föstudagur, maí 30, 2003

Blóm og kransar.

Fékk loksins bréf í póstinum í gær sem ég hef beðið eftir með mikilli óþreyju. Bréfið var líka ánægjulegt því að ég var ein af þeim sem sluppu í gegnum síuna og komust inn í kennsluréttinda námið. Ykkur er frjálst að óska mér til hamingju núna. Svo er ég líka með stærstu brjóst í heimi (eftir því sem krílið heldur fram) og það má auðvitað óska mér til hamingju með það líka.

Breaking news

Það ku vera föstudagur í dag og það ku vera gott.

miðvikudagur, maí 28, 2003

Það er bara eitthvað við það að finna guð í ljóðum, það virkar.

Og hér Sigurbjörg:

Morgunfundur

Fróðlegasta útsýni sem ég get hugsað mér
eru tvær kantaðar
sólir
önnur appelsínu gul hin tunglgul
yfir rústum
af gamalli borg

þar sem margir hafa leitað guðs
en í hans stað fundið
marmara
sem selja má
fyrir alla heimsins kossa

hamingjan fæst í skiptum fyrir grjót
en guð
er fastur í húsarústum

sítrónugulum á góðum degi

Kannski gef ég einhverntíma út svona ljóðhverfingar.

Já, hér er Gyrðir:

Aftur á bernskuslóðum

„Sjáðu rauða
húsið þarna!“

Ég sé það,
ég sé það.

Þarna ólst ég upp,
þarna óttaðist ég
lífið.

Innan við
stofugluggann
sést einhver
ganga um.

Vonandi
er það
ekki ég.

Konan í útvarpinu var að stinga upp á tjaldútilegu um helgina. Hún er mjög sennilega brjáluð. Reyndar heitir hún Hrafnhildur og er útvarpskona á rás tvö og ein sú allra allra leiðinlegasta sem ég heyri í.

Var að fá í hendurnar tvær nýjar ljóðabækur; Tvífundnaland eftir Gyrði Elíasson og Túlípanafallhlífar eftir Sgurbjörgu Þrastardóttur. Þær eru báðar dásamlegar, hver veit nema ég birti dálítil tóndæmi í dag.

föstudagur, maí 23, 2003

Það geta bara ekki verið 20 ár síðan „Hand in Glove“ kom út, þetta hlýtur hreinlega að vera lýgi.

Svei mér ef það hefur ekki heill hellingur gerst sem vert er að nefna. Bloggfærslur hafa upp á síðkastið einkum verið í tveggja-línu formi og fátt eitt bitastætt. Mamma átti afmæli í síðustu viku, láðist víst að nefna það og óska henni til hamingju hér á síðunni. Hún átti afmæli daginn fyrir próf og því var ekki gerlegt að fagna því með miklum látum á miðvikudeginum. Þess í stað fór sætasti pabbi í heimi (pabbi minn) með hana í óvissu/dekurferð. Hann sendi hana í indverskt nudd í einn og hálfan tíma og síðan í sund og lét svo sérfæðinga um að farða hana og punta fyrir kvöldið. Hún var í þeirri trú að þau væru að fara tvö ein út að borða og varð því mjög hissa þegar við systurnar, Ási og Gummi frændi sátum uppstríluð (ef gallabuxur teljast vera til uppstrílunar) á koníaksstofunni á Tjörninni og sötruðum dry-martini (með tveimur ólífum), þ.e.a.s. við Gummi sötruðum dry-martini það þýðir lítið að bjóða börnunum upp á svo fágaða drykki, þau drekka bara jelly-shot, bachardi breezer og woodies. Við reyndum að koma henni í skilning um að þetta væri allt saman tilviljun, við hefðum bara verið að fara út að borða og ekki haft hugmynd um að þau ætluðu að vera þarna. Það er skemmst frá því að segja að hún trúði því bara alls ekki. Maturinn var vitaskuld óviðjafnanlegur og ég ætla ekki að gera tilgangslausa tilraun til að lýsa honum hér en bendi fólki góðfúslega á að ekkert er til undir sólinni betra en franska súkkulaðikakan á Tjörninni. Í heildina mikið ágætis kvöld.

