miðvikudagur, júní 29, 2005

Kyngreining

Ég er búin að gera heiðarlega tilraun til að kyngreina litlu hnullungana. Í fyrstu var ég viss um að um væri að ræða eina stelpu og þrjá stráka. Þegar ég skoðaði næst horfði þetta allt öðruvísi við mér og mér leist svo á að strákur væri bara einn en þrjár stelpur. Síðustu fréttir eru þær að nú virðast vera komin eistu á þann sem ég var sannfærð um að væri stelpa svo ég segi starfi mínu sem kyngreinir hér með lausu. Blíðu líst heldur ekkert á þennan óeðlilega áhuga á afturhlutanum á börnunum hennar.

Nú eru þeir orðnir rúmlega viku gamlir og hafa þegar margfaldað þyngd sína og stækkað einhver ósköp. Einn (annar skjöldótti) er búinn að opna bæði augun. Það fer honum ákaflega vel en ég verð að játa að í fyrstu minnti hann mig nú dálítið á geimverurnar sem eiga að vera á svæði 51. Hinir fylgja svo í kjölfarið, eru ýmist búinir að opna annað augað eða í það minnsta komin smá rifa.

Ég set fljótlega inn fleiri myndir af þessum snúllum og svo auðvitað fleiri myndir úr brúðkaupinu um leið og þær berast. Rauða hættan hafði einhverjar áhyggjur af því að ég væri ósátt við myndirnar sem hún tók en svo er auðvitað ekki. Það voru bara teknar svo fáar myndir á okkar vél og þegar myndefnið er svona erfitt getur þurft margar tilraunir til að ná frambærilegri mynd af brúðinni. Hégómi í mér og ekkert annað.

mánudagur, júní 27, 2005

Hamingjuóskir

Elsku Harpa og Arnar, til hamingju með litlu prinsessuna. Flottari brúðargjöf er ekki hægt að hugsa sér.

Dýrð

Þá er stóri dagurinn búinn. Ég ætla ekki að gera tilraun til að lýsa síðustu þremur dögum, læt mér nægja að segja að orð nái aldrei yfir þetta allt saman. Ég set að gamni inn nokkrar myndir, þær eru ekkert mjög góðar en ég á von á fleiri myndum svo það er aldrei að vita nema ég seti inn fleiri þegar þar að kemur.

Takk allir fyrir allt sem þið gerðuð fyrir okkur. Þetta var ótrúlegt.


Hj?nin segja j? vi? prestinn, h?tt og snjallt (? ?a? minnsta Kjartan). Posted by Hello


Litlu matarg?tin f? s?r sm? k?kusnei?. Posted by Hello


Inni ? d?samlega fallega b?lnum sem s?st n? ekki ? myndinni Posted by Hello


fallega fj?lskyldan ? veislunni Posted by Hello

sunnudagur, júní 19, 2005

Smá tungumálaörðugleikar

Hello, forritið sem setur inn myndirnar, er eitthvað að stríða mér í dag og vill ekki birta íslenska stafi. Ég nenni ekki að vesenast í að laga þetta í kvöld, vona bara að þið njótið myndanna af krúttunum mínum öllum. Ekki síst þessu elsta og stærsta sem bíður spennt eftir að koma heim til að skoða hersinguna.


Kolfinna og Bl??a ? 17. j?n?. Daginn ??ur en hnullungarnir f?ddust. Posted by Hello


Stolt mamma me? ungana s?na fj?ra. Posted by Hello


Litlu hnullungarnir ?egar mamma br? s?r fr? til a? sn Posted by Hello

laugardagur, júní 18, 2005

Fjölgun.

Þá eru þeir komnir. Í það minnsta fjórir (ég taldi fimm í morgun ég virðist hafa týnt einum svörtum eða talið hann tvisvar) gullfallegir loðhnullungar. Ég sit bara heima og horfi á þetta undur. Þori ekki að fara út en verð að passa mig að trufla mömmuna ekki of mikið. Hún stendur sig eins og hetja en virðist vera úrvinda eftir átökin.

Myndir fljótlega...

sunnudagur, júní 12, 2005

the skeithjús...

