miðvikudagur, október 26, 2005

Jæja...

...þá er feitakerlingin búin með foreldraviðtölin. Ekki mikið um kvartanir og fólk fremur ánægt með mín störf. Vetrarfríið er þar með gengið í garð og ég er búin að taka frá stæði í rúminu mínu þar sem ég ætla að verja stærstum hluta af téðu vetrarfríi.

mánudagur, október 24, 2005

Áfram stelpur

Til hamingju með daginn. Sjáumst hressar í miðbænum.

fimmtudagur, október 20, 2005

seinni hluti...

... af blogginu sem guð gleymdi er nú kominn inn. Ég sé nú að þetta hefur verið heljarinnar, babílons blogg og ekki að undra að blogger mótmælti. Þó sá ég á bloggi vinar vors Ástþórs í útlöndum að hann á það til að blogga eins og vindurinn. Ætli það sé bara ég sem fæ ekki að tjá mig í langlokum.

„Nei, nei góða mín þú ert nú nógu leiðinleg í smáskömtum þó við leifum þér ekki að vaða elginn“

Formúll er allur og var að mínu mati skemmtilegur sem aldrei fyrr. Aldrei náðu Margrét Dóra og Hjálmar (takið eftir ekki Magga eða MD) að koma í brunsj svo ég fæ væntanlega brúðarmyndirnar mínar ekki fyrr en í mars þegar fyrsta formúla á nýju tímabili brestur á. Þá fá hundtryggir lesendur mínir engar brúðarmyndir í jólakortin sín og geta sennilega þakkað fyrir það.

kemur heldri húsamús part II

Öldruð móðir mín hringdi í mig áðan dillandi kát og það var ekki vegna þess að hún var búin með einu rauðvínsglasi meira en góðtemplarar mæla með heldur hafði tengdasonur hennar (ekki sætastur heldur einkaþjálfaratröllið) fært henni nýskotnar rjúpur á teini. Áðurnefnd móðir mín er þess nú fullviss að jólunum sé borgið og situr heima sæt og fín og pollróleg og bíður eftir Stekkjastaur (eða á maður að segja Stekkjastauri).

Það ber helst til tíðinda, svo ég haldi nú áfram að tala um kisurnar mínar, að enn búa fjórar kisur á voru heimili og verður svo um sinn. Verðandiforeldrar á Vesturgötuinni treystu sér ekki, í ljósi ástands, að taka nýja kisu inn á heimilið. Kátastur yfir þessum fréttum er væntanlega Skuggi sem fékk hland fyrir hjartað við það eitt að sjá litlukisu fyrir nokkrum vikum þegar hún stóð enn ekki út úr hnefa. Heimilisástandið er nú líkast því að hér hafi spungið estrogen sprengja og sætastur kvartar sáran og finnst sinn hlutur nokkuð rýr. Hann á það jafnvel til að kalla heimilið lítið „femme-pire“. Það ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart sem hefur þekkt mig lengur en einn vetur að ég hef róið að því öllum árum síðan ég sleit barnskónum að stofna mitt eigið „femme-pire of evil“ og nú hefur það tekist.

Litlukisur hafa nú fengið nöfn, eins og systkini þeirra tvö sem hleypt hafa heimdraganum. Sú bröndótta gengur undir nafninu Þoka en sú skjöldótta heitir Þula. Pjakkurinn sem er hjá Konna fékk að halda Pjakksnafninu og finnst mér það vel því hann bar nafnið með miklum sóma. Sú symetríska sem býu nú í góðu yfirlæti hjá Steina heitir nú Bastarda eða eitthvað álíka skrýtið og egypskt.

Er nú mál að linni og fylli rauðvínsglasið.

skál.

Nei sko....

.... bloggið sem guð gleymdi er komið inn. Sætastur var að reyna að koma þessum ósköpum inn í gær við illan leik. Svo virðist sem færslan hafi verið of stór. Þetta er NB bara helmingurinn kannski kemur seinni helmingurinn í dag. Framhaldssaga.

miðvikudagur, október 19, 2005

Kemur heldri húsmús

Í þessum töluðum orðum, þegar ég er akkúrat í þann mund að gera bragarbót á bloggletinni, kemur stærsta fallega kisamín, Blíða kisumamma, trítlandi stolt í bragði með pínulitla mús í kjaftinum. Sérdeilis er nú hugulsemin í kettinum. Hún veit sem er að við hjónin skelltum okkur í Smáralindina áðan og eyddum góðum slurki af peningum svo heldur hefur lést í pyngjunni. Kisumamma hefur að sjálfsögðu séð sína sæng út breidda að hún yrði nú sjálf að ala önn fyrir börnum sínum og færir því björg í bú. síðustu daga og vikur hefur veiðieðlið gert verulega vart við sig og líða yfirleitt ekki margir dagar á milli þess að hún komi inn með fugla. Þetta var fyrsta músin svo flott hjá henni.

Ég þarf kanski að uppfæra veiðivörnina á henni og hengja kúabjöllu um hálsinn á henni. Sjálf felli ég svo sem engin tár yfir þessum smáfuglum, það er örugglega af nógu af taka. Á meðan hún kemur ekki inn með geirfugla, dúdúfugla eða grindhvali þá er mér alveg sama, snjótittlingurinn er mér vitanlega ekki kominn á lista grænfriðunga yfir dýr í útrýmingarhættu. Sætastur kvartar reyndar þegar hann þarf að klára verkið fyrir hana og þegar íbúðin okkar litla og fallega lítur út eins og meðal vígvöllur eftir hana.

Ég held að Þessi veiðigleði hafi eitthvað með uppeldisaðferðir hennar að gera enda koma litlu kvikindin fagnandi og hjálpa henni með bráðina eða drösla líkunum stoltar um íbúðina í þeirri góðu trú að þær sé svakaleg veiðitröll og hetjur. Það er hins vegar líka möguleiki að allt eigi þetta útskýringu í nýútgefnu veiðileyfi á rjúpur og kisumamma sé bara að hita upp fyrir jólin.

mánudagur, október 17, 2005

Bloggerdrasl

Það gengur ekki andskotalaust að nota blogger þessa dagana. Ég var ósköp dugleg um helgina, skrifaði heljarlangt blogg og gerði ótal tilraunir til að birta það en án árangurs. Textan setti ég loks í annað form og vistaði og nú bíð ég þess að blogger losni við flensuna svo ég geti klippt og límt þennan edilonsfína texta inn í bloggið mitt.

þriðjudagur, október 11, 2005

Tíma tvenna.

Man ég enn þegar ég hafði tíma til að blogga. Einu sinni hefur þetta blogg risið úr öskustónni eftir langan Þyrnirósarsvefn og nú virðist allt vera að líða undir lok. Ég mun gera mitt ítrasta til að halda velli en á meðan mér finnst ennþá að vinnan sé öggulítið mikilvæg og yfirvinnan sem gerir bankareikninginn minn feitari, heillar verður fólk að sína bæði biðlund og stillingu. Framundan er nú samt fljótlega vetrarfrí og þá stendur til að taka smá pásu.