Ég nenni alls ekki að vera lengur í vinnunni minni í dag. Mig langar heim til mín, helst undir teppi að hafa það huggulegt. Ég þarf víst að vera hér í einn og hálfan í viðbót oh.
raritet
Ævi og ástir kvendjöfuls
föstudagur, janúar 31, 2003
Mikið finnst mér leiðinlegt þegar fólk talar til mín en ekki við mig. Á nýja vinnustaðnum mínum er ég lambakjötið, táningurinn sem er skemmtileg nýbreyttni eftir að hafa verið kerlingin í háskólanum. Margar af þeim mannvitsbrekkum sem ég vinn með hafa viðað að sér svo mikilli þekkingu, farið svo ótrúlega víða og þekkja svo stórkostlega merkilegt fólk að allt annað bliknar í samanburði. Þessu er ég alveg tilbúin að kyngja, ég efast ekki um að þetta er satt og rétt. Ég get alveg setið og hlustað á fólk raupa, sérstaklega ef það raupar skemmtilega eins og þetta greinda og sniðuga fók sem ég vinn með gerir oftar en ekki. Það fer hins vegar óendanlega mikið í taugarnar á mér þegar fólk stoppar, af stakri hógværð og góðu uppeldi, frásögn sína til að fá viðbrögð frá áheyrendum en hlustar svo ekki á það sem áheyrandinn hefur um málið að segja. Þögnin er ekki einu sinni nógu löng til að áheyrandinn geti brugðist við því sem hann hefur hlýtt á. Fjarrænt augnaráð og augljóst áhugaleysi þess sem mælir verður líka fljótlega til þess að áheyrandinn lærir að kinka bara kolli, brosandi.
Samstarfsfólk mitt hefur (margt hvert, alls ekki allt) tamið sér þann leiða sið að segja mér hluti og uppfræða mig. Kárahnjúkavirkjun er af hinu illa, ísleska handboltalandsliðið stóð sig mjög illa og Ingibjörg Sólrún gerði hárrétt og sveik ekki nokkurn mann þegar hún ákvað að snúa sér að landsmálunum. Ekkert af þessu hefði ég vitað ef mitt ágæta samstarfsfólk hefði ekki bent mér á það. Ég hefði jafnvel getað asnast til þess að reyna að hafa skoðun á þessum hlutum sjálf, þvílík firra.
Skemmtilegast finnst mér samt að koma fram á kennarastofu þegar þar fer fram mannvitsbrekkukapphlaup. Það er dásamlegt fyrirbæri. Þá hefur verið bryddað upp á einhverju málefni: sjö daga stríðinu, rómantísku skáldunum í Köben eða endurreisninni í ítalskri málaralist svo keppast mannvitsbrekkurnar við að koma að eins miklum fróðleik og þær geta á sem skemmstum tíma, auka stig fást fyrir að koma að sem flestum ártölum. Svo mikið er þeim í mun að koma viskunni út úr sér að þær grípa hver fram í fyrir annarri enda eiga þær alltaf á hættu að allar hinar mannvitsbrekkurnar viti allt það sem þær eru búnar að segja og hafa um málið að segja og þá gildir sú regla að vera bara á undan hinum að koma því út úr sér.
Ég elska að umgangast vel gefið og vel lesið fólk, þess vegna halla ég mér aftur og hlusta og reyni ekki að taka þátt í samræðunum, öðruvísi mér áður brá!
Í nótt dreymdi mig að týndi hlekkurinn hefði runnið út í Hvítá. Mig rekur ekki minni til þess að hlekkir, tapaðir eða fundnir, renni upp eða niður eða út í á. Ég mann ekki hvernig þetta á að hafa borið að enda er „dreamlogic“ ekki sérstaklega skynsamleg þó Freud hafi haft tröllatrú á henni.
fimmtudagur, janúar 30, 2003
Ég er að hugsa um að staulast heim úr vinnunni minni núna. Síðan ætla ég að tvímenna í freyðibað heima hjá mér, af því að Kolfinnu finnst það ennþá skemmtilegt þó ekki jafn skemmtilegt og huggubað heima hjá ömmu. Eldamennska verður í algjöru lágmarki í kvöld, bara eitthvað fljótlegt og síðan.......ÁFRAM ÍSLAND!
Slim Jimy kvótaði mozerinn í gær. Það finnst mér fallega gert af honum. Annars fór nú kannski mesti glansinn af þessu lagi þegar það var notað sem intro í Charmed... eða hvað?
