þriðjudagur, júlí 01, 2003

Nú hefur ekki mikið heyrst í minni lengi. Ástæðan er kannski helst sú að síðustu tvær vikur hefi ég verið ein að vinna á bókasafninu mínu og haft þar mína hentisemi (auk þess að sinna vinnunni minni vitaskuld samviskusamlega). Yfirmaðurinn minn var í húsmæðraorlofi á Ítalíu og hafði það nokkuð gott. Á miðvikudaginn snéri hún svo heim og í tilefni af því faldi ég mig inni í títt nefndri geymslu þar sem ég tók til í gríð og erg. Ekki svo að skilja að ég hafi neitt sérstakt upp á yfirmann minn að klaga en ég kann einverunni bara svo vel. Gamalkunnar kenndir gerðu ekki vart við sig að þessu sinni í kompunni. Kannski vegna þess að ég hafði svo mikið að gera í slagsmálum við bækur og skít og baráttunni við að aðskilja þetta tvennt en kannski vegna almenns gredduleysis undanfarnar vikur og mánuði.....

UNG KONA Í BLÓMA LÍFSINS, MEÐ SUMARLEGT HÁR OG SÆT Í BLEIKU, ÞJÁIST AF GREDDULEYSI.

Ég hef fulla trú að því að það breytist með hækkandi sól og sumarfríi.

Ég vil hér með tilkynna vinum mínum öllum svo og landsmönnum til sjávar og sveita (ef einhver skyldi vera að lesa) að ég er formlega komin í sumarfrí. Fyrsta sumarfíið síðan ég var í fæðingarorlofi 1997. Krílið fagnaði þessum tímamótum í lífi okkar mæðgna með því að sofa til hálf ellefu í morgun. Í fyrsta skipti síðan......ehmm í fyrsta skipti. Ef einhverjum skildi detta það í hug að öfunda mig yfir þessu þá má viðkomandi það svo sem alveg en ég held samt að ég eigi þetta alveg skilið, minni á að á síðustu haustönn kláraði ég (með góðra vina hjálp) 15 einingar í Háskólanum auk þess að vera í rúmlega 100% vinnu. Á vorönninni ætlaði ég nú að taka því heldur betur rólega og vera „bara“ í vinnunni minni en ofurkvendið og grjótmulningsvélin ég varð auðvitað að skrá sig í tvo áfanga í íslensku, bara svona til að halda sér við efnið. Ég hef auðvitað ýmislegt á prjónunum annað en að horfa í gaupnir mér í þessu sumarfríi svo þið getið bara fylgst spennt með. Kannski verð ég uppgötvuð fljótlega.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home