mánudagur, febrúar 20, 2006

Leikhús gott

Himnaríkið var algjör dásemd. Léttmeti af allra besta tagi og táraðist ég úr hlátri í allra bestu köflunum. Sérstaklega þóttu mér Guðlaug og Elma Lísa komast vel frá sínu. Ég verð að segja að ég átti ekki von á miklu þegar Elma Lísa komst inn í leiklistarskólann en það segir miklum mun meira um mína fordóma en hæfileika Elmu Lísu. Mér hefur þótt hún koma mér endalaust á óvart og standa vel fyrir sínu bæði í drama og kómidíu. Flott stelpa.

Að leikhúsi loknu skelltum við okkur nokkrar (örfáar reyndar því flestir fóru heim) á Fjörukrána sem er svo hentuglega staðsett við hliðina á þessu nýja og bráðskemmtilega leikhúsi þeirra Gaflara. Einhvern veginn læðist að mér sá grunur að Fjörukráin megi muna sinn fífil fegri án þess þó að vita það fyrir víst því þar hef ég eginlega aldrei komið áður. Tveir félagar, óskaplega lélegir báðir, léku fyrir dansi og sögðu þess á milli þá afleitustu brandara sem ég hef heyrt lengi. Söfnuðurinn í kránni var heldur ekki upp á marga fiska og var mér allri lokið þegar maður nokkur, kominn af léttasta skeiðinu með bæði ístru og skalla og óeðlilega fáar tennur í munninum, vatt sér að mér, greip þéttingsfast í handlegginn á mér (svo ég fann til) og sagði mér í óspurðum fréttum að hann langaði nú bara til að ríða mér. Ég vissi ekki alveg hvað ég átti að gera við þessar upplýsingar, var jafnvel að hugsa um að segja honum að það væri svo sem óþarfi, það væri búið!

Ég afréð hins vegar að halda heim á leið, þ.e. eftir að ég hafði skutlað stöllum mínum í stuðið á Players. Það er nú samt gott að vita að maður getur enn eignast aðdáendur, ikke?

föstudagur, febrúar 17, 2006

Leikhús

Ætla að skella mér á Himnaríki hans Árna Ibsen í Hafnarfjarðarleikhúsinu í kvöld. Ég hlakka mikið til enda lengi langað að sjá þetta stykki. Ég ætlaði alls ekki að fara en þegar einn miði losnaði stóðst ég ekki mátið. Læt í mér heyra síðar hvernig líkar.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Eftirlit

Fór aðeins til ljósunnar (eða ljóskunnar eins og Elvis kallar það núna) í gær. Allt með besta móti og blóðþrýstingur eins og í barni, það er ljómandi. Á þriðjudaginn eigum við svo að fara í sónar (eða lóran) og ríkir mikil spenna á heimilinu. Ég spurði ljósuna hvort það mundi rétt hjá fangor að það sé allt í lagi að léttast vel fram eftir meðgöngunni og hún var alveg á því, svo lengi sem ég borða vel af hollum og góðum mat. Sérstaklega þykir þetta í lagi þegar af nógu er að taka hjá móðurinni verðandi.

Skyldi ég flokkast undir það :-þ

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Nýjast

Dró andann inn um nefið áðan.

Stórkostlegar framfarir.

Lukka, lukka, lukka

Litli sæti frændinn minn, þunglyndissjúklingurinn á Dalvík hann Arnór Snær á afmæli í dag. Þar sem hann er einn af mínum uppáhaldspersónum í heiminum má ég til með að óska honum til hamingju með daginn.

Óléttakellingin hún Ásta í Núpalindinni á líka afmæli í dag svo ég óska henni líka til lukku.

Eftir tíu daga stingum við hjónin líka af til Köbinhavn svo ég má til að óska sjálfri mér til lukku með það.

mánudagur, febrúar 13, 2006

Hor

Ef hægt er að drukkna í egin hori og slefi þá hef ég undanfarið verið verðugur kandídat í það. Augu, eyru, nef og lungu eru og hafa verið síðan á fimmtudag smekkfull af einhverri óáran og ég hef verið allt annað en hraust. Ég drattaðist nú í vinnuna í morgun en get engan veginn sagt að það hafi verið ljúft. Eins og áður koma veikindin hart niður á morgunógleðinni og á þessum tímapunkti líður mér jafnvel eins og það gæti verið gott að lemja einhvern bara til að láta mér líða betur. Líkurnar á að mér líði betur við slíkt athæfi eru sennilega hverfandi en ef fórnarlambið er valið af kostgæfni (ákveðnir nemendur koma strax upp í hugann) gæti mér liðið betur í pínustund.

