykkur inn á listahátíð.
Og hvað er það, gætuð þið spurt, sem á að lyfta hjörtum vorum upp úr grámyglulegum hversdagsleikanum? Jú, einn snjallasti tónlistamaður vorra tíma er á leið til Íslands. Stuðboltinn hrokkinnhærði, gleðigjafinn með englaröddina Michael „how's my hair“ Bolton er loksins að koma. Og eins og stórvinur minn Bubbi Morteins sagði einu sinni: „Góðir Íslendingar þið getið byrjað að naga húsgögnin ykkar“ slík er stemningin yfir þessari heimsókn.
Í tilefni þessa stórviðburðar var viðtal við eftilætis fjölmiðlaprinsessuna okkar allra, Valdísi Gunnarsdóttur Michael Bolton aðdáanda númer eitt, í fréttablaðinu fyrir helgina. Hún hefur að sjálfsögðu eins og sönnum aðdáanda sæmir þegar séð goðið á tónleikum fyrir nokkrum árum í Kaupmannahöfn. Verst þykir mér að við Íslendingar fáum ekki notið þeirrar snilldar sem Valdís naut það kvöld því hún fékk tvo fyrir einn tilboð.... Michael Bolton og Kenny G á sömu tónleikum.
Geri aðrir betur.