mánudagur, júlí 21, 2003

Mig dreymdi um daginn að ég opnaði bloggið mitt og komst að því að einhver hafði farið inn á það í leifisleysi og „póstað“ mynd, nokkuð sem ég kann alls ekki að gera sjálf. Myndin var af einhverri seglskútu á opnu hafi, dálítið „hafið bláa hafið, hugann dregur“ stemningin. Mér fannst draumurinn í sjálfu sér ekkert merkilegur nema fyrir þær sakir að mig skuli dreyma bloggið mitt. Það er mér ansi hugleikið en er langt frá því að vera á sinninu á mér. Kannski þetta hafi verið samviskubit yfir bloggleti.

Fyrirliggjandi er tveggja vikna bloggþurrð og bið ég hundtrygga lesendur mína velvirðingar á því. Ef svo ólíklega vill til að ég rekist á netkaffihús á Torremolinos smelli ég kannski inn nokkrum línum. Kristinn Err Ólafsson skýrði frá því í morgunútvarpinu í morgun að engin Evrópuþjóð væri jafn illa nettengd og Spánverjar svo ég myndi nú ekki sitja með öndina í hálsinum.

Á miðvikudaginn á minn hundtryggi lesandi Hrönnsa Pönsa afmæli og verðskuldar hún þess vegna link í dag. Ég efa stórlega að ég hafi tíma til að sinna bloggskyldum á morgun (shit ég á enn eftir að pakka!) svo hún fær hamingjuóskirnar í dag líka.

TIL LUKKU MEÐ AMMÆLIÐ HRÖNN MÍN..... ÞÚ GETUR HUGGAÐ ÞIG VIÐ AÐ ÉG ER ALTÉNT ÁRINU ELDRI....

föstudagur, júlí 18, 2003

Vaknaði eldsnemma í morgun, ekki heima hjá mér enda barnlaus, og ákvað þess vegna að nota daginn til uppbyggilegra hluta. Þvo þvott og þrífa íbúðina. Nú er klukkan orðin tíu og ég er búin að afreka það að borða morgunverð, lesa fréttablaðið og flakka á netinu, betur má ef duga skal.

Aðeins fimm dagar í brottför og ég hef miklar áhyggjur af því að ég átti mig svo illa á því að þetta sé að bresta á að ég steingleymi að pakka niður.....

Nei annars ætli það nokkuð ;-)

mánudagur, júlí 14, 2003

Sumum stelpnahópum er í lófa lagið að taka á sig hinn hæpna og mjög svo vafasamatitil að vera gæsir og þar með að halda gæsapartý. Þetta tókst okkur hins vegar alls ekki og ber öllum kunnugum saman um að þetta hafi verið steggjapartý og ekkert annað. Hákarl og íslenskt brennivín á bryggjunni uppúr hádegi segir meira en mörg orð. Myndirnar hans Stebba úr partýinu (sem endaði, einhverra hluta vegna í Hafnarfirði) segja sennilega alla söguna.

Nú þarf ég að sinna krílinu sem er komið í sumarfrí og hefur ekki taugar í það akkúrat núna að mamma hangi í tölvunni þegar hún þarf nauðsynlega að komast á barbie.com AAAARRRRRRGGGGGHHHH

föstudagur, júlí 11, 2003

Leikhúsferð í gær var vægast sagt mjög skemmtileg. Þetta var eins og að vera hleypt inn í lítið leyndarmál, mjög persónuleg sýning og mjög átakanleg. Það var ekki fyrr en hálftími var búin af sýningunni sem ég áttaði mig á því að ég var þátttakandi í sýningunni. Vissulega er þetta labb-sýning og aðeins u.þ.b. 20 áhorfendur á hverri sýningu og aðalleikonan talar beint til áhorfenda allan tíman en þegar verkið var um það bil hálfnað áttaði ég mig á því að ég var beinn þáttakandi í því sem var að gerast. Framvinda verksins byggðist að einhverju leyti á því hvernig áhorfendur brugðust við. Ég fékk hnút í magan því fyrir augum mér hafði farið fram nauðgunarsena þar sem fórnarlambið argaði á hjálp, hún argaði ekki út í loftið, stefnulaust til þess eins að bregðast við því viðbjóðslega ofbeldi sem hún var að verða fyrir heldur biðlaði hún til okkar, áhorfenda, vina sinna, að bjarga sér og skildi ekki af hverju við aðhöfðumst ekkert heldur létum hann nauðga henni. Til að bæta fyrir aðgerðarleysi mitt dansaði ég við hana á barnum en leið samt ekkert betur. Brecht sagði að leikhús ætti að trufla, leikhús á ekki að vera þægilegt, það á ekki að vera taumlaus gleði. Leikfélag Hafnarfjarðar gerði ekkert til að láta gestum sínum líða sem best heldur togaði, potaði og ýtti í þá stanslaust svo þeir voru með lífið í lúkunum allan tímann og vissu engan veginn hvað gerðist næst. Gott leikhús.

