mánudagur, september 30, 2002

Jæja mikið var þetta nú annars ágæt helgi í föðurhúsum. Pabbi eldaði góðan mat og við mamma kláruðum allt koníak sem til var í húsinu. Þetta koníaksþamb gerði það náttúrulega að verkum að við sáum okkur tilneyddar að tvista dálítið á stofugólfinu. Það voru dálítið skiptar skoðanir á því hver var að kenna hverjum hvað og hvor okkar væri nú flinkari dansari og það hvarflar ekki að mér að reyna að skera úr um það hér. Hitt er víst að við erum báðar betri en pabbi og það er alltaf viss sigur af því að hann er íþróttafíflið í fjölskyldunni ;-)

Á sunnudaginn hópaðist svo litli fomúluklúbburinn minn saman á Eggertsgötunni til að fylgjast með Indie. Úff hvað ég er orðin þreytt á þessum ljóta rauða fíat þarna. Jafnvel hörðustu Fíat aðdáendur eins og Elfa (sem sér yfirleitt bara rautt, greyið litla) er orðin hund leið á þessu. Ef næsta tímabil verður jafn leiðinlegt og þetta endar með því að formúluklúbburinn minn verður eins og hver annar saumaklúbbur þar sem bakkelsið skiptir mestu máli. Mínir menn stóðu sig náttúrulega með eindæmum illa og tókst að keyra saman. HEY STRÁKAR, ÞIÐ ERUÐ SAMAN Í LIÐI!!!! Hefði ekki verið nær að eyða orkunni í að keyra utan í stórabróður, kjána strákur.

Kolfinna fór í leikhús á meðan á formúlunni stóð og skemmti sér held ég mun betur en ég. Hún grét reyndar dálítið þegar hún hélt að ljóti andarunginn væri dáinn, hún er svo hrifnæm þessi elska......ekki hefur hún það nú frá mömmu sinni. Hún var svo uppveðruð af þessu öllu saman þegar hún kom heim að henni lá ekkert á að fara í háttin fyrr en hún var búin að rekja fyrir mig alla söguna. Hvað svo sem gagnrýnendur hafa sagt um þessa sýningu þá er greinilegt að hún hittir í mark hjá þeim sem hún var ætluð, börnunum.

Jæja, tvennt að lokum; Murtan er risin úr rekkju.....ógislega gaman að heyra í þér aftur og Elfa þú getur hætt að vera í fýlu :-Þ Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

fimmtudagur, september 26, 2002

Og Svava þú ert ekkert mjög kúl. Murtan er ekki bara sofnuð hún er annað hvort í dvala eða dái. Hvernig væri að lífga hana við með reglulegum fréttum af Viggó danska og móður hans aldraðri ;-)

Já og by the way, Kristín þú er kúl....

Það er dulítið mannskemmandi að vera háskólanemi. Það er vitaskuld þroskandi, gefandi og lærdómsríkt en það er líka mannskemmandi. Það er ákaflega lýjandi að vera komin á þrítugsaldur (vel á þrítugsaldur) og vera ennþá alltaf með allt niður sig. Fjármálin í klúðri og náminu aldrei sinnt eins og maður ætlaði. Þetta akademíska frelsi er stórhættulegt. Við verðum öll landeyður og vesalingar. Þessu til staðfestingar ætla ég að stinga af austur fyrir fjall og stimpla mig inn á hótel mamma um helgina. Fyrst þarf ég að fara í bankan og knúsa Völu í bankanum, annars yrði ég að hætta námi áður en ég klára gráðuna, Vala er góð kona. Og síðan ætla ég að lifa á foreldrum mínum um helgina, pabbi eldar áreiðanlega eitthvað gott. Er þetta ekki vesælt fyrir konu sem er, verum alveg hreinskilin, ekki á þrítugsaldri heldur alveg að verða þrítug. Úff og ullabjakk, hvaða væl er þetta eginlega... Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

