mánudagur, október 30, 2006

Verslunarferð dauðans

Skellti mér í Kringluna í gær ásamt sætustum og yngra afkvæminu. Verð að segja að það var einstaklega skemmtilegt að geta labbað inn í „venjulegar“ búðir og mátað og keypt það sem mig langaði í. Að þurfa ekki lengur að fara í feitubollubúðir eða feitubolludeildina í Hagkaupum. Keypti mér voðalega smart peysu í Fat Face en hef nú mestar áhyggjur af að ég gæti ánetjast þessum fjanda. Mikill vill meira og nú langar mig bara út í búð að kaupa mér meira og meira og meira og meira.......

föstudagur, október 27, 2006

Í sveitasælunni.

Krílið átti vetrarfrí í skólanum sínum svo mæðgurnar skelltu sér austur fyrir fjall í sveitasæluna hjá ömmu og afa. Kolfinnu finnst þetta frábært, skrattast í skólann með ömmu og afa og leikur allan daginn við Sigrúnu Sól vinkonu sína. Þær stöllur eru búnar að vera bestu vinkonur síðan löngu áður en uppeldisfræðingar vilja meina að börn myndi vináttusambönd. Þær byrjuðu saman á leikskóla rétt rúmlega tveggja ára og það virðist engu máli skipta þó að við flyttum til Reykjavíkur ári seinna og stundum líði margir mánuðir á milli þess að þær hittist þær detta alltaf áreynslulaust í leik eins og ef þær hittust daglega (rosalega er erfitt að búa til setningu með svona miklum viðtengingarhætti, að flytja í viðtengingarhætti þátíðar var alveg að ganga frá mér). Ég held að kannski hafi þær fengið í arf vináttu mæðranna enda erum við Ólína búnar að vera vinkonur síðan við vorum sjálfar á leikskóla og það eru nú bara hátt í 30 ár.

Litla ljósið virðist líka njóta sín í sveitinni hjá ömmu og afa. Sefur eins og engill og hefur það gott. Amma hennar gerir endalaust grín að henni og kallar hana feitubollu, enda ekki laust við að barnið sé ansi hraustlegt. Hún er núna eins og hálfsmánaða álíka þung og systir hennar var fjögurra mánaða. Eins og þær eru nú líkar er þetta nokkuð ólíkt.

sunnudagur, október 22, 2006

Nokkrar myndir.

Rétt að setja inn nokkrar myndir fyrir þá sem búa lengra í burtu og komast ekki á stórviðburði. Sætastur ætlar síðan, held ég, að setja upp myndasíðu seinna, þegar hann hefur tíma.


Sætustu systurnar. Posted by Picasa


Nei, ekki taka mynd af mér! Posted by Picasa


Iðunn Ösp, nýskírð og steinsofandi. Posted by Picasa


Fjölskyldan og skírnarvottarnir. Posted by Picasa


Fína fjölskyldan mín. Posted by Picasa

laugardagur, október 21, 2006

Skemmtileg tilviljun.

Í dag ætlar Vigfús að skíra Iðunni Ösp. Stór dagur það. Þegar ég opnaði fréttablaðið í morgun rak ég augun í að í dag muni vera fyrsti vetrardagur. Þann 24. apríl fyrir rúmum níu árum var Kolfinna Katla skírð, það var fyrsti sumardagur. Nú á ég eitt sumarbarn og eitt vetrarbarn, skemmtileg tilviljun það.

föstudagur, október 20, 2006

Ó þú sæli...

...nætursvefn. Við mæðgur sváfum loksins eins og rotaðar í alla nótt. Mikið ljúft, mikið gott. Þetta kom reyndar í kjölfarið á vöku frá miðnætti til tvö í eftirmiðdag þar sem daman argaði stanslaust. klukkan tvö fékk hún svo stíl og sofnaði loksins. Við fórum með hana til læknis og hún reyndist vera með smávegis sýkingu í hálsinum. Ekkert alvarlegt ætti að jafna sig strax. Hún er líka strax betri í dag.

