mánudagur, apríl 24, 2006

My so called life

Ekki eru þetta nú amalegar niðurstöður.

This Is My Life, Rated
Life: 8.3
Mind: 7.4
Body: 7.5
Spirit: 7.6
Friends/Family: 8.7
Love: 9.1
Finance: 8.9
Take the Rate My Life Quiz

föstudagur, apríl 14, 2006

Kyngreining

Nú veit ég nokkuð sem þið vitið ekki og þannig verður það um sinn. Ég hef ákveðið að upplýsa ekki kyn kúlubúans hér á síðunni. Það eru nokkrir sem vilja ekki vita svona lagað fyrirfram (amma og afi t.d.) og ætla ég því alls ekki að eyðileggja neitt fyrir þeim sem vilja geyma þetta. Þeir sem eru að springa úr forvitni (Lísa mín) geta fengið upplýsingarnar eftir öðrum leiðum.

Páskar eru yndislegir. Ekkert fyrirliggjandi annað en að flatmaga heima og skella sér í laugina þegar viðrar. Föngulegur hópur skellti sér í laugardalinn í gærmorgun og ekki laust við að mæðgur væru með bæði far og freknur af sólinni, sætastur þarf örlítið meiri sól til að fá lit í gegnum lopann. Verst finnst mér að mér þykir best að flatmaga í laugardalnum, þar eru bestu pottarnir og fínasti diskurinn en ég er hins vegar alger aumingi þegar kemur að því að fá mér sundsprett í 50 metra laug. Ég er alin upp við það að fá alltaf bakka til að spyrna í eftir 25 metra og er því eins og þorskur á þurru landi þegar ég þarf að þreyja heila 50 metra án þess að spyrna.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Ótrúlegt en satt

Vissuð þið að þessi bloggsíða fór í loftið um miðjan septembermánuð árið 2002. Þykir bara nokkuð gott í mínum bekk.

Hressileg kona

Var að koma úr hressilegum göngutúr. i-podinn minn þurfti að láta viðra sig aðeins. Það merkilega við þennan göngutúr var að alla jafna þegar ég viðra i-podinn set ég eitthvert hreinræktað og hressilegt rokk í hann. Hélt að það væri betra að halda sig við efnið í göngunni með eitthvða kraftmikið í eyrunum. Síðast náði ég til að mynda að hlusta á heilan disk með The Donnas. Að þessu sinni setti ég hins vegar Jeff Buckley á og þrammaði út í sólina og kuldann. Og viti bara menn, það svínvirkaði. Það var næstum eins og að sameina það tvennt sem ég þarf mest á að halda þessa dagana, hreyfingu og góða slökun.

Erum að fara í gegnumlýsingu á eftir, ætlum að láta kíkja í pakkann. Kolfinnu atkvæði réði úrslitum í þeirri rimmu. Sætastur vildi vita en ekki ég svo krílið reið baggamuninn.

mánudagur, apríl 10, 2006

Tveir nýir

Rakst á ákaflega skemmtilega bloggsíðu ungs manns sem les í baði. Drengur þessi hefur margt skemmtilegt fram að færa og honum hefur farið verulega fram í stafsetningu á síðustu árum. Það spillir vitaskuld ekki að kauði er nokkuð vel ættaður.

Annar bloggari reis upp frá dauðum um daginn. Ég ætla nú alveg að láta það eiga sig að gera mér einhverjar vonir um að upprisan verði til frambúðar (jafnvel þó að hana beri svo skemmtilega upp á páskum) þar sem þetta hefur jú gerst áður.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Skrýtni bíll

Bíllinn minn nýji (eða nýlegi) hefur einn sérstaklega skondinn fítus. Þegar rigning er úti og rúðuþurrkurnar á (eins og lög gera ráð fyrir) fer afturrúðuþurrkan í gang í hvert skipti sem ég gef stefnuljós til hægri. Þetta er eflaust einhver bilun og eflaust ætti maður að láta gera við þetta en mér finnst þetta bara svo drepfyndið að ég tími því ekki.

Nema þetta eigi að vera svona.