Í dag er síðasti dagur í heimi á leikskólanum. Þegar krílið verður sótt á eftir fer hún aldrei aftur á leikskóla. Það er dálítið skrýtin tilfinning en ég er samt alveg tilbúin. Ég hlakka mikið til að takast á við fyrsta bekk enda þetta tímabil leikskóla liðið og þar lítið eftir að gera........ Hvað krílinu finnst um þetta allt saman er svo kannski allt önnur saga.

fimmtudagur, júlí 10, 2003

Ég er svo mikil ofurkona þessa dagana. Ég drekk kaffi, ég reyki sígarettur, ég blaðra og slúðra og ef vel stendur á megna ég jafnvel að setja í eina þvottavél og sjóða eina stirtlu handa krílinu í kvöldmat. Ég er sjáiði til í sumarfríi.

Í kvöld ætla ég, ef ég fæ barnapíu, í smá leikhús.

Það tók sig upp í mér gamalt pönk um daginn. Það hefur nú reyndar alltaf verið fremur grunnt á pönkinu í mér. Í tilefni af þessu pönki sótti ég mér haka og skóflu og gróf inni í geymslu eftir æskuástinni minni Charlie. Nú skarta ég Charlie í sól og roki og líður mæta vel. Ég hugsa að ég bjóði honum með okkur Möggu í „liquid lunch“ á föstudaginn, ég er viss um að hún hefur saknað hans.

Sá mann pissa á Klambratúni í dag, mér fannst það ekki sjarmerandi.

miðvikudagur, júlí 09, 2003

Hér kommentar ekki nokkur sála svo ég verð að reyna að halda uppi samræðum við sjálfa mig, það er þó alltaf góður félagsskapur. Til stendur að „gæsa“ fangor um helgina, ágætis stemning og góð ástæða til að fá sér í glas eða tvö. Engin smáatriði verða gefin upp þar sem verið gæti að fangor villtist hér inn og læsi sér til. Henni kemur vitaskuld ekkert við hvað til stendur, allar uppástungur um fíflalæti eru hins vegar vel þegnar í tölvupósti.

þriðjudagur, júlí 08, 2003

Og á meðan ég man, glæsilegur tvöfaldur sigur hjá Williams mönnum um helgina. Sko bara mína menn, þetta geta þeir tvisvar í röð.
Bis bald!

Ég var að hugsa um að fara að hafa skoðun á einhverju hérna inni. Það er svo langt síðan ég hef rifið mig niður í rassgat yfir stjórnmálum og óréttlæti heimsins. Einhverra hluta vegna þá kemur bara ekki margt við kauninn á mér í dag. Kannski vegna þess að ekkert umdeilt eða hneykslanlegt er í fréttum en kannski vegna þess að á meðan að sumarið skín á kollinn á mér verð ég værukær og skeytingarlaus um það sem er að gerast í kringum mig. Ekki svo að skilja að sólin hafi verið að glenna sig allt of mikið síðan ég byrjaði í sumarfríi.

Mér fannst skjóta dálítið skökku við þegar utanríkisráðuneytið benti ákæruvaldinu náðarsamlegast á það hversu viðkvæm samskipti við varnarliðið eru akkúrat núna, í tengslum við hnífstunguna í miðbænum. Hvað á ákæruvaldið að gera við svona upplýsingar. „Samskiptin eru viðkvæm svo við verðum að afhenda Bandaríkamönnum sakamanninn til að hafa alla góða“. Ég er ekki alveg viss með þessa „taktík“. Svo eru skilaboðin eitthvað svo yfirlætisfull en samt loðin og óskýr.