Má ég?

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Júróvisjónhneyksli

Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að hafin sé undirskiftasöfnun til stuðnings Sylvíu Nóttar. Á öðrum stað á sömu síðu kemur nafn dömunnar fyrir í eignarfalli og þar er notuð sama mynd orðsins: Sylvíu NÓTTAR.

Nú ætla ég að standa fyrir undirskriftasöfnum til að berjast fyrir því að prófarkalesarar og málfarsráðunautar Fréttablaðsins verði sendir á námskeið.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Tvö blogg sama dag kaum zu glauben

Var að virða fyrir mér myndina af sjálfri mér á síðunni minni og velta fyrir mér þessum svip. Grallaraspói var það fyrsta sem kom í hugann. Myndinn telst ekkert endilega til bestu mynda sem teknar hafa verið af mér en ég er samt hrifin af svipnum, hann er eitthvað svo óþekkur og líklegur til alls.

Í ljósi þeirra frétta sem ég dúndraði hér fram áðan ætti alveg að vera ljóst af hverju ljótan stafaði. Óléttuljóta sem stafar m.a. af endalausri ógleði og lystarleysi. Það að ljótan sé horfin þýðir líka væntanlega að ég er komin yfir erfiðasta hjallinn. Ég get reyndar ekki sagt að mig langi mikið til að borða þessa dagana og finnst að ég gæti sem best verið án þess að borða nokkurn skapaðan hlut en hef reynt það á eigin skinni að ógleðin versnar til muna ef ekkert er borðað. Þess vegna reyni ég að graðga í mig tekex og ávexti með reglulegu millibili.

Fátt er svo með öllu illt, sté aðeins á vogina um helgina og í stað þess að bæta á mig tveimur kílóum sem ófrísk kona á að bæta á sig á fyrsta þriðjungi hef ég lést um fjögur. Ekki er nú líklega ætlast til þess að ég haldi því áfram næstu 6 mánuðina.

Ég hef í tilefni þess að ég er að fara til Vínarborgar í vor (ef heilsa leyfir) ákveðið að dusta dálítið rykið af þýskunni og horfi þess vegna mikið á Pro Sieben þessa dagana. Voðalega gefandi og veldur nettum nostalgíuköstum eins og við er að búast.

Auglýsi hér með eftir lísubloggi sem hefur verið óvirkt á allra síðustu dögum. Er nokkuð bilað hjá þér góða?

Kisi týndur og fleiri fréttir

Í Birkihvamminum eru menn konur og börn heldur rislág þessa dagana. Þula kisa hefur ekki sést síðan á miðvikudag og enginn virðist hafa séð neitt til hennar. Vissulega eigum við enn tvo ketti en hver einstaklingur skiptir máli og hennar er sárt saknað.

Af sjálfri mér er það að frétta að ég er loksins búin að panta tíma hjá ljósmóður og þarf í framhaldi af því að fara í sónar til að mæla þessa sívinsælu hnakkaþykkt (þá vitið þið það sem ekki vissuð það fyrir). Mestar áhyggjur hef ég nú af því að þessi hefðbundni sónar dugi ekki til þegar kemur að því að skoða í gegnum bumbuna á mér og grípa verði til þess ráðs að nota lóran í staðinn. Það yrði nú pínulítið vandræðalegt er ég hrædd um.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Ljótan

Þegar ég vaknaði í morgun var ljótan á bak og burt. Síðustu daga og jafnvel vikur hef ég þjáðst af svo svakalegu tilfelli af ljótunni að fólki var orðið hætt að standa á sama. Húðin í andlitinu á mér var í uppreisn og svitaholur í verkfalli og útkoman var ljót svo ekki sé fastar að kveðið. Litarhaft mitt, sem ég stæri mig nú alla jafna af og þykir mín mesta prýði hefur verið heldur grámyglulegt fram eftir degi en svo hefur hlaupið í það huggulegur túmatroði þegar líður á daginn, ofsalega ósmart allt saman. Samfara þessu hef ég svo verið með graðbólurum allt andlit eins og áttaviltur unglingur.

Það gerðist svo í morgun þegar ég leit í spegilinn að mætti mér hinn huggulegast kvenmaður og ljótan á bak og burt. Hvort þetta ástand er viðvarandi veit ég ekki en hef í það minnsta krossað fingur.