föstudagur, nóvember 05, 2004

Nei ég er hundóánægð með þetta nýja útlit á síðunni. Commentin eru líka dottin út og það kann ég alls ekki að meta. Ég þarf greinilega að fara í gagngera endurskoðun á þessu öllu saman. Magga hilfe!!!!

Síðustu vikuna er ég búin að vera í vinnunni minni. Það hefur, verð ég að viðurkenna, verið ósköp gott. Ég saknaði vinnunnar minnar og það verður með trega sem ég fer heim á mánudag klár í áframhaldandi verkfall. Ég er ekki í nokkrum vafa um að miðlunartillagan verður skítfelld og við förum í verkfall á ný. Samstaða kennara er stórkostleg og allir sem ég hef heyrt í ætla að fella þennan óskapnað. Vonandi verður nú samt samið fljótlega.....

Ég er búin að vera í námi, á námslánum síðastliðin 5 ár. Ég hafði hugsað mér að nú, þegar ég væri komin út á vinnumarkaðin gæti ég farið að borga niður skuldir og jafnvel leggja fyrir. Ég ætla jú að gifta mig næsta sumar og það kostar peninga. Þess utan var ég vitaskuld að kaupa mér íbúð og henni fylgja afborganir, örlítið hærri en húsaleigan á stúdentagörðunum. Það þarf ekki reiknimeistara ríkissáttasemjara til að sjá að þetta reiknisdæmi gengur illa upp á meðan ég er í verkfalli. Samt ætla ég að fella tillöguna, ég held að það hljóti að segja eitthvað um innihald hennar.

Ég heyrði um daginn af manni sem sagðist ætla að taka börnin sín úr skóla ef kennarar samþykktu yfir sig þessa tillögu. Hann var þeirrar skoðunar að kennarar sem létu bjóða sér svona móðgun í kjaramálum væru einfaldlega of heimskir til að kenna börnunum hans.

Fjölskyldan í Birkihvamminum herðir sultarólina enn og aftur í stað þess að geta loksins farið að slaka aðeins á henni (ekki laust við að einhverjum fjölskyldumeðlimum sé það vissulega fyrir bestu). Við bíðum þess að birti til, jákvæð þrátt fyrir allt. Bráðum koma blessuð jólin og fyrir það hlýtur allt að vera orðið gott, við trúum ekki öðru.

Hvenær verða allir menn taldir menn
með sömu störf og líka sömu laun.....


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home