fimmtudagur, október 30, 2003

Nú er mín aldeilis dugleg... Bloggar bara oft á dag og með mörg sjálf.

Vera má að síðasta færsla hafi verið stórlega ýkt. Þollaradegi er löngulokið og ég meira að segja löngu búin að jafna mig þrátt fyrir að hafa afrekað að ná upp slíkri og þvílíkri ölvun að annað eins hefur ekki sést í háa herrans tíð. Dagurinn fór tiltölulega hægt af stað enginn fékk sér neitt sterkara en kaffi á meðan við renndum okkur á skautum og þvældumst um sýningarsali Kjarvalsstaða. Allir voru sömuleiðis snaredrú á meðan við svömluðum í Sundhöllinni. Þegar við komum heim (heim verandi gistiheimili við Hverfisgötu) var tekið til við að hella í sig veigum og verður að segjast eins og er að sumir stóðu sig betur en aðrir í þeirri íþrótt, þó allir hafi vissulega lagt sig fram. Ég held að það sé ekki á neinn hallað þó að ég fullyrði að ég hafi unnið þann leik á ypponi.

Dagurinn var í alla staði mjög skemmtilegur, eins og nærri má geta, og allir fóru sælir en sumir þó tiltölulega glærir heim á sunnudegi.

Síðan þá hefur dagskráin hjá mér verið að miklu leyti vinna, vinna, vinna og aðeins meiri vinna. Afraksturinn er að taka á sig mynd hér og þar, ekki síst í þeim reynslubunka sem ég er að sanka að mér í þessari æfingakennlsu. Mikil ósköp sem ég verð nú annars fegin þegar þetta er allt saman búið.

miðvikudagur, október 29, 2003

Þollaradagur dróst sum sé á langinn. Ég er enn úti í Viðey ekkert á leiðinni heim. Björgunarsveitir hafa verið ræstar út en ég blæs á svoleiðis taugaveiklun. Hér er gott að vera, hér vil ég vera. Þetta er íslenskt, þetta er menningarlegt og ef mér leiðist get ég alltaf æft mig í að fela mig í þúfunum fyrir björgunarsveitarfólkinu sem er að leita að mér.

föstudagur, október 17, 2003

Hitti refina mína, Lindu og Lísu, á Horninu áðan. Við erum svo duglegar núna, ekki nema mánuður síðan við hittumst síðast og strax búnar að endurtaka leikinn. Ég held að maginn í mér hljóti að vera að skreppa saman því ég borðaði 9 tommu pizzu og stend enn á blístri.

Á morgun Þollaradagur, jibbí skibbí....

fimmtudagur, október 16, 2003

Í gær var haldin hátíðlegur dagur íslenskra dreifbýliskvenna. Ég var að hugsa um að segja eitthvað fyndið um það en........need I say more, dagur íslenskra dreifbýliskvenna!

Til lukku stelpur!

miðvikudagur, október 15, 2003

Mikið stendur til af skemmtilegheitum á næstunni. Þar ber vitaskuld hæst Þollaradag næstkomandi laugardag. Það er auðvitað skarð fyrir skildi þegar vantar fóstbróður minn og félaga sem bíður þess nú að verða léttari í englalandinu en það verður samt brjálæðislega gaman að hitta Ólínu, Hörpu og Helgu. Ólína og Helga sjá um skipulagningu og er okkur Hörpu gert að mæta á Hlemm klukkan 11:03 á laugardags morgun. Ekki veit ég hvað þær ætla sér með okkur stöllurnar en mæting á Hlemm lofar sérlega góðu. Ég held að þær hljóti að vera á leiðinni með okkur beina leið í sollinn. Ég kem til með að upplýsa frekar hérna á síðunni hvernig þetta fer allt saman en nú bíð ég í það minnsta spennt.

Af hverju skyldi ég hafa átt að taka með mér sjóveikistöflur????

Ég hafði áhyggjur um stund en er nú alveg róleg. Dóttir mín stefnir að því hraðbyri að verða kúl. Uppáhalds lagið hennar þessa dagana:
láttu mig vera og farðu svo burt
þarft ekki að svara það var aldrei spurt
Þeir sem halda að það sé tiltölulega krúttlegt að sjá sex ára kríli söngla rokklög hafa nokkuð til síns máls. Ég óttaðist að Írafárið myndi hremma hana en Birgitta virðist algjörlega í skugganum af Villa og Naglbítunum.
Hvenær er hæfilegt að byrja að spila fyrir hana Dead Kennedys?

þriðjudagur, október 14, 2003

Veröldin fyrir utan gluggann minn er orðin appelsínugul. Liturinn sem sést stundum rétt áður en það byrjar að snjóa en það er, held ég, ekkert að fara að snjóa. Skrýtna, skrýtna birta.

