þriðjudagur, september 27, 2005

Gaman í mínum bekk II

Smoke on the Water.

miðvikudagur, september 21, 2005

Gaman í mínum bekk

Í nestistímum og stundum þegar ég er bara í skapi til þess spila ég Welcome to the Jungle og Paradise City fyrir 5. bekk. Hversu frábær kennari er ég?

mánudagur, september 19, 2005

Tíðindi af austurvígstöðvunum

Getur einhver sagt mér hvernig ein þjóð, sem á allra þjóða mest af gereyðingarvopnum og er eina þjóðin í allri veröldinni sem hefur notað fínu atómsprengjurnar sínar, getur sagt annarri að hún megi alls ekki eiga gereyðingarvopn. Er þetta ekki dálítill tvískinnungur. Við erum góðukallarnir (Hiroshima og Nagasagi aside) en þið eruð vondukallarnir og vondukallarnir meiga ekki eiga gereyðingarvopn.

Nú má ekki skilja orð mín sem svo að ég fagni því ekki af öllum mætti að vopnum í heiminum fækki hver svo sem á þau og af hvaða tagi þau eru. Það má heldur ekki skilja sem svo að ég treysti þeim kónum sem eru við völd í Kóreu til að fara með gereyðingarvopn. Það er bara tvöfeldnin sem fer í taugarnar á mér.

föstudagur, september 16, 2005

Að lesa og skrifa list er góð.

Ég lærði tvö ný og skelfilega flott orð í dag. Bæði eiga við um forneskjuleg skrímsli sem búa í sjónum og víkingar óttuðust. Túðu því að það boðaði mjög slæmt að sjá þau en þó var mismunandi hvað þau aðhöfðust hversu slæmur fyrirboðinn var.

Hafstrambi: Var ristastór og gat risið úr sjónum fyrirvaralaust og steypt sér að skipi. Þá var úti um bæði skip og menn. Ef það hins vegar steypti sér frá skipi boðaði það vont veður. Hafstrambi hafði höfuð og háls eins og risastór manneskja. Augu hafði það og munn og nef en engar hendur. Það hafði líka hjálm á höfði.

Margýgur (sem er kvenkynsorð eins og allir sem eitthvað kunna fyrir sér í íslensku vita): Var stór og hræðileg með stóran munn og stór augu og sundfit á milli fingranna. Ef hún reis úr hafi og kastaði fiski að skipum boðaði það mikið manntjón. Ef hún aftur á móti át fiskana eða kastaði þeim frá skipi var góð von um mannbjörg þrátt fyrir að vont veður væri í aðsigi.

Ég held að bæði þessi orð hafi ég nú heyrt áður en aldrei vitað fyrr en nú hvaða undraskepnur þetta væru. Ég er að hugsa um í þeirri miklu fátækt sem við búum við í íslenskri tungu af fúkyrðum að taka þessi í notkun.

„Drullaðu þér úr hafstrambinn þinn og komdu alrei aftur.“

miðvikudagur, september 14, 2005

Ég þoli ekki....

...tölvur sem vinna hægt. Tölvan mín í vinnunni vinnur á lúsarhraða og þá nenni ég alls ekki að nota hana. *puðrrr* :-Þ

mánudagur, september 12, 2005

Hor og slef

Þá er maður kominn í vinnuna. Með allar holur, nefholur, ennisholur og jafnvel svitaholur smekkfullar af kvefi, hori og ógeði. Svona er maður nú samviskusamur, liggur heima lasinn um helgar en mætir alltaf í vinnuna.

föstudagur, september 09, 2005

Aðskilnaður

Styttist nú í að kisubörninkátu yfirgefi heimilið. Tilfinningar þessu samfara eru vægast sagt mjög blendnar. Aðeins einn fjölskyldumeðlinum getur ekki beðið að losna við hnullungana og það er þeirra eigin ekta móðir, Blíðust. Hún er búin að fá ands..... nóg af þeim og vildi helst losna við þau sem fyrst. Ekki bætti úr skák þegar hún lagðist fárveik um síðustu helgi af því að einhver kvikindis högni hafði misskilið meðfæddan kynþokka hennar sem svo að hún væri að breima og beit hana svo heiftarlega í bakhlutan að af hlaust svæsin sýking sem vinna þurfti bug á með sýklalyfjum. Síðan þá hafa blessuð börnin bara farið í taugarnar á henni og gerir hún ítrekaðar tilraunir til að ganga af þeim dauðum, uppeldisaðferðir sem ekki þættu til fyrirmyndar hjá mæðrum mannannabarna.