... sem útleggst á ástkæra ylhýra skötuhjúin. Síðustu dagar hafa verið „kreisí“. Ég hef verið á fullu að klára allt sem þarf að ganga frá áður en skólinn er kvaddur og Kjartan hefur haft í nógu að snúast sem starfandi verslunarstjóri á meðan innrás Norðmanna stóð yfir. Þegar verst lét var ég jafnvel farin að vinna í Dressmann, alveg óvar, langt fram á nótt. Heimili vort lítur nú út eins og heimili Skráms á tólfta degi jóla þegar ellefu álfar stökkvandi höfðu nýlega gert sig heimakomna í litlu blokkaríbúðinni í kjölfarið á öllum hinum kvikindunum og illu öndunum, mamma hans var stungin af á hæli og hann ræfillinn í fuglaskít og drullu upp að haus. Þannig líður mér núna.

Í þessum önnum reynum við svo að koma að brúðkaupsundirbúningi og öðrum skemmtilegheitum. Þetta er nú svo sem allt að smella en sennilega hefði nú mátt vera búið að ljúka af mörgu fyrr. Ok, rétti upp hönd þeir sem eru ekki alltaf á síðasta snúning, þeir sem skila ritgerðum tveimur dögum fyrir skiladag, eru búnir að þrífa allt á Þorláksmessu, muna eftir að fara í búðina áður en Bónus lokar og skrópuðu aldei í leikfimi.

Þetta með leikfimina er auðvitað algjört aukaatriði en ég hef bara aldrei þolað fólk sem skrópar aldrei í leikfimi.

Áður en ég kveð þá átti sætastur auðvitað afmæli á föstudaginn og stóð sig bara nokkuð vel í því. Vann allan daginn og lék sjarmaði de norske trollmenesker upp úr skóm og Dressmannsokkum um kvöldið. Ekki mikill tími notaður í að knúsa konuna sína þann daginn. Í gær kýldum við reyndar vambirnar á eðalveitingastaðnum Sjávarborðinu í góðum félagsskap. Þar var t.a.m. hitt afmælisbarnið, litla systir mín sem á afmæli í dag.

Rúmið mitt heillar og tek ég nú á mig náðir á þessum drottins degi. Good night Westley, sleep well, I'll most likely kill you in the morning.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Meðan laufin sofa liggja spaðarnir andvaka.

Komin heim ósködduð úr graðbóluferðalaginu. Skemmti mér satt best að segja alveg stór vel. Unglingurinn var til fyrirmyndar sem og veðrið sem fór á kostum og átti snilldar útspil með logni og sól á fimmtudeginum þegar við fórum í gönguferð inn í Stakkholtsgjá inni í Þórsmörk. Ég er mikið að hugsa um að verða svona útivistarfrík mjög fljótlega, mér þykir nefninlega alveg rosalega gaman að svona útiveru og göngum. Þegar við vorum búin að ganga inn í gjánna og til baka og búin að borða nesti í góða veðrinu ákváðum við að nota tækifærið og skreppa aðeins inn í bása og skoða okkur um. Ég hef nokkrum sinnum komið í Mörkina en aldrei í Bása, þar er mjög huggulegt og fjöllunum hefur tekist að raða sér mjög smekklega þarna í kring. Við stoppuðum mjög stutt en örfáir notuðu þó tækifærið og fóru á klósettið. Landvörðurinn fékk þá snilldar hugmynd að rukka okkur um 200 krónur á kjaft fyrir að nota aðstöðuna. Við báðum manninn bara vel að lifa og sögðumst ekki hafa gert ráð fyrir þessu og værum þess vegna ekki með neina slík a peninga á okkur auk þess sem við lofuðum að halda bara í okkur næst þegar við kæmum í bása. Ég mæli eindregið með því að fólk kíki í Bása en hvergi hef ég verið rukkuð jafn mikið fyrir klósettpappírinn.

Ég gleymdi alveg að minnast á gleðina sem greip mig þegar ég sá að stórvinur minn og einn af mínum uppáhalds mönnum Gunni í Gettóinu hafði kommentað hér að neðan. Hrikalega gaman að heyra í þér kallinn og gaman að þú skulir líta hér við.

miðvikudagur, júní 01, 2005

Ferðafílingur

Þegar skemmtilegt fólk sem lifir spennandi lífi hugar að ferðalögum út fyrir landsteinana, Skellir sér til Ameríku, Ástralíu eða Bora Bora, skrepp ég með 60 fimmtán ára unglinga með graðbólur í tveggja daga skólaferðalag austur undir Eyjafjöll.

Ógislega er ég minniháttar!

Bless á meðan.