Helgin byrjaði, að því er virtist skelfing vel. Gunni og Gúx fengu Eddu og allt lofaði góðu. Þegar ég var búin að horfa á Edduna skipti ég yfir á óruglaða stöð þrjú og horfði á dásamlegan þátt af Perfect Stangers. Er ég sú eina sem man eftir frændunum Larry og Balki? Of course you are, don't be ridiculous.... Laugardagurinn var sneisafullur af vonbrigðum eftir fögur fyrirheit föstudagsins. Annar helmingur Williams liðsins lenti í rigningu og náði ekki að klára tímatökuna auk þess sem þjóðverjar rassskelltu (með þremur essum) íslenska karlalandsliðið í fótknatleik. Ömurlegt. Sunnudagurinn var ekki mikil huggun og neita ég alfarið að ræða úrslit þessarar formúlu fyrr en eftir nokkra daga þegar ég er búin að jafna mig. Sárast svíður mig að ljóti skallaboltinn frá Brasilíu skyldi ná upp fyrir minn mann á stigalistanum.... svei því bara og svo ræðum við það ekki meir.

Í dag fékk ég lítillega að spreyta mig á kennslu og það var gott. Ég vildi eiginlega að við fengjum meiri æfingakennslu. Skurðarhnífurinn hefur leikið deildina ansi grátt þessa önnina og æfingakennslan hefur verið minnkuð um meira en helming. Ég held, satt að segja að við lærum einna mest á þessu svo ég er ekki svo mjög sátt við þetta.

föstudagur, október 10, 2003

-On a hot summer night would you offer your throat to the wolf with the red roses...
-yes
-I bet you say that to all the boys

Hverjir voru í höllinni á þessum degi fyrir 16 árum síðan???

Það borgar sig oft að geyma stóru orðin. Ég ákvað, öfugt við stöllu mína í æfingakennslunni, að segja ekki of mikið um leiðbeinandann okkar eftir svo lítil kynni sem raun ber vitni. Við hittum hana aftur í dag og þá kvað við alveg nýja tón. Við skemmtum okku konunglega og leiðbeinandinn var bæði faglegur og vel undirbúinn. Ég veit að ég á eftir að taka þessa æfingarkennslu í ra.... ég meina á eftir að rúlla þessari æfingarkennslu upp enda ekki mjög þjökuð af minnimáttarkennd. Stafsetning í næstu viku og ragnarrök í vikunni þar á eftir.... dálítið stórt stökk en við fleygjum okkur bara út í djúpu laugina. Finnst einhverjum öðrum en mér búið að eyðileggja þetta orðasamband?

Nú horfir allt til betri vegar. Heimilsfólkið mitt allt að hressast, ég að jafna mig á kvefinu, krílið tiltölulega frískt (þó hún eigi það til að fá skyndimagapínu þegar hún nennir ekki í skólann eða vill fá miða þess efnis að hún megi ekki fara út í frímínútur) og löppin á Kjartani nálgast það að vera í eðlilegri stærð. Mér skylst á því sem læknarnir segja núna, eftir spítalavist, myndatökur, rannsóknir og fúkkalyf í æð að hann hafi annars vegar tognað illa og hins vegar fengið sýkingu í löppina út frá sprunginni blöðru (ekki þó sautjánda júní...). Sjálf stend ég á því fastar en fótunum að maðurinn hafi fengið sull í löppina eins og Gunnlaugur forðum.... Eigi skal haltur ganga meðan báðir eru jafn langir... Verra þykir mér að besti pabbi í heimi (pabbi minn, ef einhver skyldi vera í vafa) er alls ekki nógu hress, ég vil því biðla til allra í netheimum að senda honum alla góða strauma sem þeir eiga til svo að hann fari nú að skána.

Ég er búin að fá úthlutað heimaskóla. Ég kem til með að eiga heima í MH þennan vetur og líst bara nokkuð vel á þá úthlutun. Æfingakennarinn minn heillaði mig að vísu ekki í fyrstu tilraun en ég ætla nú að leifa henni að njóta vafans þangað til ég kynnist henni örlítið betur. Nú þarf ég sum sé að drífa mig í MH og gefa konunni annað tækifæri til að vinna hug minn og hjarta.

Það styttist óðum í að ég verði uppgötvuð enda ekki við öðru að búast þegar maður býr yfir öðrum eins sjarma og yndisþokka og ég....

mánudagur, október 06, 2003

Þarf ég kannski að taka þátt í ungfrú yndisþokki til að vera uppgötvuð?

Mest er ég nú hissa á því hversu lítið hefur verið kvartað. Mín lætur sig bara hverfa svo vikum skipti og hélt hún hlyti ónot hin mestu að launum en kunningjarnir virðast bara halda sig (að mestu) á mottunni og bíða þolinmóðir eftir næstu færslu. Kannski ég meldi mig bara hálfsmánaðarlega á mánudögum á láti það duga. Kannski þá verði örlítið meira kjöt á beinunum... Ekki sýnist mér það af síðustu færslu að dæma.

Ég verð sennilega að taka félaga minn fangor til fyrirmyndar og taka upp á því að ljúga hér upp viðburðum lesendum til skemmtunnar. Nema ég stofni í alvöru kvennarokkhljómsveit og miðli hér reglulega upplýsingum um hana. Ógeðslega langar mig til að vera í kvennarokkhljómsveit. Ég léti samt aldrei taka mig í rassgatið eins og Dúkkulýsur gerðu í popppunkti á laugardaginn.

Vonandi verð ég uppgötvuð fljótlega, ég er orðin mjög þreytt á því að vera nóbodý....