Hinir fjölskyldumeðlimirnir eru í hálfgerðum henglum yfir þessu öllu saman. Þó að það sé aldrei skemmtilegt að finna steingerðan kettlingakúk úti í horni á heimili sínu og útklóraðir fótleggir séu hvorki smart eða þægilegir er eftirsjáin mikil. Bót er auðvitað í máli að við þekkjum vel til á öllum þeim heimilum sem þau koma til með að búa á og getum alltaf kíkt í kaffi undir því yfirskyni að við séum að heimsækja húsráðendur.

Alltaf elskar maður nú erfiðu börnin sín mest og ég held að ég eigi erfiðast með að senda Pjakkinn frá mér. Hann gerir ekkert af því sem hann á að gera, vælir og grenjar, hrekkir mömmu sína og eltir hana á röndum, gerir aðsúg að öllum mannamat á heimilinu (sérstaklega ef við erum með eitthvað gott á diskunum) sannfærður um að hann sé handa honum og er til vandræða daginn út og inn. Ég tími varla að láta hann frá mér. Svona er maður nú skrýtinn.

Nú styttist sem sé í þetta. Ég geri jafnvel ráð fyrir að þau fari flest um helgina. Ég verð þess vegna að drífa mig heim (ekkert vit í því heldur að hanga í vinnunni langt fram eftir degi á föstudegi) og taka af þeim myndir á meðan ég á þau ennþá.

fimmtudagur, september 08, 2005

Sætastur...

... sat við tölvuna í gær og þegar ég spurði hvað hann væri að gera kvaðst hann vera að blogga. Ég sagði honum að hann gæti nú logið einhverju öðru að mér en vitrir menn, hann gerði sér lítið fyrir og bloggaði.

fimmtudagur, september 01, 2005

Fúli Skúli

Geðheilsa mín hefur verið alvarlega í ólagi í dag ég hef allt á hornum mér, kvæsi á nærstadda og allt og allir (þá sérstaklega ég sjálf) fara í taugarnar á mér. Ástandi læt ég að sjálfsögðu ekki bitna á vinnufélögum mínum, helv... kerlingunni í Hagkaup eða neinum sem ég þekki ekki vel, til þess er ég auðvitað allt of vel upp alin. Þess í stað tek ég þetta út á sætustum og blásaklausu krílinu. Fólkinu sem ég elska mest í heiminum. Tíkarlegar þessar tilfinningar.

Ég skil alls ekki hvað veldur þessari geðlumbru. Finnst helst líklegt að gripið hafi um sig samúðar-hormóna-geðbólguverkir í tilefni af sæðingu og öllu því sem henni fylgir á Vesturgötunni. Hitti téða vesturgötuofurhetju í morgun á hlaupum og bar hún sig vel þrátt fyrir augljóst álag. Mig greip einhvers konar „ég skal knúsa þig og passa þig“ tilfinning þegar ég sá hana.

Skrýtið, í ljósi þess sem áður er sagt. Sennilegast þykir mér að aðgerðir hafi heppnast og þess vegna hafi móðureðlið mitt (sem er í skötulíki í samskiptum mínum við krílið :-Þ) vaknað úr roti.

Nú ætla ég að fara og knúsa sætastann og kríli og sennilega neyðist ég svo til að graðga í mig eitthvað af súkkulaði í þeirri von að það slái á bólgurnar. Það er alkunna að ekkert lyf virkar á bólgur af þessu tagi eins og súkkulaði. Verst að það er ekki til svo ég verð sennilega að fara í göngutúr.