Krílið fór í skólaheimsókn á þriðjudaginn (þá átti ég einmitt 9 ára stúdentsafmæli auk þess sem Dóri átti 50 ára afmæli, Helga og Ágúst 3ja ára brúðkaupsafmæli og Valdís og Vigfús 2ja ára brúðkaupsafmæli, ég óska okkur öllum til hamingju með daginn). Heimsóknin gekk afar vel en Melaskóli er stór skóli og krílið er pínu lítið. 80 börn eru skráð í 1. bekk næsta vetur sem þýðir 4 20 barna bekkir sem getur verið dálítið töff. Í heimsókninni var þeim skipt eftir stafrófsröð í fjóra hópa, það verður ekki skipt í bekki fyrr en í haust, og þau voru sett í ákveðið prógram í tvo tíma. Það er ekki alveg laust við að móðirin sé dulítið uggandi yfir þessu öllu saman en eins og skólaritarinn benti nojuðu móðurinni réttilega á þegar hún var að skrá krílið í skólan og spurði allra spurninga sem hægt er að láta sér detta í hug, þá hafa börn byrjað í þessum skóla nokkrum sinnum áður og það hefur bara gengið nokkuð vel!!!

Að öllu leiðinlegri fréttum. Nágrannarnir mínir eru fluttir á Ísafjörð. Nógu slæmt þótti mér nú þegar Elfa og Gunni stungu mig af upp í Grafarvog en að stinga mig af til Ísafjarðar er bara óforskammað. Nú á ég sum sé von á nýjum nágrönnum og Tumi óskaði mér þess að þeir verði nú almennilegir um leið og hann knúsaði mig að skilnaði. Ég benti honum á að það væri erfitt, næsta ómögulegt, að toppa þetta....

jæja mín bara orðin væmin!

23. maí. Þetta á að merkja eitthvað. Á þessi dagsetning ekki að hafa einhverja merkingu fyrir mig. Bíddu nú við, á kannski einhver afmæli í dag.
Nú er ég auðvitað bara að stríða, stóri bróðir á vitaskuld afmæli í dag, orðinn miklum mun eldri en ég (eða hann) kæri mig um að nefna.

Til lukku með daginn gamli minn! mikið væri nú gaman að hoppa upp í næstu flugvél og halda upp á „ammælið“ með þér (á Dalvík þ.e.a.s., ekki um borð í flugvélinni).

miðvikudagur, maí 21, 2003

Ef leitarorðið rokktónlist er slegið inn í nýju leitarvél þjóðarbókhlöðunnar birtist „yours truly“ efst á blaði. Það er nú bara tiltölulega töff.

mánudagur, maí 19, 2003

Ég þoli ekki þessa rauðu fíat bíla. Það dugar ekki einu sinni að kveikja í þeim.

föstudagur, maí 16, 2003

Ég hef aðeins eitt að segja:

Carribian queen
now we're sharing the same dream
and our heart's they beat as one
no more love on the run.

_ _ _

og hún var sveitt þá
sveitt og þreytt, enda helvíti heitt

jább, I've oficially gone mad...

Það er einungis takmarkað sem hægt er að slæpast í vinnunni án þess að gera nokkuð af viti. Nú er ég búin að skoða allar bloggsíður sem ég þarf að skoða og lesa öll bréf frá póslista femínistafélagsins (og þau eru nokkur), ég er búin að kíkja á nokkrar heimasíður og fá mér kaffi. Klukkan er orðin níu og ég er að verða tiltölulega leið á þessu og er að hugsa um að snúa mér að því að plasta einhverjar bækur, raða aðeins í hillur og hringja í eitthvert mikilvægt fólk.

Það þarf sennilega ekki að taka það fram að yfirmaðurinn minn er í útlöndum (eins og fleiri).

fimmtudagur, maí 15, 2003

ÉG ER BÚIN!!!!!!!!

miðvikudagur, maí 14, 2003

Stafrófinu af bætiefnum fékk hún í hann blekkt
með smurolíukönnu og stórri trekt

Að mínu mati einn besti dægurlagatexti síðari ára.

