föstudagur, september 09, 2005

Aðskilnaður

Styttist nú í að kisubörninkátu yfirgefi heimilið. Tilfinningar þessu samfara eru vægast sagt mjög blendnar. Aðeins einn fjölskyldumeðlinum getur ekki beðið að losna við hnullungana og það er þeirra eigin ekta móðir, Blíðust. Hún er búin að fá ands..... nóg af þeim og vildi helst losna við þau sem fyrst. Ekki bætti úr skák þegar hún lagðist fárveik um síðustu helgi af því að einhver kvikindis högni hafði misskilið meðfæddan kynþokka hennar sem svo að hún væri að breima og beit hana svo heiftarlega í bakhlutan að af hlaust svæsin sýking sem vinna þurfti bug á með sýklalyfjum. Síðan þá hafa blessuð börnin bara farið í taugarnar á henni og gerir hún ítrekaðar tilraunir til að ganga af þeim dauðum, uppeldisaðferðir sem ekki þættu til fyrirmyndar hjá mæðrum mannannabarna.

Hinir fjölskyldumeðlimirnir eru í hálfgerðum henglum yfir þessu öllu saman. Þó að það sé aldrei skemmtilegt að finna steingerðan kettlingakúk úti í horni á heimili sínu og útklóraðir fótleggir séu hvorki smart eða þægilegir er eftirsjáin mikil. Bót er auðvitað í máli að við þekkjum vel til á öllum þeim heimilum sem þau koma til með að búa á og getum alltaf kíkt í kaffi undir því yfirskyni að við séum að heimsækja húsráðendur.

Alltaf elskar maður nú erfiðu börnin sín mest og ég held að ég eigi erfiðast með að senda Pjakkinn frá mér. Hann gerir ekkert af því sem hann á að gera, vælir og grenjar, hrekkir mömmu sína og eltir hana á röndum, gerir aðsúg að öllum mannamat á heimilinu (sérstaklega ef við erum með eitthvað gott á diskunum) sannfærður um að hann sé handa honum og er til vandræða daginn út og inn. Ég tími varla að láta hann frá mér. Svona er maður nú skrýtinn.

Nú styttist sem sé í þetta. Ég geri jafnvel ráð fyrir að þau fari flest um helgina. Ég verð þess vegna að drífa mig heim (ekkert vit í því heldur að hanga í vinnunni langt fram eftir degi á föstudegi) og taka af þeim myndir á meðan ég á þau ennþá.

2 Comments:

At 09 september, 2005 15:23, Anonymous Nafnlaus said...

Never keep a cat!

 
At 09 september, 2005 16:16, Anonymous Nafnlaus said...

Hver verður eftir hjá ykkur?????
sendið mér mail....

 

Skrifa ummæli

<< Home