Sú var tíðin að menn voru teknir af lífi í Menntaskólanum við sund ef þeim datt í hug að spila vonda tónlist í óþarflega mörgum desibilum. Það þótti einfaldlega ekki töff og þá áttu menn ekki neinn tilverurétt. Nú er hins vegar komin betri tíð með blóm í haga og blessuðum menntskælingunum líðst að hlusta á tónsmíðar Justin Timberlake og Shakiru hátt og og snjallt í matsalnum sem er einmitt staðsettur við hliðina á bókasafninu. Mér finnst þetta ekki skemmtilegt...
Stallsystir mín Svava Rán boðar umburðarlyndi og frið í heimi tónlistar og ég er henni alveg sammála að mestu leyti. Sú ofuráhersla sem við lögðum á töffaraskap og töffaratónlist keyrði algerlega um þverbak. Nú erum við eldri og skynsamari, við líðum fólki það að hlusta á vonda tónlist og erum alveg hætt að taka fólk af lífi. Við útilokum ekki fólk með slæman tónlistasmekk úr vinahópnum því smekkur, hefur okkur lærst í seinni tíð, er ólíkur. Svövu Rán þykir skemmtilegt að dilla sér í takt við Backstreetboys (god knows why) og ég verð að játa það á mig að vera pínulítið júróvisjón nörd. „Ein Bischen Frieden ein Bischen Sonne für diese Erde auf der wir wohnen“ „Singt mit mir, ein kleines Lied, dass die Welt in Frieden lebt.“
Þetta er allt saman gott og gilt, við erum umburðarlyndar við erum þroskaðar, jafnvel fullorðnar og gerum okkur grein fyrir því að það auðgar bara mannlífið að við séum ólík, það er skemmtilegt en GUÐ MINN GÓÐUR...Justin Timberlake...
miðvikudagur, janúar 29, 2003
Nei þar datt það loksins inn. Bloggið mitt hefur einhverra hluta vegna legið niðri í allan heila dag. Aldrei áður hef ég þjáðst af jafn mikilli löngun og þrá til að blogga. Ekkert merkilegt hefur gerst síðan á mánudaginn og ég hef ekkert að tilkynna. Engar sérstaklega áhugaverðar hugmyndir hafa fæðst og ekki hef ég mikið verið að velta vöngum yfir tilgangi lífsins og þaðan af síður fundið svörin við lífsgátunni. Niðurstaðan er því þessi:
Ég þjáist af bloggleysi bara af því að ég get ekki bloggað. Oft og tíðum líða nokkrir dagar án þess að ég skrifi hér nokkurn staf en þegar mér er fyrirmunað að blogga er það mér allt í einu orðin nauðsyn....
Sér einhver tengingu?
mánudagur, janúar 27, 2003
lengi lifir í gömlum læðum.
HA HA HA HA HA HA HA HA HA HA HA HA HA HA AH AH AH AH. Mikið brjálæðislega er ég fyndin
I was young reckless and in love.
Then I was dead young reckless and in love.
I was a TEENAGE ZOMBIE....
Skrýtin helgi, skrýtinn laugardagur en skemmtilegt. Skemmtilegt í afmælinu hans Svavars á Ara í Ögri og síðan fúnk á 22. Fúnk getur verið ágætt en ekki í þetta miklum mæli, má ég þá heldur biðja um gamalt og gott indie eða skemmtilegt Rock'n'Roll. Hitti fólk sem ég átti ekki von á að hitta og það fólk setti mig enn eina ferðina út af laginu, þessu fólki hættir til að gera það, jafnvel þó ég hitti það oft ekki svo mánuðum eða jafnvel árum skipti. Ég held mér væri holt að hætta að vera svona mikil dramadrottning á kennderíum. Ég er í raun afar lítil dramadrottning en áfengi laðar þetta fram í mér. Mér finnst drami viðbjóður og verð því að hætta þessu og ennfremur legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði...
föstudagur, janúar 24, 2003
Jólabrjálaði maðurinn við Bústaðaveginn var búinn að kveikja öll jólaljósin aftur þegar ég keyrði framhjá á leið minni heim í gær. Skemmtilegt.
fimmtudagur, janúar 23, 2003
Veröldin er næstum því jafn skemmtilega ljósfjólublá og skýjuð í dag og hún var í gær. Mér tóks með herkjum að þurka gleðiglottið af vörunum á mér í morgun en það er enn í augunum. Mér finnst bara nokkuð skemmtilegt að vera búin að þessu. Ég lyfti örlítið glasi í gærkveldi í góðra vina hópi. Nágrannar mínir til beggja handa skáluðu við mig sem og fóstbræður mínir af Vesturgötunni. Það besta var samt að mamma skrapp í bæinn til þess eins að skála við dóttur sína og óska henni til hamingju, mamma er svo mikið krútt að það er alveg svakalegt.