Hún á ammæl'í dag
hún á ammæl'í dag
hún á ammæl'ún mamma
hún á ammæl´'í dag

Fánadagur í dag, hefur ekkert með það að gera að mamma á afmæli heldur á forsetaómyndin okkar afmæli (má ekki segja svona, þetta flokkast ekki undir landráð eða föðurlandssvik). Ef þið hittið mömmu ekki vera mikið að minnast á hversu skemmtilegt það sé að hún skuli eiga afmæli sama dag og herra Ólaflur, henni finnst það bara ekkert svo rosalega fyndið og svo er það líka að verða dálítið þreyttur brandari.

Þegar maður er búin að lesa aðeins of lengi fram á kvöld og er aðeins farinn að dotta ofan í bækurnar getur verið mjög frískandi að skreppa fam á bað og plokka á sér augabrúnirnar. Maður glaðvaknar bara alveg um leið, betra en nokkurt skot af kaffi. Augnháraplokkun er kapítuli útaf fyrir sig. Krílið tekur út fyrir að horfa á mömmu sína við þessa iðju: „hættu mamma þú gætir meitt þig“. Kolfinna mín, þú ert ekki alveg að skilja þetta, mamma „gæti“ ekki meitt sig, hvert einasta hár er dregið út með píslum og þjáningum og mamma meiðir sig mjög mikið.

Þá skilur sex ára dóttir mín ekki alveg af hverju ég er að þessu!

þriðjudagur, maí 13, 2003

Hey Jude, it's ment to be....



Jude Law: you like them romantic and British with
beauiful green eyes.


Which guy are you destined to have sex with?
brought to you by Quizilla

Þetta er líka nýtt fyrir mér.



You have the Power of Flight!


What's Your Magic Power?
brought to you by Quizilla

Ég held að dagurinn dag sé dagurinn sem ég ætla að eyða í að taka öll tilgangslausu prófin sem ég hef ekki tekið hingað til.


wolverine
Sheesh, another fangirl. Well, I dont blame you.
How can any woman resist a sexy body, and the
ruggedness that is Wolverine? Hes a loner by
nature, a heavy drinker, and is plagued by
memories of his past...or lack thereof. It may
take time to work your way into his heart, but
when you do, he'll do anything for his woman.
Just be careful, he has a tendency to stab
people in his sleep. ^_^;;


Who Is Your Ideal X-Men 2 Mate? (ladies only)
brought to you by Quizilla


Nammi nammi namm!

I am what?


So goth you're dead!
You are every goth-kids dream!


Which Ultimate Beautiful Woman are You?
brought to you by Quizilla


Er þetta nú svo sannleikanum samkvæmt?

mánudagur, maí 12, 2003

Ég nenni nú ekki mikið að vinna, þessar síðustu mínútur áður en ég loka en ég nenni heldur ekkert sérstaklega að blogga. Ég er á fullu að reyna að drífa í því að fara á taugum fyrir þetta próf, það gengur bara ágætlega þar sem ég kann ekki neitt og skil ekkert af námsefninu. Af hverju getur maður ekki asnast til að gera bara eitt í einu. Það er svo yfrið nóg að vinna fulla vinnu þó maður þurfi ekki að vera að bæta við sig einhverjum einingum sem maður þarf ekkert á að halda.

Púff, nenni þessu ekki.

föstudagur, maí 09, 2003

Ef Jude Law væri góður vinur manns, hvenær ætli maður yrði þreyttur á að segja við hann: „Hey Jude“?

