miðvikudagur, október 19, 2005

Kemur heldri húsmús

Í þessum töluðum orðum, þegar ég er akkúrat í þann mund að gera bragarbót á bloggletinni, kemur stærsta fallega kisamín, Blíða kisumamma, trítlandi stolt í bragði með pínulitla mús í kjaftinum. Sérdeilis er nú hugulsemin í kettinum. Hún veit sem er að við hjónin skelltum okkur í Smáralindina áðan og eyddum góðum slurki af peningum svo heldur hefur lést í pyngjunni. Kisumamma hefur að sjálfsögðu séð sína sæng út breidda að hún yrði nú sjálf að ala önn fyrir börnum sínum og færir því björg í bú. síðustu daga og vikur hefur veiðieðlið gert verulega vart við sig og líða yfirleitt ekki margir dagar á milli þess að hún komi inn með fugla. Þetta var fyrsta músin svo flott hjá henni.

Ég þarf kanski að uppfæra veiðivörnina á henni og hengja kúabjöllu um hálsinn á henni. Sjálf felli ég svo sem engin tár yfir þessum smáfuglum, það er örugglega af nógu af taka. Á meðan hún kemur ekki inn með geirfugla, dúdúfugla eða grindhvali þá er mér alveg sama, snjótittlingurinn er mér vitanlega ekki kominn á lista grænfriðunga yfir dýr í útrýmingarhættu. Sætastur kvartar reyndar þegar hann þarf að klára verkið fyrir hana og þegar íbúðin okkar litla og fallega lítur út eins og meðal vígvöllur eftir hana.

Ég held að Þessi veiðigleði hafi eitthvað með uppeldisaðferðir hennar að gera enda koma litlu kvikindin fagnandi og hjálpa henni með bráðina eða drösla líkunum stoltar um íbúðina í þeirri góðu trú að þær sé svakaleg veiðitröll og hetjur. Það er hins vegar líka möguleiki að allt eigi þetta útskýringu í nýútgefnu veiðileyfi á rjúpur og kisumamma sé bara að hita upp fyrir jólin.

2 Comments:

At 19 október, 2005 19:17, Anonymous Nafnlaus said...

Enjoyed reading your interesting blog. You may want to check out my day trading online web page day trading online Keep it up.

 
At 20 október, 2005 13:09, Blogger Rannveig said...

hans í koti og helgi hvíti er ekki komið hér eitthvurt spamdrasl.

 

Skrifa ummæli

<< Home