föstudagur, janúar 31, 2003

Mikið finnst mér leiðinlegt þegar fólk talar til mín en ekki við mig. Á nýja vinnustaðnum mínum er ég lambakjötið, táningurinn sem er skemmtileg nýbreyttni eftir að hafa verið kerlingin í háskólanum. Margar af þeim mannvitsbrekkum sem ég vinn með hafa viðað að sér svo mikilli þekkingu, farið svo ótrúlega víða og þekkja svo stórkostlega merkilegt fólk að allt annað bliknar í samanburði. Þessu er ég alveg tilbúin að kyngja, ég efast ekki um að þetta er satt og rétt. Ég get alveg setið og hlustað á fólk raupa, sérstaklega ef það raupar skemmtilega eins og þetta greinda og sniðuga fók sem ég vinn með gerir oftar en ekki. Það fer hins vegar óendanlega mikið í taugarnar á mér þegar fólk stoppar, af stakri hógværð og góðu uppeldi, frásögn sína til að fá viðbrögð frá áheyrendum en hlustar svo ekki á það sem áheyrandinn hefur um málið að segja. Þögnin er ekki einu sinni nógu löng til að áheyrandinn geti brugðist við því sem hann hefur hlýtt á. Fjarrænt augnaráð og augljóst áhugaleysi þess sem mælir verður líka fljótlega til þess að áheyrandinn lærir að kinka bara kolli, brosandi.

Samstarfsfólk mitt hefur (margt hvert, alls ekki allt) tamið sér þann leiða sið að segja mér hluti og uppfræða mig. Kárahnjúkavirkjun er af hinu illa, ísleska handboltalandsliðið stóð sig mjög illa og Ingibjörg Sólrún gerði hárrétt og sveik ekki nokkurn mann þegar hún ákvað að snúa sér að landsmálunum. Ekkert af þessu hefði ég vitað ef mitt ágæta samstarfsfólk hefði ekki bent mér á það. Ég hefði jafnvel getað asnast til þess að reyna að hafa skoðun á þessum hlutum sjálf, þvílík firra.

Skemmtilegast finnst mér samt að koma fram á kennarastofu þegar þar fer fram mannvitsbrekkukapphlaup. Það er dásamlegt fyrirbæri. Þá hefur verið bryddað upp á einhverju málefni: sjö daga stríðinu, rómantísku skáldunum í Köben eða endurreisninni í ítalskri málaralist svo keppast mannvitsbrekkurnar við að koma að eins miklum fróðleik og þær geta á sem skemmstum tíma, auka stig fást fyrir að koma að sem flestum ártölum. Svo mikið er þeim í mun að koma viskunni út úr sér að þær grípa hver fram í fyrir annarri enda eiga þær alltaf á hættu að allar hinar mannvitsbrekkurnar viti allt það sem þær eru búnar að segja og hafa um málið að segja og þá gildir sú regla að vera bara á undan hinum að koma því út úr sér.

Ég elska að umgangast vel gefið og vel lesið fólk, þess vegna halla ég mér aftur og hlusta og reyni ekki að taka þátt í samræðunum, öðruvísi mér áður brá!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home