Ég auglýsi eftir huggulegum manni til að fara með í óperuna á þriðjudagin, mig langar á Mozart tónleika í óperunni á þriðjudaginn og langar að hafa með mér mann. Það er eitthvað svo viðeigandi að mæta í óperuna með karl upp á arminn. (ef einhver af vinkonum mínum býðst til að fylla í skarðið eða lána mér kærastann sinn er ég ekki viss um að ég geti stillt mig um að sparka í hana svo þið skulið halda ykkur á mottunni)

Tumi segir að það sé ekki-veður þessa dagana. Það er ekki sól og ekki rigning en það er heldur ekki ekki sól og ekki ekki rigning, það er ekki kalt og þaðan af síður væri hægt að segja að það væri hlýtt. Það er ekki komið sumar en veturinn er farinn, kannski verðum við að kalla þetta vor en samt er þetta bara hlandvolgt vor, ekki alveg vor. Gróandinn var allur kominn af stað en sá að sér á síðustu stundu og hætti við, alltof kalt á Ísalandi, samt er orðið svo bjart á kvöldin að krílið mitt neitar staðfastlega að fara að sofa þar sem enn sé úti hábjartur dagur og hún segir sko „hábjartur“ af því það er svo flott orð....

10. maí, segi og skrifa 10. maí. Ykkur getur ekki verið alvara með þessu.

fimmtudagur, maí 08, 2003

Mín er orðin svo góðu vön að nú þolir hún ekki tölvumúsir sem eru ekki með skrolltakka. Nýja tölvan mín í vinnunni heldur að hún komist alla leið á kynþokkanum bara af því að hún er svört en það vantar skrollið á músina.

Og talandi um músir. Nú er kisa í útlöndum og þessi litla mús leikur inni. Stundum verður maður að vera óþekkur. Alveg eins og Emil, vinur minn, frá Kattholti í Smálöndum sagði stundum verður maður að sötra súpu til að vita að hún sé súpa. Hann ætti líka að vita það, eins óþekkur og hann var.

Ég hélt í morgun að það ætlaði að vera sumar í dag, kannski hefur verið hætt við það. Hitinn úti hefur í það minnsta hækkað dálítið og persónulega finnst mér rigningin bara góð. Ég hlakka svoooooo til að fara í sumarfrí. Ég veit ekki alveg hvenær ég kemst endanlega í frí en ég geri ekki ráð fyrir að vinna langt fram í júní, fyrstu vikurnar sennilega. Svo fer ég í frí,á launum og svo fer ég til útlanda, á launum. Ég átti von á því að krílið myndi missa sig af spenningi vegna yfirvofandi utanferðar en ég er miklum mun spenntari en hún. Ég hafði áhyggjur af því að segja henni frá þessu of snemma af því að hún hefði ekki þolinmæði í að bíða fram í júlí en hún er alveg pollróleg, móðirin með stáltaugarnar er hins vegar að fara á límingunum og getur mjög illa beðið, sýnt stillingu og þolinmæði eða verið til fyrirmyndar á nokkurn hátt.

Ég var að horfa á mynd með Jennifer Aniston í gær. Það kom mér mikið á óvart að þessi sæta, pena kona hefur ekki sætar og penar hendur. Ég átti von á að hún hefði mjóa, langa fingur og fínlega hendi en hún hefur þvert á móti stórar og grófar hendur, næstum því karlmannlegar. Mér fannst það dálítið flott hjá henni!

þriðjudagur, maí 06, 2003

Vissuð þið að eitt af nöfnunum sem Aragorn var þekktur undir var Þengill. Það er svo gott að vinna á bókasafni, það er næstum þvi jafn gott og það að búa í Kópavogi.

Ég var að fá nýja bók, Techniques of the World's Greatest Painters. Á kápunni eru nokkrir af uppáhöldunum taldir upp van t.d. Eyck, Leonardo, Caravaggio, Vermeer, Manet, Cézanne, Kandinsky, Dali, Klee og Pollock. Ég staldraði aðeins við Pollock....Techniques....viljum við endilega vita hvaða tækni Jackson Pollock beitti við að gera myndirnar sínar? Maður hefur jú heyrt sögurnar....

mánudagur, maí 05, 2003

Það er nógu gott að fjargviðrast yfir því að ég nenni ekki að blogga en taka svo varla eftir því þegar maður „fönixast“ upp úr öskustónni. Ég er farin að efast stórlega um að nokkur nenni að koma hér við núorðið, meira að segja mamma er hætt að melda sig og henni er nú málið dálítið skylt. Annars er internetið í vinnunni minni latt og leiðinlegt í dag svo ég efast um að ég nenni að blogga mikið. Heima á ég hins vegar nýja og fína tölvu sem kallar sig Blue Master, því tók hún upp á alveg sjálf. Hún er stór og flink og dugleg, ég notaði hana til dæmis í gær til að horfa á Chicago og hálfa 9. seríu af Friends (af því ég hef ekkert skynsamlegra að gera). Kannski helli ég yfir hana kampavíni svo við getum „alltaf verið saman, saman í rafrænum draumum“, eða þannig.

