Mannlegi tannhringurinn
Eins og ég sagði frá nýlega fékk ungbarnið fyrstu tönnina á dögunum. Það hefur alls ekki linað kvalirnar í gómunum því að næsta tönn er skammt undan. Þrátt fyrir að móðirin hafi vitaskuld verið að rifna úr stolti yfir þessaru pínulitla postulínsundri og gert heiðarlega tilraun til að berja hana aftur niður í gómin með teskeið af einskærri hamingju yfir þessu litla pling sem kemur þegar lamið er í hana verður að viðurkennast að þetta er svo sannarlega ekki allt tekið út með sældinni. Þar sem barnið er pirrað í gómnum treður það öllu sem það finnur upp í sig og nagar eins fast og litlu gómarnir ráða við. Eitt er það sem ég set upp í hana oft á dag og það eru geirvörturnar á mér og samkvæm sjálfri sér bítur hún vitaskuld líka í þær. Það er EKKI notalegt.
Nú sér vonandi fyrir endann á þessu vandamáli þar sem ég sé að næsta tönn er alveg að bresta á. Hún gæti hreinlega verið komin upp en ég ætla að fresta því að finna hana þangað til á morgun. Mér finnst bara flottara að finna hana þá. Ég er líka búin að æfa mig voða vel í að verða hissa þegar ég finn hana.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home