mánudagur, janúar 06, 2003

Ég auglýsi eftir vinkonu minni, hún virðist hafa gufað upp. Hún er hrekklaus stúlka, barnslega einlæg og óforbetranlega jákvæð, geðgóð og glaðlynd og fram úr hófi bjartsýn. Ljós er hún á brá og brún og bjarteig svo mjög að tekið er eftir. Yfir augum hennar tróna brúnir tvær svo glæsilegar að hún bendir þér á þær, ef þær fara fram hjá þér. Hún er hnarreist mjög, hefur fiman fót og fas hennar allt bendir til sjálfsöryggis og staðfestu. Hún er snoppufríð og bendir þér sömuleiðis á það ef það fer framhjá þér. Greind er hún yfir meðallagi og hjartahrein og þó hún hafi fallið í freistni á stundum og þótt helst til létt á bárunni hefur hún aldrei ratað á neina glapstigu.

Nú hef ég hins vegar áhyggjur. Síðast spurðist til meyjarinnar á velskri grund í örmum útlends stærðfræðitrölls. Óttast ég hið versta, að hún kunni að hafa fuðrað upp í ástarbríma eða hreinlega splundrast af áreynslu við hin nýju ævintýr.

Hvar getur hún verið?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home