mánudagur, nóvember 22, 2004

Loftið er lævi blandið í hvert skipti sem ég logga mig inn í vinnunni. Hvar skyldi ég enda núna. Vonandi kemst ég inn á blogg hjá einhverjum frægum og gert af mér einhvurn óskunda.

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Ég biðst forláts þessi linkur liggur inn á kolrangan saumaklúbb. Þessi ætti að virka betur...

Tölvan mín í vinnunni hefur tekið upp á þeim vægast sagt undarlega sið að hleypa mér inn á blogg hjá hinum og þessum þegar ég reyni að komast inn á mitt. Þetta er auðvitað stórhættulegt, kolólöglegt og bráðskemmtilegt. Hingað til hef ég staðist freistinguna og látið að eiga sig hrista mína þankaskanka á annarramannabloggum en nú stóðst ég ekki mátið. Því til staðfestingar má skoða þetta blogg hér. Ég kann engin skil á þessum dömum og vill þeim ekkert illt enda bið ég þær afsökunar á þessu uppátæki minu. Það er hins vegar ljóst að héðan í frá verður ekki aftur snúið og í hvert sinn sem ég villist inn á annarramannablogg mun ég láta ljós mitt skína. Vitaskuld verða fréttir af þessu framapoti mínu uppfærðar hér á síðunni jafn óðum.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Nei það hefur sum sé ekki virkað.......

Ég léleg.

Ég var að reyna að setja inn nýtt kommentakerfi. Ekki veit ég hvort það virkaði.

Þá komst ég loksins inn á bloggið mitt. Upp á síðkastið þegar ég hef reynt að logga mig inn hef ég komist inn á blogg hjá einhverjum Kolbeini á mínu nafni og mínu „passwordi “. Ég asnaðist aldrei til að setja neitt inn á bloggið hans og missti þannig af fyrirtaks brandara. Sú var tíðin að ég hefði ekki hugsað mig um heldur bullað inn á bloggið hans af öllum lífs og sálar kröftum og haft verulega gaman að..... öðruvísi mér áður brá

Ég ætla ekkert að tjá mig um verkföll og lagasetningar. Það er þyngra en tárum taki og vinir og vandamenn verða bara að geta sér til um tilfinningar mínar í dag.


Litli snúðurinn minn. Sem er nú bara orðin talsvert stór Posted by Hello

föstudagur, nóvember 05, 2004

Ég held ég verði að prófa nýtt útlit....

Nei ég er hundóánægð með þetta nýja útlit á síðunni. Commentin eru líka dottin út og það kann ég alls ekki að meta. Ég þarf greinilega að fara í gagngera endurskoðun á þessu öllu saman. Magga hilfe!!!!

Síðustu vikuna er ég búin að vera í vinnunni minni. Það hefur, verð ég að viðurkenna, verið ósköp gott. Ég saknaði vinnunnar minnar og það verður með trega sem ég fer heim á mánudag klár í áframhaldandi verkfall. Ég er ekki í nokkrum vafa um að miðlunartillagan verður skítfelld og við förum í verkfall á ný. Samstaða kennara er stórkostleg og allir sem ég hef heyrt í ætla að fella þennan óskapnað. Vonandi verður nú samt samið fljótlega.....

Ég er búin að vera í námi, á námslánum síðastliðin 5 ár. Ég hafði hugsað mér að nú, þegar ég væri komin út á vinnumarkaðin gæti ég farið að borga niður skuldir og jafnvel leggja fyrir. Ég ætla jú að gifta mig næsta sumar og það kostar peninga. Þess utan var ég vitaskuld að kaupa mér íbúð og henni fylgja afborganir, örlítið hærri en húsaleigan á stúdentagörðunum. Það þarf ekki reiknimeistara ríkissáttasemjara til að sjá að þetta reiknisdæmi gengur illa upp á meðan ég er í verkfalli. Samt ætla ég að fella tillöguna, ég held að það hljóti að segja eitthvað um innihald hennar.

Ég heyrði um daginn af manni sem sagðist ætla að taka börnin sín úr skóla ef kennarar samþykktu yfir sig þessa tillögu. Hann var þeirrar skoðunar að kennarar sem létu bjóða sér svona móðgun í kjaramálum væru einfaldlega of heimskir til að kenna börnunum hans.

Fjölskyldan í Birkihvamminum herðir sultarólina enn og aftur í stað þess að geta loksins farið að slaka aðeins á henni (ekki laust við að einhverjum fjölskyldumeðlimum sé það vissulega fyrir bestu). Við bíðum þess að birti til, jákvæð þrátt fyrir allt. Bráðum koma blessuð jólin og fyrir það hlýtur allt að vera orðið gott, við trúum ekki öðru.

Hvenær verða allir menn taldir menn
með sömu störf og líka sömu laun.....


þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Þetta lítur nú ekki nógu vel út. Arkýfurnar eru allar fyrir ofan textan..... skyldi vera hægt að breyta þessu?

Mér datt í hug fyrst við erum að byrja upp á nýtt á annað borð hvort við ættum ekki að breyta útlitinu líka?kisi Posted by Hello

Sko nú kann mín bara að setja inn myndir. Eða gat í það minnsta gert það einu sinni ég er ekki viss um að ég gæti endurtekið það, það var dálítið flókið. Þetta er bara alls ekki góð mynd af kisu minni ég verð að reyna aftur.

Það er nefninlega það. Svei mér ef það er ekki svo langt síðan ég leit hér við síðast að búið er að setja allt kerfið í yfirhalningu. Ég veit bara ekki hvort ég ræð við allar þessar nýjungar. Kanski ég haldi velli núna, ég veit það ekki. Síðasti vetur var svo yfirþyrmandi að ég andaðist í stutta stund. Sumarið var endurnærandi og dásamlegt og það er sko ekki lítið þegar á allt er litið.

Núna er staðan svona: Nýtt hús, ný vinna, nýtt bæjarfélag, nýr kisi og bráðum splunkunýr titill: Eiginkona, ekki svo vitlaust það.