Svei mér ef það hefur ekki heill hellingur gerst sem vert er að nefna. Bloggfærslur hafa upp á síðkastið einkum verið í tveggja-línu formi og fátt eitt bitastætt. Mamma átti afmæli í síðustu viku, láðist víst að nefna það og óska henni til hamingju hér á síðunni. Hún átti afmæli daginn fyrir próf og því var ekki gerlegt að fagna því með miklum látum á miðvikudeginum. Þess í stað fór sætasti pabbi í heimi (pabbi minn) með hana í óvissu/dekurferð. Hann sendi hana í indverskt nudd í einn og hálfan tíma og síðan í sund og lét svo sérfæðinga um að farða hana og punta fyrir kvöldið. Hún var í þeirri trú að þau væru að fara tvö ein út að borða og varð því mjög hissa þegar við systurnar, Ási og Gummi frændi sátum uppstríluð (ef gallabuxur teljast vera til uppstrílunar) á koníaksstofunni á Tjörninni og sötruðum dry-martini (með tveimur ólífum), þ.e.a.s. við Gummi sötruðum dry-martini það þýðir lítið að bjóða börnunum upp á svo fágaða drykki, þau drekka bara jelly-shot, bachardi breezer og woodies. Við reyndum að koma henni í skilning um að þetta væri allt saman tilviljun, við hefðum bara verið að fara út að borða og ekki haft hugmynd um að þau ætluðu að vera þarna. Það er skemmst frá því að segja að hún trúði því bara alls ekki. Maturinn var vitaskuld óviðjafnanlegur og ég ætla ekki að gera tilgangslausa tilraun til að lýsa honum hér en bendi fólki góðfúslega á að ekkert er til undir sólinni betra en franska súkkulaðikakan á Tjörninni. Í heildina mikið ágætis kvöld.
Krílið fór í skólaheimsókn á þriðjudaginn (þá átti ég einmitt 9 ára stúdentsafmæli auk þess sem Dóri átti 50 ára afmæli, Helga og Ágúst 3ja ára brúðkaupsafmæli og Valdís og Vigfús 2ja ára brúðkaupsafmæli, ég óska okkur öllum til hamingju með daginn). Heimsóknin gekk afar vel en Melaskóli er stór skóli og krílið er pínu lítið. 80 börn eru skráð í 1. bekk næsta vetur sem þýðir 4 20 barna bekkir sem getur verið dálítið töff. Í heimsókninni var þeim skipt eftir stafrófsröð í fjóra hópa, það verður ekki skipt í bekki fyrr en í haust, og þau voru sett í ákveðið prógram í tvo tíma. Það er ekki alveg laust við að móðirin sé dulítið uggandi yfir þessu öllu saman en eins og skólaritarinn benti nojuðu móðurinni réttilega á þegar hún var að skrá krílið í skólan og spurði allra spurninga sem hægt er að láta sér detta í hug, þá hafa börn byrjað í þessum skóla nokkrum sinnum áður og það hefur bara gengið nokkuð vel!!!
Að öllu leiðinlegri fréttum. Nágrannarnir mínir eru fluttir á Ísafjörð. Nógu slæmt þótti mér nú þegar Elfa og Gunni stungu mig af upp í Grafarvog en að stinga mig af til Ísafjarðar er bara óforskammað. Nú á ég sum sé von á nýjum nágrönnum og Tumi óskaði mér þess að þeir verði nú almennilegir um leið og hann knúsaði mig að skilnaði. Ég benti honum á að það væri erfitt, næsta ómögulegt, að toppa þetta....
jæja mín bara orðin væmin!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home