Fjölmiðlum tókst að láta breiðfylkingu bleikklæddra feminista í 1. mai göngunni fara algjörlega fram hjá sér. Það er ekki svo lítið afrek þar sem fátt virtist vera meira áberandi en sterkbleikir bolir og borðar Feministafélags Íslands. Félagar gerðu svo lykkju á leið sína, sniðgengu fjöldasamkomu á Ingólfstorgi og héldu sinn eginn fögnuð í Þjóðleikhúskjallaranum. Þar voru heldur engir fjölmiðlar. Það er ekki til mikils að sniðganga opinbera samkundu þegar enginn tekur eftir sniðgöngunni. Það þýðir víst lítt að bölsótast yfir því, Björn bóndi steindauður og við verðum að safna liði. Það var auðvitað mjög gaman í kjallaranum, listamenn frömdu listir og jafnvel spaug ýmiskonar.
Sjálf varð ég, vegna hins þráláta hors, að sniðganga gönguna en mætti hins vegar í sniðgönguna og skemmti mér vel (ef einhver skilur þetta ekki er það vel skiljanlegt). Ég bauð síðan sjálfri mér, krílinu mínu og nokkrum félögum í verkalýðskaffi til Elfu og Gunna í sveitinni. Kaffið, unnið úr blóði og svita úr nýmöluðum verkalýðnum, var hið besta og mér fannst ég hafa varið „kommúnistadeginum“, eins og hann var jafnan kallaður á æskuheimili mínu, nokkuð vel.
Helginni ætla ég svo að eyða í að ná úr mér leifunum af þessu þráláta hori. Ég get nú hugsað mér margt skemmtilegra.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home