föstudagur, september 29, 2006

Allt gott.

Þá eru liðnar tvær vikur síðan Iðunn Ösp kom í heiminn og ég öll að skríða saman. Barnið lét bíða eftir sér og var þess vegna orðið nokkuð stórt og ekki laust við að eitthvað yrði að láta undan þegar hún ruddi sér leið inn í veröldina. Ég skal ekki kvelja ykkur með smáatriðum en það þurfti talsvert að bródera móðurina sem hefur ekki getað setið við tölvuna með góðu móti fyrr en nú.

Iðunn Ösp dafnar ljómandi vel og er alla jafna ákaflega ljúf og róleg en því miður hefur maginn aðeins verið að stríða henni svo að hún er dálítið óvær snemma nætur og sofnar oft ekki fyrr en klukkan 2. Hún bætir fyrir það með því að sofa fram að hádegi en þá nýtist nú dagurinn ekki í mikið annað en að sofa og sinna systrunum. Sennilega er það líka mikilvægast svo það skiptir ekki öllu hvort það er þurrkað af eða straujað.

Ég þakka fyrir allar kveðjurnar. Rosalega gaman að heyra í ykkur öllum. Myndbandið hér að neðan var sett inn svo þið gætuð ímyndað ykkur sætastann dansandi um gólfið með nýfædda dóttur sína í fanginu við þetta dásamlega lag. Það er sko bara krúttlegt.

fimmtudagur, september 21, 2006

A Good comic video found some where on Net

A Good comic video found some where on Net

föstudagur, september 15, 2006



Prinsessan Iðunn Ösp Kjartansdóttir Hearn

sunnudagur, september 10, 2006

Plús níu

Plús níu og svo ræðum við það ekki frekar.

Það sem veldur mér hins vegar hugarangri þessa stundina er tíska komandi vetrar. Þegar þessari meðgöngu minni lýkur og ég verð komin í samt lag á ný tel ég allar líkur á því að fataskápurinn minn verði næsta tómur. Megnið af fötunum sem ég átti áður en ég varð ófrísk verður væntanlega orðið of stórt og satt best að segja var það nú ekki mikið til að byrja með. Ég hef síðustu daga og jafnvel vikur verið að skoða tískusíður dagblaða, vörulista frá verslunum, Fashion Television að ógleymdri biblíunni Cosmo sem sætastur keypti handa mér til að reyna að laga geðheilsuna. Ég verð að segja að ég sé mína sæng nokkuð út breidda í þessum tískumálum. Hvað er heitast í vetur? Jú, buxur eiga að vera þröngar og niðurmjóar, fátt klæðir nú stólpana sem ég kalla fæturna á mér betur en það nema ef vera skyldi snípsíð pínupils sem er annað „must by“ fyrir veturinn. Flottustu kjólarnir eru allir hlýralausir (tube) og flestum ætti að vera alveg ljóst að brjóstin á mér 38 E fagna þeirri niðurstöðu. Toppar, jakkar og efripartar yfirleitt taka miðið út frá stórglæsilegri tísku áttunda áratugarins og eru þess vegna beinir og sniðlausir og eiga helst að vera einu til tveimur númerum of stórir, af því ég var ekki nógu stór fyrir. Og haldið ykkur svo bara fast, heitustu litirnir í vetur.... jú, grátt, brúnt og fjólublátt. Það eru ekki til litir í kortunum sem klæða mig verr.... arg...........................

Það er altént huggun harmi gegn að ég er í fæðingarorlofi og á því hvort eð er enga peninga til að kaupa mér föt og ef ég nurla saman fyrir einhverjum örfáum flíkum þá verða þær keyptar í köflóttu sem er það eina sem mér líkar í tískustraumum vetrarins. Köflótt, köflótt, köflótt.

fimmtudagur, september 07, 2006

Plús sex

Plús sex og nú verður maður að taka honum stóra sínum til að viðhalda geðprýðinni. Ég ætlaði nú ekki að draga þetta svona lengi. Brjóstin á mér stækkuðu í nótt, ætli það sé góðsviti. Nú leita ég logandi ljósum að góðsvitum.

þriðjudagur, september 05, 2006

Plús fjórir

Þá erum við komin í plús fjóra og enn er allt með kyrrum kjörum. Fór í síðustu mæðraskoðun áðan og kvaddi ljósuna mína og ljósmóðurnemann (Berglindi hans Palla sem ég er sko búin að panta ef ég ákveð að koma með eitt í viðbót) með virktum. Það var ákveðið að vera ekki að setja á mig fleiri tíma í mæðraskoðun þar sem ég á að fara í dagönn á morgun og svo aftur í skoðun upp á deild ef barnið verður ekki fætt á föstudaginn. Það verða að teljast allar líkur á því að ef ekkert gerist fyrir föstudag þá verði belgirnir sprengdir þá (ef hægt er) ellegar skorið.

OG KOMA SVO .......

mánudagur, september 04, 2006

Plús þrír

Fórum aðeins í heimsókn á fæðingardeildina í dag. Var þar mæld og skoðuð, vegin og metin og síðan send heim til að bíða áfram. Útvíkunin var ekki orðin nógu mikil til að sprengja belgina og læknunum fannst alls ekki ástæða, miðað við heilsu mína núna, að senda mig í keisara. Gangsetning með hefðbundnum hætti þykir víst ekki góð hugmynd þegar kona hefur þegar farið í keisara.

Við höldum því bara áfram að bíða. Rán leggur til miðvikudaginn 6. sept. pabbinn verðandi er mjög sáttur við þá dagsetningu því það er svo flott og symetrísk kennitala 060906. Sjálfri er mér alveg sama bara ef þetta fer nú að bresta á. Sá sem sagði að síðustu dagarnir, dagarnir þegar maður er kominn í 40 plús, væru lengi að líða hefur væntanlega vitað um hvað hann var að tala.

Í öðrum fréttum.......... hvað veit ég.

Jú krókódílamaðurinn dó, drepinn af djöflaskötu. sorglegt!

Held að Toby fari heim á miðvikudaginn.

Ef Magni vinnur á ég þá að láta barnið heita Magni, Magnea eða kannski Magnþóra?

Lifið heil.

laugardagur, september 02, 2006

Plús einn

40 vikur plús einn. Ekkert gerðist í nótt en við bíðum átekta. Ef ekkert gerist fyrir mánudag á ég að fara upp á deild í mónitor og mat. Ekki þó humarsúpu og hvítvín heldur á að meta hver verða næstu skref. Í ljósi fyrri sögu á ekki að taka neina sénsa svo kannski verður sett af stað eða ég send í keisara, kemur allt í ljós. Ég er voða jákvæð og hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af neinu. Ég finn að ég er í góðum höndum og ef ég þarf að fara aftur í keisara þá er það bara besta mál. Best væri auðvitað, segir læknirinn, ef ég færi sjálf af stað um helgina svo ég ætla að biðja alla að senda mér góða strauma.

föstudagur, september 01, 2006

Fyrsti

Þá er kominn fyrsti september, dagur núll í niðurtalningu. Komin nákvæmlega 40 vikur í dag og orðin frekar tilbúin að klára þetta. Að því verður róið öllum árum um helgina að koma þessu af stað, reglulegir göngutúrar og jafnvel hoppað upp og niður á rúminu að áeggjan móður minnar sem er orðin jafn spennt og allir aðrir.