laugardagur, maí 03, 2003

Ég var að hlusta á „Senses working overtime“ með XTC, vá hvað það er gamalt og skemmtilegt. Nú ætla ég að hlusta á uppáhaldslag allra tíma „Having it all“ með Eighth wonder feat. Patsy Kensit. Gaman gaman. Svo er ég að hugsa um að hlusta á helling af femínistarokki, Helen Reddy, Liz Phair, Poe og Seven Year Bitch og skúra gólfin. Jíííha

Ég sé að linkurinn inn á „rantinn“ virkar ekki lengur, enda búið að loka honum og því sagði ég að máttur kvenna væri mikill. Ef einhver hefur ekki orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að skoða þessa viðurstyggð þá var þarna að finna kvenfyrirlitningu og viðbjóð af fyrsta klassa. Keppendur fegurðarsamkeppna fengu þvílíka útreið að hver meðal kú hefði sagt upp mjólkurkvótanum og gengið sjálf í sláturhúsið (kann ekki að hafa það eftir en þær voru dæmdar og þeim gefin einkunn og orðbragðið sem því fylgdi.........úff, ungu menn). Aðrar konur, áberandi í þjóðlífinu fengu líka sína sneið, allt jafn hlaðið og yndislegt. Þegar síðunni var lokað birtist hins vegar yfirlýsing sem gladdi örlítið, þar stendur orðrétt. „Ranturinn er dáinn, en rís vonandi aftur von bráðar með nýjum sálum og betri samvisku“. Þetta segir mér að þeir hafi skammast sín og hafi vilja til að bæta sig og hugrekki til að viðurkenna það. En kannski er ég að lesa of mikið út úr þessu, ég vona ekki.


föstudagur, maí 02, 2003

Máttur kvenna er mikill eftir allt saman!

Og húrra fyrir batnandi mönnum því þeim er best að lifa.

....og pylsugerðarmanninum.

Væri einhver einhverstaðar til í að gera eitthvað skemmtilegt í netheimum. Ég held engan veiginn athygli í vinnunni í dag....

Fjölmiðlum tókst að láta breiðfylkingu bleikklæddra feminista í 1. mai göngunni fara algjörlega fram hjá sér. Það er ekki svo lítið afrek þar sem fátt virtist vera meira áberandi en sterkbleikir bolir og borðar Feministafélags Íslands. Félagar gerðu svo lykkju á leið sína, sniðgengu fjöldasamkomu á Ingólfstorgi og héldu sinn eginn fögnuð í Þjóðleikhúskjallaranum. Þar voru heldur engir fjölmiðlar. Það er ekki til mikils að sniðganga opinbera samkundu þegar enginn tekur eftir sniðgöngunni. Það þýðir víst lítt að bölsótast yfir því, Björn bóndi steindauður og við verðum að safna liði. Það var auðvitað mjög gaman í kjallaranum, listamenn frömdu listir og jafnvel spaug ýmiskonar.

Sjálf varð ég, vegna hins þráláta hors, að sniðganga gönguna en mætti hins vegar í sniðgönguna og skemmti mér vel (ef einhver skilur þetta ekki er það vel skiljanlegt). Ég bauð síðan sjálfri mér, krílinu mínu og nokkrum félögum í verkalýðskaffi til Elfu og Gunna í sveitinni. Kaffið, unnið úr blóði og svita úr nýmöluðum verkalýðnum, var hið besta og mér fannst ég hafa varið „kommúnistadeginum“, eins og hann var jafnan kallaður á æskuheimili mínu, nokkuð vel.

Helginni ætla ég svo að eyða í að ná úr mér leifunum af þessu þráláta hori. Ég get nú hugsað mér margt skemmtilegra.