þriðjudagur, september 24, 2002

Kynslóðin mín, X kynslóðin. Hippatrippi og bítlafóstur sem áttu að erfa landið fyrir nokkrum árum síðan. Ég held að hugsanlega hafi þeir sem öllu ráða ákveðið að hoppa yfir eina kynslóð. Nema við höfum þegar erft landið og ég hafi ekki verið látin vita af því. Ég get ekki láð þeim sem skirrast við að láta stefnulausri, skoðanalausri, hugsjónalausri og hjartalausri kynslóð landið í hendur. Kynslóð sem er svo ómerkileg að í stað þess að kenna hana við hugmyndir sínar og hugsjónir er hún bara kennd við X. Jafnvel kynslóðin sem nú er að vaxa úr grasi og á væntanlega eftir að „erfa landið“ ef hún hefur heppnina með sér, er kennd við lyklaborð og upplýsingatækni. Við yrðum í mesta lagi kennd við vídeó og grifflur... Það er skylda æskunnar hverju sinni að rísa upp á afturlappirnar og mótmæla einhverju. Ungt fólk á að berja sér á brjóst og virkja ungæði sitt í baráttu fyrir bættum heimi. Oftar en ekki veit æskan auðvitað ekkert í hausinn á sér en það er ekki það sem mestu máli skiptir heldur bylting byltingarinnar vegna. Um miðjan níunda áratuginn olli tískan kynusla. Allir voru asexual og eldra fólkið hneykslaðist á kvenlegum körlum og karllegum konum. Þetta hefði mátt virkja á sínum tíma og sýna baráttumálum samkynhneigðra samstöðu. En nei við vorum bara svona af því að okkur var sagt að við ættum að vera svona ekki af því að við værum að taka afstöðu eða ganga í lið með kynvillingunum (úbbs, nú verða einhverjir brjálaðir). Ég veit ekki hvor komandi kynslóðir eiga sér einhver baráttumál. Kannski verða þær jafnvel enn skeytingalausari en mín kynslóð, ég vona ekki. Kaldastríðsbörnin hefðu átt að breyta heiminum sem þau sáu á sjónvarpsskjánum en ákváðu að keppikeflið væri frekar að meika það á sjónvarpsskjánum. Nóg sagt... Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

sunnudagur, september 22, 2002

Maður skildi alltaf fara varlega með efnablöndur. Dálítið „freak, henna accident“ og hárið á mér gengur ekki alveg heilt til skógar. Ég lít eiginlega út eins og fjöldamorðingi. Ekki að geðheilsa verði ráðin af háralit fólks en einhverra hluta vegna finnst mér þessi undarlegi litur minna á fjöldamorðingja. Héðan í frá verður eingöngu leitað til fagfólks þegar hárið á mér á í hlut. Maður skildi nefninlega heldur ekki spara aurin til þess eins að eyða krónunni (enda aurarnir löngu horfnir úr íslenska myntkerfinu).
Helgin er á enda og lítið markvert hefur dregið á daga mína. Það er vitaskuld til skammar að eyða pabbahelgum í það að hanga yfir sjónvarpinu og harðgiftum vinum sínum. En því er nú bara þannig farið að Jesú er besti vinur barnanna og ég er besti vinur hjónanna. Þetta er merkilegt ég raða í kringum mig fólki sem kemur allt í tvenndum (öfugt við jólasveinana, sem komu (samkv. Jóhannesi úr Kötlum) „aldrei tveir og tveir“). Sumum af ólofuðum vinum mínum þykir þetta lýsa skynsemisskorti á háu stigi og draga jafnvel í efa greind mína og geðheilsu. Ég segi hins vegar við þetta fólk. Af hverju að skipa fólki á bása eftir hjúskaparstöðu. Er það ekki jafn heimskulegt og allir aðrir dilkadrættir. Ég þarf ekki, sem einhleypingur (almáttugur hvað þetta er ljótt orð) að líta svo á að þeir sem eru í hinu liðinu séu svarnir óvinir mínir.
Einu sinni var kona sem þekkir mig, spurð að því hvort ég væri eitthvað skrítin.... Nei, af hverju? Jú, hún hangir svo mikið með mömmu sinni (grey skinnið). Ég hangi bara með þeim sem mér sýnist ef mér finnst þeir skemmtilegir. Það vill svo til að móðir mín er dásamleg kona og með fáum þykir mér skemmtilegra að hanga. Ég hangi bara yfir vídeó, jatsí, gettu pétur eða trivial með gifta fólkinu ef mér finnst það skemmtilegt. Og hana nú.
Og þá er komið að því...Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