Ég er að hugsa um að lyfta jafnvel glasi enn hærra um helgina, jafnvel.... dare I say it ... fara á kenderí. Það verður nú skemmtilegt, ég hef ekki farið á kennderí síðan snemma í nóvember og út á lífið (út á galeiðuna) ef ég ekki farið síðan í haust. Nú er sum sé mál að linni og nú skal sum sé „dett í ðað“. Mér sýnist að það stefni jafnvel í þriggja helga djamm. Fögnuður um þessa helgi, þorrablót í Þólló um þá næstu og afmæli hjá Heiðu helgina þar á eftir. Ætli ég nái þessu öllu saman? Gaman gaman er , í góðu veðr'að leika sér og fönnin hvít og hrein og hvergi sér á stein. Já húrra húrra .....
miðvikudagur, janúar 22, 2003
Einkunnin er komin inn - 8.5 ósköp er maður hégómlegur, ég hefði nú gjarnan viljað hafa hana hærri. Sennilega hefur skemmtanagildi ritgerðarinnar verið meira en gæðin frá fræðilegu sjónarhorni. Úlfhildur er nú heldur ekki sú örlátasta á einkunnir, bara svo ég afsaki mig aðeins.
Góðan dag!
Þetta er Rannveig Jónsdóttir, bókmenntafræðingur, sem talar. Ég er búin að skila loka, loka, lokaútgáfu af BA ritgerðinni. Einkunnin ætti að vera komin í hús seinnipartinn í dag. Ég er reyndar búin að fá vísbendingu um hver hún verður en ég held að fæst orð beri minnsta ábyrgð. Rokktíkur, takk fyrir samstarfið... it's been real... tmm hafa víst sýnt áhuga, kannski verð ég uppgötvuð.
þriðjudagur, janúar 21, 2003
Áðan skrifaði ég langa romsu um handbolta, Ástrala-líu og eitthvað fleira en týndi því svo áður en það fór alla leið. Ég nenni nú ekki að endurtaka það allt. Í hnotskurn: Íslandi vann, fyndinn leikur... Núna má ég ekkert vera að því að skrifa af því að ég er svo dugleg í vinnunni minni. Skemmtileg nýbreyttni það ;-)
mánudagur, janúar 20, 2003
Hann pabbinn minn á afmæli í dag. Til hamingju pabbi. Hann er sko bara flottasti pabbinn í öllum heiminum. Ég veit vel að hverjum þykir sinn fugl fagur en samt stenst enginn samanburð við hann pabba minn. Honum til heiðurs er líka fyrsti í HM í handbolta í dag. Allir heim að horfa ÁFRAM ÍSLAND!!! Mér þykja nú íþróttir ekki sérstaklega skemmtilegt sjónvarpsefni en á því eru samt tvær undantekningar, landsleikir í handbolta og auðvitað formúlan. Talandi um formúluna þá ku ræst í fyrsu keppni 9. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna og fæðingardegi Clöru Sedkin ef ég man rétt. Jiibbííí... ég hlakka svo til tra la la la. Svo er bara að vona að þessar nýju reglur hafi eitthvað að segja gegn ljóta, rauða fíatinum. Svo hefur heyrst að McLaren séu að standa sig rosa vel á æfingum. Ekki svo að skilja að þeir séu mitt lið en ef þeir, eða einhverjir, ná að skáka þessum rauðu.
miðvikudagur, janúar 15, 2003
Eftirlætisfrasi Kolfinnu Költu þessa dagana er djísös kræst. Það seitlar kalt vatn niður bakið á mér í hvert skipti sem hún tekur sér hann í munn. Djísös kræst mamma af hverju má ég ekki horfa á vídeó. Litli, bráðum sex ára, unglingurinn minn. Ég get þá bara sest niður strax og farið að kvíða unglingsárunum, garg :-Þ
föstudagur, janúar 10, 2003
Which Personality Disorder Do You Have?
brought to you by Quizilla
Það er SVO minn dagur í dag aaaarrrrggghh
WHAT THE FUCK IS THAT SUPPOSED TO MEAN
Which Dysfunctional Care Bear Are You?
brought to you by Quizilla
HAS THE WHOLE WORLD LOST IT?
fimmtudagur, janúar 09, 2003
The Oxford Illustrated History of English Literature er rétt rúmlega 500 blaðsíður og nær yfir 1200 ár. Af þessum rúmlega fimmhundruð blaðsíðum eru tæplega 50 helgaðar William Shakespeare. What's up with that? Hafa þessir tjallar ekki gert neitt annað af viti? Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.
