föstudagur, júlí 11, 2003

Leikhúsferð í gær var vægast sagt mjög skemmtileg. Þetta var eins og að vera hleypt inn í lítið leyndarmál, mjög persónuleg sýning og mjög átakanleg. Það var ekki fyrr en hálftími var búin af sýningunni sem ég áttaði mig á því að ég var þátttakandi í sýningunni. Vissulega er þetta labb-sýning og aðeins u.þ.b. 20 áhorfendur á hverri sýningu og aðalleikonan talar beint til áhorfenda allan tíman en þegar verkið var um það bil hálfnað áttaði ég mig á því að ég var beinn þáttakandi í því sem var að gerast. Framvinda verksins byggðist að einhverju leyti á því hvernig áhorfendur brugðust við. Ég fékk hnút í magan því fyrir augum mér hafði farið fram nauðgunarsena þar sem fórnarlambið argaði á hjálp, hún argaði ekki út í loftið, stefnulaust til þess eins að bregðast við því viðbjóðslega ofbeldi sem hún var að verða fyrir heldur biðlaði hún til okkar, áhorfenda, vina sinna, að bjarga sér og skildi ekki af hverju við aðhöfðumst ekkert heldur létum hann nauðga henni. Til að bæta fyrir aðgerðarleysi mitt dansaði ég við hana á barnum en leið samt ekkert betur. Brecht sagði að leikhús ætti að trufla, leikhús á ekki að vera þægilegt, það á ekki að vera taumlaus gleði. Leikfélag Hafnarfjarðar gerði ekkert til að láta gestum sínum líða sem best heldur togaði, potaði og ýtti í þá stanslaust svo þeir voru með lífið í lúkunum allan tímann og vissu engan veginn hvað gerðist næst. Gott leikhús.

Í dag er síðasti dagur í heimi á leikskólanum. Þegar krílið verður sótt á eftir fer hún aldrei aftur á leikskóla. Það er dálítið skrýtin tilfinning en ég er samt alveg tilbúin. Ég hlakka mikið til að takast á við fyrsta bekk enda þetta tímabil leikskóla liðið og þar lítið eftir að gera........ Hvað krílinu finnst um þetta allt saman er svo kannski allt önnur saga.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home