Hér hringdi maður áðan og bað um að fá krílið lánað heim af leikskólanum, ég veitti leyfið og verð því nú að drífa mig að sækja hana.

laugardagur, júlí 05, 2003

Me go grrrl tíhí. Kýrnar komnar hátt á loft og sólin út á tún. Mál að elda svínasteik handa Valdísi og Vigfúsi sem ætla að koma í mat í kvöld. Mér finnst frábært þegar fólk segir það sem því finnst og í síðustu viku sagði Valdís við mig að henni þætti nú að ég ætti að bjóða henni og Vigfúsi í fylltar svínakótilettur á laugardagin og ég varð vitaskuld góðfúslega við því. Svo geta meðferðarfulltrúinn og presturinn auðvitað tekið mig á bekkinn eftir matinn.

fimmtudagur, júlí 03, 2003

Sólin hefur verið eitthvað svo feimin síðan ég komst í sumarfrí. Ef ég væri „nojuð“ héldi ég að þetta væri samsæri en ég á von á því að hún jafni sig á þessu og láti sjá sig fyrr eða síðar. Ég þarf nefninlega að láta sólina skína á mig nokkrum sinnum í nýja bikiníinu (vá hvað þetta er asnalegt orð á prennti) áður en ég fer til útlanda. Já já, hlæiði bara, Rannveig í bikiníi (já þetta er ennþá asnalegt orð) það hlýtur að vera drepfyndið. Ég ákvað hinsvegar að þar sem ég er að fara til útlanda ætla ég að taka almenningsálitið í nefið og vera BARA í bikiníi af þvi að mig langar það. Það gekk hins vegar ekki andskotalaust að finna bikiní sem passaði. Það er ekki mikil eftirspurn eftir bikiníum í 36 E. Ég var farin að halda að ég þyrfti að kaupa það á tíuþúsund í útilífi (á maður ekki að beygja þetta) eða láta sérsauma það fyrir tólfþúsund. Eftir mikla leit og vangaveldur rambaði ég svo á himinblátt og gullfallegt bikiní á útsöu í Smáralindinni. Ég ætla ekki að fara að halda því fram að ég verði ekki í skugganum af Kristínu (nema ef vera skyldi í bókstaflegri merkingu, þá hef ég vinninginn) en ef ég æfi mig smá í að ganga í þessu held ég að ég lifi það alveg af. Svo kem ég líka heim í ágúst ótrúlega sólbrún og sæt...

þriðjudagur, júlí 01, 2003

Var að fatta eitt ótrúlega sniðugt. Eftir að blogger var „uppgreitaður“ blogga ég ekki lengur á enskum dögum heldur íslenskum.... auk þess sem klukkan er rétt. Sniðugt.

Farin í bæinn að kaupa popp og tyggjó....

Nú hefur ekki mikið heyrst í minni lengi. Ástæðan er kannski helst sú að síðustu tvær vikur hefi ég verið ein að vinna á bókasafninu mínu og haft þar mína hentisemi (auk þess að sinna vinnunni minni vitaskuld samviskusamlega). Yfirmaðurinn minn var í húsmæðraorlofi á Ítalíu og hafði það nokkuð gott. Á miðvikudaginn snéri hún svo heim og í tilefni af því faldi ég mig inni í títt nefndri geymslu þar sem ég tók til í gríð og erg. Ekki svo að skilja að ég hafi neitt sérstakt upp á yfirmann minn að klaga en ég kann einverunni bara svo vel. Gamalkunnar kenndir gerðu ekki vart við sig að þessu sinni í kompunni. Kannski vegna þess að ég hafði svo mikið að gera í slagsmálum við bækur og skít og baráttunni við að aðskilja þetta tvennt en kannski vegna almenns gredduleysis undanfarnar vikur og mánuði.....

UNG KONA Í BLÓMA LÍFSINS, MEÐ SUMARLEGT HÁR OG SÆT Í BLEIKU, ÞJÁIST AF GREDDULEYSI.

Ég hef fulla trú að því að það breytist með hækkandi sól og sumarfríi.

Ég vil hér með tilkynna vinum mínum öllum svo og landsmönnum til sjávar og sveita (ef einhver skyldi vera að lesa) að ég er formlega komin í sumarfrí. Fyrsta sumarfíið síðan ég var í fæðingarorlofi 1997. Krílið fagnaði þessum tímamótum í lífi okkar mæðgna með því að sofa til hálf ellefu í morgun. Í fyrsta skipti síðan......ehmm í fyrsta skipti. Ef einhverjum skildi detta það í hug að öfunda mig yfir þessu þá má viðkomandi það svo sem alveg en ég held samt að ég eigi þetta alveg skilið, minni á að á síðustu haustönn kláraði ég (með góðra vina hjálp) 15 einingar í Háskólanum auk þess að vera í rúmlega 100% vinnu. Á vorönninni ætlaði ég nú að taka því heldur betur rólega og vera „bara“ í vinnunni minni en ofurkvendið og grjótmulningsvélin ég varð auðvitað að skrá sig í tvo áfanga í íslensku, bara svona til að halda sér við efnið. Ég hef auðvitað ýmislegt á prjónunum annað en að horfa í gaupnir mér í þessu sumarfríi svo þið getið bara fylgst spennt með. Kannski verð ég uppgötvuð fljótlega.