Svava Rán bara ástfangin, svo bregðast krosstré. Ég er að reyna að gera það upp við mig hvort mér líkar við karlmenn eður ei. Ég minnist þess ekki að þeir hafi nokkurntíma gert mér eitthvað gott (sem entist lengur en nóttina). Einn þeirra gerði mér að vísu barn einu sinni, það var nokkuð gott. Ég á líka góða vini af gagnstæða kyninu, mjög góða vini sem eru frábærir en að öðru leyti minnist ég þess ekki að karlmenn hafi fært mér nokkuð annað en vandræði.
Sennilega segir þetta meira um mig en téð kyn. Ef aðrar konur geta átt í eðlilegum, skemmtilegum og gefandi samböndum við karlmenn (mér detta nú strax í hug nokkur samböndi sem eru ekki eðlileg, skemmtileg eða gefandi) þá er það væntanlega ég sem er vandamálið. Svo er það hin spurningin er það eitthvert vandamál??? Er mér ekki að flestu leyti alveg sama. Ég legg áherslu á að flestu leyti og bendi í því sambandi á færslu frá 18. nóvember sl. Ég ferð mér úti um fyllingu, spennu, gleði og nálægð, hjá vinum mínum og fjölskyldu; í leik, námi og starfi. Ég hef allt sem ég þarf og Kolfinnu Kötlu líka sem er hreinn bónus.
Þessi pistill gerir nú ekki mikið meira en að klóra yfirborðið á því sem ég er að hugsa en ég er í vinnunni og þar er ekki ætlast til þess að ég eyði mjög löngum tíma dag hvern í að blogga. Bottom line, ég er dugleg, ég er æðisleg, ég er ein af 10% þjóðarinnar sem er ekki á geðlyfjum, ég er glöð. Ok ég er auðvitað líka gröð en nútíma tækni og allt það... Me go girl!
miðvikudagur, janúar 08, 2003
Mánudagur, þriðjudagur.....miðvikudagur, Hey hvað gerðist eiginlega? Hvert fóru allir dagarnir? Hvar eru allir klukkutímarnir sem ég ætlaði að nota í þessar ritgerðir. Úff, þetta er erfitt, skiladagur á sjeikspír á föstudag og endurskoðuð útgáfa af lokaritgerðinni due á mánudag síðan er ég að hugsa um að deyja drottni mínum í nokkra daga.
Dóttlan mín á það til, eins og mamma hennar, að tala upp úr svefni. Í nótt vaknaði ég við að hún gól (alltaf jafn skemmtilegt að beygja veikar sagnir sterkt) hátt og snjallt: „hættu þessu, hálfvitinn þinn“. Í svefnrofanum skellti ég uppúr, ég vissi ekki einu sinni að hún kynni svona munnsöfnuð.
mánudagur, janúar 06, 2003
Ég auglýsi eftir vinkonu minni, hún virðist hafa gufað upp. Hún er hrekklaus stúlka, barnslega einlæg og óforbetranlega jákvæð, geðgóð og glaðlynd og fram úr hófi bjartsýn. Ljós er hún á brá og brún og bjarteig svo mjög að tekið er eftir. Yfir augum hennar tróna brúnir tvær svo glæsilegar að hún bendir þér á þær, ef þær fara fram hjá þér. Hún er hnarreist mjög, hefur fiman fót og fas hennar allt bendir til sjálfsöryggis og staðfestu. Hún er snoppufríð og bendir þér sömuleiðis á það ef það fer framhjá þér. Greind er hún yfir meðallagi og hjartahrein og þó hún hafi fallið í freistni á stundum og þótt helst til létt á bárunni hefur hún aldrei ratað á neina glapstigu.
Nú hef ég hins vegar áhyggjur. Síðast spurðist til meyjarinnar á velskri grund í örmum útlends stærðfræðitrölls. Óttast ég hið versta, að hún kunni að hafa fuðrað upp í ástarbríma eða hreinlega splundrast af áreynslu við hin nýju ævintýr.
Hvar getur hún verið?
laugardagur, janúar 04, 2003
Gleðilegt ár elskurnar mínar. Ekki hefur nú verið mikið bloggað um hátíðarnar en þeim mun meira etið. Ég held svei mér að ég gæti lagst í dvala og lifað á þeim forða sem ég hef hamstrað síðustu tvær vikurnar. Hrökkbrauð og vatn fram á vorið, ekki spurning.