þriðjudagur, september 24, 2002

Kynslóðin mín, X kynslóðin. Hippatrippi og bítlafóstur sem áttu að erfa landið fyrir nokkrum árum síðan. Ég held að hugsanlega hafi þeir sem öllu ráða ákveðið að hoppa yfir eina kynslóð. Nema við höfum þegar erft landið og ég hafi ekki verið látin vita af því. Ég get ekki láð þeim sem skirrast við að láta stefnulausri, skoðanalausri, hugsjónalausri og hjartalausri kynslóð landið í hendur. Kynslóð sem er svo ómerkileg að í stað þess að kenna hana við hugmyndir sínar og hugsjónir er hún bara kennd við X. Jafnvel kynslóðin sem nú er að vaxa úr grasi og á væntanlega eftir að „erfa landið“ ef hún hefur heppnina með sér, er kennd við lyklaborð og upplýsingatækni. Við yrðum í mesta lagi kennd við vídeó og grifflur... Það er skylda æskunnar hverju sinni að rísa upp á afturlappirnar og mótmæla einhverju. Ungt fólk á að berja sér á brjóst og virkja ungæði sitt í baráttu fyrir bættum heimi. Oftar en ekki veit æskan auðvitað ekkert í hausinn á sér en það er ekki það sem mestu máli skiptir heldur bylting byltingarinnar vegna. Um miðjan níunda áratuginn olli tískan kynusla. Allir voru asexual og eldra fólkið hneykslaðist á kvenlegum körlum og karllegum konum. Þetta hefði mátt virkja á sínum tíma og sýna baráttumálum samkynhneigðra samstöðu. En nei við vorum bara svona af því að okkur var sagt að við ættum að vera svona ekki af því að við værum að taka afstöðu eða ganga í lið með kynvillingunum (úbbs, nú verða einhverjir brjálaðir). Ég veit ekki hvor komandi kynslóðir eiga sér einhver baráttumál. Kannski verða þær jafnvel enn skeytingalausari en mín kynslóð, ég vona ekki. Kaldastríðsbörnin hefðu átt að breyta heiminum sem þau sáu á sjónvarpsskjánum en ákváðu að keppikeflið væri frekar að meika það á sjónvarpsskjánum. Nóg sagt... Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home