miðvikudagur, maí 11, 2005

Til upplýsingar

Lokið er samræmdu prófi í íslensku. Sjálfri var mér allri lokið eftir það. Dálítið eins og sprungin blaðra. Ég hafði beðið þessa með í það minnsta eina önd ef ekki fleiri í hálsinum í talsverðan tíma og vissi ekki vel hvað ég átti af mér að gera þegar þetta var búið. Nú verða taugarnar rólegar alveg þar til líða fer að niðurstöðunum þá mun taugaveiklun að öllum líkindum gera vart við sig að nýju.

Um efni og innihald prófsins ætla ég ekki að tjá mig mikið hér. Í heildina fannst mér prófið nokkuð sanngjarnt þó mér, bókmenntafæðingnum, hafi ein spurningin í bókmenntahlutanum komið þó nokkuð spánskt fyrir sjónir. Er satt að segja ekki búin að átta mig alveg á henni ennþá. Ég er nokkuð sammála gagnrýnisröddum um að ritgerðar efnið hafi verið talsvert snúið en um leið finnst mér það sorglegur vitnisburður um unglingana okkar að þeir séu svo illa upplýstir og lítið meðvitaðir um það sem er að gerast í kringum þá að þeir komi af fjöllum þegar rætt er um styttingu stúdentsprófsins. Það er jú ekki eins og þetta komi þeim ekki við.

Var ég ekki búin að lofa að tjá mig ekki um þetta?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home