laugardagur, júlí 29, 2006

Tölvan á heimilinu ákvað að nú væri heimsins besti tími til að gefa upp öndina. Þegar ég er að fara í fæðingarorlof og allir umframpeningar heimilisins fara í að kaupa það sem vantar fyrir komu nýja einstaklingsins. Við fórum nú samt í BT og fengum ágætis díl á nýrri tölvu. Ég get ekki sagt að ég sé hress með þetta en nýja tölvan er svo sem voða fín.

Krílið er búið að vera lengi hjá pabba sínum og ég verð nú að segja að ég er aðeins farin að sakna hennar. Hún kemur heim í næstu viku og þá verður fjölskyldan fullskipuð að nýju.

sunnudagur, júlí 23, 2006

Helgin...

... hefur verið helguð leti og engu öðru. Sætastur er kominn í sumarfrí og því hefur verið ákveðið að laugardagur og sunnudagur verði notaðir í að gera nákvæmlega ekki neitt. Eftir helgina á svo að klára tiltektina og innkaupin sem þarf að gera áður en minna/litla/nýja kríli kemur í heiminn. Sætastur notaði reyndar tækifærið í gær og fékk sér tvo bjóra enda styttist í að hann verði settur í straff í þeim geiranum.

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Rock Star

Horfði að sjálfsögðu á Rock Star í nótt og var ánægð með okkar mann. Hef verið að skoða dálítið á netinu og svo virðist sem heimurinn sé á sama máli. Flestir setja hann í topp 3 - 4 og mörgum finnst hann jafnvel hafa verið bestur.

Flestum þykja reyndar Lukas og Dilana bera af í hópnum. Verð að viðurkenna að ég kaupi það ekki alveg. Mér fannst Dilana æðisleg síðast í Ring of Fire en ég þoldi hana hvorki í fyrsta þættinum né heldur í gær. Lukas hefur þeannan it-factor. Uppfullur af sjálfum sér og sjálfstrausti, fotta sviðsframkomu og rokkaralúkkið, kannski dálítið hallærislegt og gamaldags rokkaralúkk sem hefur verið gert tvöhundruð sinnum áður en rokkaralúkk samt sem áður. Röddin í honum þykir mér bara ekkert sérstök.

Ég hef ekki enn fundið mér uppáhald í þetta skiptið. Jordis heillaði mig upp úr skónum síða st en það hefur engum tekist að gera ennþá. Þangað til er Magni og verður mitt uppáhald...

Mér fannst nokkuð skondið að Patrice Pyke og litla öskurkvikindið (Jill) börðust hatrammlega um gamla Bítlið Helter Skelter. Og Patrice sagði að sér væri það hjartans mál að fá þetta lag. Maður hefði þá haldið að hún hefði reynt að hafa fyrir því að læra textann er það ekki? Ég viðurkenni að ég var dálítið syfjuð og hugsaði með mér þegar hún byrjaði „bíddu við, hef ég alltaf sungið þetta lag vitlaust?“

Hún söng:
when I get to the bottom I go back to the top of the slide
when I get to the bottom I go back and I go for a ride
when I get to the bottom and I see you again

Ég fór og athugaði og ég hef alltaf sungið þennan texta rétt:
when I get to the bottom I go back to the top of the slide
where I stop and I turn and I go for a ride
till I get to the bottom and I see you again

Um að gera að berjast fyrir sínu ekki satt.

Sætastur er alltaf sætastur.

Sem útspil við raunum mínum í gær yfir öllu þessu tónleikahaldi fór sætastur auðvitað og keypti miða á Morrissey í stúku. Ég er þá alveg sátt við að missa af hinu en ef ég hefði misst af Morrissey hefði það verið svolítið eins og að missa af jólunum.

mánudagur, júlí 17, 2006

Ágúst framundan...

