fimmtudagur, október 20, 2005

kemur heldri húsamús part II

Öldruð móðir mín hringdi í mig áðan dillandi kát og það var ekki vegna þess að hún var búin með einu rauðvínsglasi meira en góðtemplarar mæla með heldur hafði tengdasonur hennar (ekki sætastur heldur einkaþjálfaratröllið) fært henni nýskotnar rjúpur á teini. Áðurnefnd móðir mín er þess nú fullviss að jólunum sé borgið og situr heima sæt og fín og pollróleg og bíður eftir Stekkjastaur (eða á maður að segja Stekkjastauri).

Það ber helst til tíðinda, svo ég haldi nú áfram að tala um kisurnar mínar, að enn búa fjórar kisur á voru heimili og verður svo um sinn. Verðandiforeldrar á Vesturgötuinni treystu sér ekki, í ljósi ástands, að taka nýja kisu inn á heimilið. Kátastur yfir þessum fréttum er væntanlega Skuggi sem fékk hland fyrir hjartað við það eitt að sjá litlukisu fyrir nokkrum vikum þegar hún stóð enn ekki út úr hnefa. Heimilisástandið er nú líkast því að hér hafi spungið estrogen sprengja og sætastur kvartar sáran og finnst sinn hlutur nokkuð rýr. Hann á það jafnvel til að kalla heimilið lítið „femme-pire“. Það ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart sem hefur þekkt mig lengur en einn vetur að ég hef róið að því öllum árum síðan ég sleit barnskónum að stofna mitt eigið „femme-pire of evil“ og nú hefur það tekist.

Litlukisur hafa nú fengið nöfn, eins og systkini þeirra tvö sem hleypt hafa heimdraganum. Sú bröndótta gengur undir nafninu Þoka en sú skjöldótta heitir Þula. Pjakkurinn sem er hjá Konna fékk að halda Pjakksnafninu og finnst mér það vel því hann bar nafnið með miklum sóma. Sú symetríska sem býu nú í góðu yfirlæti hjá Steina heitir nú Bastarda eða eitthvað álíka skrýtið og egypskt.

Er nú mál að linni og fylli rauðvínsglasið.

skál.

3 Comments:

At 22 október, 2005 13:53, Anonymous Nafnlaus said...

fjórar???

 
At 22 október, 2005 18:04, Blogger fangor said...

akkúrat. ég taldi þrjár síðast þegar ég kom við...?

 
At 24 október, 2005 08:40, Blogger Rannveig said...

þrjár skal það vera. mín aðeins að ruglast.

 

Skrifa ummæli

<< Home