þriðjudagur, maí 23, 2006

Velkomin í heiminn

Fædd er lítil Vesturgötuprinsessa. Og ég sem hélt að hún ætlaði að vera strákur. hefur þegar fengið gullfallegt nafn, hefði vart getað valið fallegra sjálf. Hún er fædd á afmælisdegi stóra bróður míns sem er 35 ára í dag og berst í tilefni dagsins í gegnum skafrenning og stórhríð til byggða á suðurlandi til að ná í flugvél til útlanda. Ekki veit ég hvert í heiminum hann er að fara núna, ég er löngu hætt að fylgjast með.

Sjálf er ég með slæmt tilfelli af ljótunni, frunsu á stærð við nýútsprungna rós og bólur. Ullabara! Eiginmaðurinn sætastur sagði í gær að ég mætti nú alveg við einum degi með lótuna þar sem ég hefði geislað af fegurð upp á síðkastið. Í morgun reyndi hann svo að gera enn betur og telja mér trú um að ég væri alls ekki með ljótuna. Skemmst frá því að segja að ég trúði honum ekki.

mánudagur, maí 22, 2006

Með quick tan brúsa

Prufukeyrði nýju sumarfötin mín og gömlu góðu sandalana um helgina. Vildi ekki betur til en svo að það fór hreinlega að snjóa og hitinn niður fyrir frostmark. Ekki mjög sumarlegt það.

Var ansi hreint sátt með úrslit júróvisjón. Verð að viðurkenna að Lordi var ekki í mestu uppáhaldi hjá mér en í næstmestu svo ég var mjög sátt. Það er líka frábært þegar eitthvað sem hristir svona rækilega upp í liðinu endar á hæsta palli. Jafnvel þó að Wig Wam hafi verið búinir að gera það áður.

Heyrði auglýsingu fyrir kvennahlaupið í útvarpinu. Finnst einhverjum öðrum en mér skjóta dálítið skökku við að spila þemalagið úr Benny Hill undir auglýsingu fyrir kvennahlaupið? Eða verður hlaupið kannski topplaust að þessu sinni?

fimmtudagur, maí 18, 2006

Júró júró júróvisjón

Júróvisjón í huggulegheitum í kvöld fyrir framan sjónvarpið í faðmi fjölskyldunnar. Um helgina er svo júróvisjón og þrítugsafmæli hjá Ingimundi, happy days.

Maginn á mér vex eins og óð fluga og allt er enn í lukkunnar velstandi. Heilsa góð og blóðþrýstingur með besta móti. Með hækkandi sól vil ég yfirleitt fækka fötum en nú hefur verið sá hængur á að sumarfötin passa ekki og óléttuföt á Íslandi koma mér fyrir sjónir sem of dýr, forljót eða of lítil. Litli flugfræðingurinn hún systir mín kom mér vitaskuld til bjargar og dressaði bumbukellingu upp í síðustu ferð til Ammeríku fyrir sama verð og ég hefði fengið tvennar buxur í tvö líf. Ljómandi. Nú get ég farið að bera hold mitt sem fer ört brúnkandi og ganga í sandölum.

Mátti til með að ræna þessum hráum af síðunni hennar Lísu sem er jú ábúandi í Túborg. Er líka búin að senda góðkunningja mínum, Simma smíðakennara sem gekk í sjálfstæðisflokkinn (hefur alltaf verið góður og gegn kommúnisti) engöngu fyrir tilstilli persóutöfra Arnaldsins, góðar kveðjur eftir ósköpin.

Fyrst er áríðandi tilkynning frá Sjálfstæðismönnum í Tuborg (áður Árborg)Eins og flestir ef ekki allir íbúar Tuborgar vita þá hefur eitt af stóru baráttumálum Sjálfstæðisflokksins í Tuborg fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í ár verið áhersla á að Hellisheiðin verði full-upplýst á næsta kjörtímabili...

Þetta baráttumál er ekki lengur á stefnuskrá flokksins þar sem komið hefur í ljós að ljósastaurar geta hreinlega bara verið fyrir!!“

Hláturmild kona er ég en ég verð að segja að bumban mín stóra, sem fer nú ört stækkandi, hefur sjaldan hristst eins mikið og eins lengi og eftir nýjasta útspil sjálfstæðismanna. Og svo segir formaðurinn þeirra að það sé nú verst fyrir Eyþór að lenda í þessu. Tókuð þið eftir LENDA Í ÞESSU. Svona eins og maður getur átt það á hættu að lenda í loftsteinaregni.

föstudagur, maí 05, 2006

ánægjulegir endurfundir

Sá í sjónvarpinu ríkisins í gær myndband með Franz Ferdinand. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema hvar þar sá ég skemmtilega notkun á fýsískum penslum sem ég hef ekki séð síðan í Skaupinu 1983 eða 84. Þetta þótti mér óskaplega gaman. drengurinn í myndbandinu notaði reyndar ekki sína eigin fýsísku pensla (enda þykja berir karlmenn hálfu dónalegri en berar konur einhverra hluta vegna) heldur hafði hann heila konu sem hann dró eftir striganum. skemmtilegt.

Ég vann ekki miða til Manchester eins og áður hefur komið fram en ég vann hins vegar miða á tónleikana. Nú vantar mig ferðafélaga, er einhver að fara sem vill vera memm?

þriðjudagur, maí 02, 2006

Mitt ævarandi ástarsamband

Var að enda við að senda Hörpu og fjölskyldu smá kveðju í tölvupósti og bað hana vitaskuld að skila líka kveðju til Ítalaíu frá mér. Ítalía er ein af stóru ástunum í lífi mínu. Ég hreinlega elska allt við Ítalíu; matinn, rauðvínið, umhverfið, veðrið, fólkið og óperurnar. Allt. Ef einhver segði mér að ég ætti aðeins eftir eina utanlandsferð um ævina og valið stæði á milli þess að fara einhvert sem ég hef ekki komið áður og að fara einu sinni enn til Ítalíu held ég að Ítalía yrði ofan á. Einhvern tíma ætla ég að legja mér hús í Toscana og vera þar heilt sumar. Ég er viss um að jafnvel með geldasta móti tækist mér að skila af mér einhverju skapandi eftir slíkt sumar.

Fyrirliggjandi er reyndar þrælspennandi utanlandsferð í næsta mánuði. Þar sem verður stoppað bæði í Bratislava og Vínarborg. Ég hlakka óskaplega mikið til. Ferðalagið gæti orðið okkur, mér og samferðarkrílinu mínu, dálítið erfitt en svona til að bæta það upp verðum við á spa hóteli síðustu tvo dagana í Bratislava svo það ætti að sleppa. Skyldu þér kunna bumbunudd í Slóvakíu?

Hafði hugsað mér að vinna ferð til Manchester í síðastliðnum popppunkti (vá hvað þetta eru mörg pé) en það gekk ekki eftir. Mér fannst svo gráupplagt að fá fría ferð til Manchester í vetur og bruna þaðan til veils í notalega heimsókn. Það mistókst svo ég verð bara að safna.