OG VIÐ ERUM LÍKA BÁÐAR ÚTSOFNAR.

miðvikudagur, október 18, 2006

Andvökunætur II

Fengum dásamlega dropa í apútekinu sem virðast hafa læknað magakveisurnar svona um það bil 90%. Þá er hálfur sigur unninn. Iðunn hefur nefninlega náð að snúa sólarhringnum gersamlega við í öllum látunum. Við erum sem sagt hættar að ganga um gólf en við sofum hins vegar ekki mikið. Hjúkkan kemur á morgun, vonandi kann hún einhver ráð með að snúa henni við aftur.

Til stendur að skíra barnið um helgina. Það þýðir að ég þarf að fara í búðir og kaupa föt á mig og Iðunni. En leiðinlegt fyrir mig, he he. Er búin að kaupa rosalega flotta dragt á krílið og sjálf á ég dragt sem ég hef ekki passað í svo árum skipti sem ég var að hugsa um að notast við en mig vantar topp innan undir hana. Iðunn þarf svo að fá kjól til að vera í þegar hún kemur úr skírnarkjólnum. Verst hvað mér þykir leiðinlegt að versla.

Er að reyna mitt ýtrasta til að hafa skoðanir á merkilegum hlutum eins og hlerunum, hvalveiðum og 20 ára afmæli leiðtogafundarins en það hefur ekki mikið upp á sig, hef einhvern veginn bara skoðun á bleium og magakveisum.

Hrottalegar nauðganir í fréttum upp á síðkastið vekja hjá mér ugg en ég get einhvern veginn ekki tjáð mig um þær. Skoðanir mínar á þeim eru vitaskuld augljósar en tilfinningarnar sem slíkar fréttir vekja eru það ekki. Ég get bara sagt; mér finnst þetta vera að aukast og skil ekki í því að það sé að verða keppnisíþrótt að nauðga ungum stúlkum í húsasundum og bakgörðum. Oj því bara.

föstudagur, október 13, 2006

Andvökunætur

Fyrir þá sem undrast slappleika minn hér á síðunni vil ég bara biðjast afsökunar og útskýra slappleikann. Hann stafar af þeirri einföldu ástæðu að dóttir mín yngri, Iðunn Ösp, vakir helst alla nóttina með magakveisur svo mamma hennar er hálf vönkuð yfir daginn og finnur litla þörf til að tjá sig á alnetinu enda heilinn svo dofinn að hún hefur vafalaust lítið gáfulegt fram að færa. Við erum búin að prófa einhverjar remedíur og húsráð sem hefur rignt yfir okkur en það hefur enn sem komið er lítinn árangur borið. Hún sofnaði t.a.m. klukkan 5 í nótt. Sætastur er líka farinn að vinna aftur svo seinnipart nætur rölti ég ein um gólfið með hana. Það er rétt að taka það fram að hún bætir sér þetta upp með því að sofa fram að hádegi svo ég geri vitaskuld slíkt hið sama. Slíkar svefnvenju henta mér bara svo ósköp illa. Ég vil heldur sofa á nóttunni og vakna snemma á morgnanna. Ég er bara svo skrýtinn.

Ég reyni að hafa skoðun á einhverju fljótlega og blogga um eitthvað skemmtilegt. Þangað til, lifið heil.

fimmtudagur, október 05, 2006

Er fólki ekkert heilagt?

Var að koma úr Nóatúni þar sem ég gekk, eins og lög gera ráð fyrir, fram hjá tímaritarekkanum. „Rak mig þá í rogastans“ þegar ég sá eina fyrirsögnina á forsíðu Vikunnar: Fallegasta barn á Íslandi samkvæmt barnaland.is. Hefur barnaland í alvöru staðið fyrir fegurðarsamkeppni ungbarna? Lákúruritstórnastefnan hjá Fróða hefur náð nýjum hæðum. Að maður tali nú ekki um lágkúruna hjá þeim sem halda úti þessu blessaða barnalandi.

Afsakið mig á meðan ég æli...