föstudagur, september 20, 2002

Du,du liegst mir im Herzen
du,du liegst mir im Sinn.
Du, du machst mir viel Schmezen
weist nicht wie gut ich dir bin
la la la la........
Og svo framvegis. Þetta sönglaði ég í nettum valstakti í gær þegar ég var að kenna Kolfinnu að dansa. Ég held við hljótum að hafa verið dásamleg sjón, svífandi um íbúðina, hún á tánum á mér í hefðbundnum (ekki enskum) vals. Það er nú sennilega orðum aukið að halda því fram að það sé mikið hægt að svífa um þessa tæplega 40 fermetra sem við mæðgur búum í en vitaskuld lokuðum við bara augunum og sáum fyrir okkur prúðbúnar meyjar og sveina í danssölum þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. Þessi kennslustund reyndist afar nytsamleg því þegar upp var staðið hafði krakkinn ekki aðeins numið grunnsporin í valsi (einn, tveir,þrír; einn, tveir, þrír) heldur var hún líka farin að söngla með þessari dillandi skemmtilegu, þýsku stemmu. Fyrsta tungumálalexían, ekki amalegt þegar maður er fimm ára. Næst er ég að hugsa um að kenna henni að beygja latneskar sagnir. Amo, amas, amat, amamus, amatis, amant (var þetta ekki einhvern vegin svona ;-). Mikið finnst mér þýska alltaf töff!!! Og í þeim anda.... Gute Nacht Westley, Ich werde dich warscheinlich morgen umbringen.

miðvikudagur, september 18, 2002

Ég fór á tónleika í gær og það var bara fínt. Áslaug og félagar dældu út ómældu magni af froðu og sakkaríni á Vídalín og ég, fyrir mitt leyti, er mett. Bítl, Abba og Dagný er stórfínt og því afar vel komið til skila hjá þeim félögum. Slagverksleikur Jóns Geirs, Tuma og Nönnu var hressandi einkum og sér í lagi gongleikur Jóns Geirs í Total Eclipse of the Heart þar sem hann lamdi með gúmmískó því hann hafði týnt sleglinum. Alveig milljón Jón, takk takk. Mér er víst ekki til setunar boðið enda alltaf best að láta sig hverfa þegar majonesan er orðin gul. Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

þriðjudagur, september 17, 2002

Nú nú, bara tvisvar á dag. Þetta skyldi þó aldrei ætla að verða ávanabindandi. Ekki hefur nú framtakssemin verið að drepa mann í dag. Hæst ber ferð í laugina og stafasúpa í kvöldmatinn. Alveg er það merkilegt hversu fimm ára gamalli dóttur minni getur þótt kraftsúpa góð bara ef hún heitir stafasúpa en ekki kraftsúpa. Skyr bragðast líka betur ef það heitir ævintýraskyr og brauð ef það heitir stubbabrauð. Hver þýddi annars teletubbies sem stubbana. Fremur bragðlítil og „uninspired“ þýðing, þeir eru svo augljóslega imbamallar.
Máski ég bregði mér á tónleika í kvöld, veit það ekki vel. Maður getur ekki innbirgt nema ákveðið magn af froðu á degi hverjum. Well, good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

Annar dagur önnur tilraun. Heldurðu ekki bara að mín sé að prófa aftur. Það skildi þó aldrei vera að mín sé ekkert fatlaðri en misvitrir bloggarar um veröld alla. Ég hef gert ótal tilraunir um ævina við að halda dagbækur. Það hefur yfirleitt lafað í tvær vikur og síðan ekki söguna meir. Ég hef enga ástæðu til að ætla að þetta komi til með að verða nokkuð gáfulegra. svo...good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

mánudagur, september 16, 2002

það er harla ólíklegt að ég nái tökum á þessu tækniundri.