... og Morrissey, Throwing Muses og Patty Smith á leið til landsins og ég komin á gothelluna. Vill ekki einhver taka að sér að flytja inn Hole og Tom Waits líka og krossfesta mig svo bara einhvers staðar á Valhúsahæðinni eins og í sálminum góða. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að klóra mig út úr þessu. Tónleikamiðar eru rándýrir númer eitt og ég er, þess utan, ekki alveg í besta ástandi til að sitja eða standa undir þessu öllu saman. Svo kemur Nick Cave auðvitað í september en það er alveg af og frá þar sem ég verð væntanlega í öðru þegar að því kemur.

Við erum orðnir stoltir eigendur að splunkunýjum Brio barnavagni. Þvílík græja. Ég held hann fari hreinlega sjálfur út að ganga með barnið hann er svo flottur. Við vorum búin að vera að fylgjast með notuðum svona vögnum sem kosta yfirleitt 45 - 50 þúsund þriggja fjögurra ára gamlir. Svo þegar við sáum að þeir voru komnir á útsölu og kostuðu 60 þús nýjir ákváðum við að slá bara til. Auk þessa fórum við hjónin hamförum um íbúðina um helgina, hentum úr skápum og tókum til. Sætastur setti upp nokkrar hillur svo nú er mun rýmra um okkur. Vitaskuld tók sig upp gömul einhverfa í honum þegar hann var búinn að festa upp hillurnar og hann heldur því fram að þær séu hrikalega skakkar á veggnum en ég sé það nú varla. Krílið stóð meira að segja sína plikt í tiltektinni og tók til í ruslakompunni sinni með dyggri aðstoð stjúpa síns sem hefur mun meira úthald og þolinmæði í svoleiðislagað en undirrituð.

Framhald af þessum pistli má svo finna á barnaland. hehehehehehehehehehehehehehe

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Margt býr í pípunum

Nú erum við búin að skrópa á tveimur ættarmótum og í einu brúðkaupi svo við erum að hugsa um að eyða þessari helgi í að skrópa á öðru ættarmóti og golfmóti. Maður fer að sjá ákveðið mynstur.

Um helgina stendur annars til að leggjast í hreiðurgerð. Svefnherbergi hjónanna þarfnast dálítillar endurskoðunnar ef barnarúm á að komast þar inn. Að ég tali nú ekki um kommóðu/skiptiborð. Ósköp þykir mér nú íbúðin mín yndisleg en ég gæti alveg notað örfáa fermetra í viðbót.

Margt er í pípunum þessa dagana og mikið verið að skipulega, spá og spekúlera. Ægilega spennandi allt saman en ekkert sem verður upplýst alveg strax.

föstudagur, júlí 07, 2006

Af nostalgíu

Vil benda áhugasömum á að boðið verður upp á kvikmyndina „The Last Remake of Beau Geste“ í Sjónvarpinu í kvöld. Þetta var mín eftirlætis kvikmynd á sokkabandsárunum og ekki úr vegi að endurnýja kynnin. Verst ef hún eldist ekki vel.
Hún byrjar klukkan átta og er akkúrat búin þegar Rockstar brestur á.

Ósköp var ég nú búin að standa mig vel í nokkra daga. Bloggaði oft og stundum jafnvel langt. Svo datt botninn úr þessu öllu saman og ég hef ekkert bloggað. Hef nú samt ekkert í hyggju að biðjast sérstaklega afsökunar á því.

Upp er runnin helgin þar sem við hjónin eigum að vera á þremur stöðum í einu. Við erum að hugsa um að móðga alla jafn mikið og vera bara heima. Við eigum að vera á ættaróti undir Eyjafjöllum og öðru í Reykolti í Djúpi og svo eigum við auðvitað að vera í brúðkaupi á Ísafirði. Við vorum búin að ákveða að fara í brúðkaupið en í ljósi vinsamlegra tilmæla ljósmóður um að taka því rólega og slappa af held ég að það sé því miður of langt og strangt ferðalag. Mér finnst það hundleiðinlegt því það er ekkert gaman að missa af brúðkaupi.

Nú ætla ég hins vegar að setja í eina vél og henda mér svo út í sólina með sögubók og sódavatn.