föstudagur, apríl 29, 2005

Kjartan Karl Gunnarsson (eða verður hann Elvisson) úr Gafarvoginum lætur eitthvað bíða eftir sér. Var að spjalla við mömmu hans sem var á röltinu á einhverjum umferðareyjum í nágrenni spítalans í von um að flýta aðeins fyrir. Henni heilsaðist glettilega vel þrátt fyrir að vera talsvert lúin. Ég sagði að við myndum öll glöð taka á okkur einhvern hluta af þessum ólátum ef hægt væri en þetta kemur nú til með að lenda mest á henni og við reynum bara að senda strauma.
Straum...straum...straum...straum.

Er það ekki á þessum tímapunkti sem er gott að kveikja á ilmkertum, hlusta á hvalasöng og gljábóna áruna sína? Eða er það kannski á þessum sem maður vill helst fá einn sterkan, sígó og Nirvana á fóninn. Ég bara man það ekki lengur, það er svo langt síðan.

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Þá er Kópavogsfjölskyldan stigin úr bælinu. Krílið kom heim frá pabba sínum á sunnudagskvöl ælandi eins og múkki. Henni tókst síðan það snilldarbragð að smita mömmu sína af einhverri óværu sem bætti svo um betur og smitaði köttinn. Aðeins Kjartan ofurmalli slapp í þessari yfirreið. Ég er komin í vinnuna en ég get engan veginn sagt að heilsan sé upp á marga fiska. Ég hef lítið borðað síðustu tvo sólarhringa og er enn ekki komin með matarlyst, lifi á sódavatni og matarkexi, hollt, hollt. Fátt er svo með öllu illt segir móðir mín því mér tókst að léttast um ein fjögur kíló á tveimur dögum. Ælupest er ofurmegrunaraðgerð.

Flóabardagi hinn þriðji geisar líka á heimilinu. Svo virðist sem starrakvikindi hafi gert sig heimakomið einhverstaðar í nágrenninu svo ég er nátturulega sundurstungin svo hvert meðal sigti væri stolt af. Ekki má gleyma því að ég er náttúrulega með ofnæmi fyrir kvikindunum svo kroppurinn minn er ekki fögur sjón þessa dagana. Sem hann nú annars er yfirleitt. Nú er ekki annað að gera en að nasa uppi hvar kvikindið hefur hreiðrað um sig og svæla það út. Kannski maður kalli jafnvel til fyrverandi, hann ku lunkinn við svonalagað.

föstudagur, apríl 22, 2005

Hef afráðið að blogga í dag. Er búin að setja inn einu sinni langa og skemmtilega færslu þar sem ég lýsti því fjálglega að Ítalíuland væri fallegast í heimi og þar vildi ég búa en sú færsla hvarf í ginið á bloggmann og síðan hefur ekkert til hennar spurst. Ég nenni ekkert að hafa fleiri orð um það bella italia og basta....

Nú þurfa allir sem ég þekki og þekkja mig að senda litlu sjútlingunum mínum góða strauma. Elfa er búin að klára öll innyflin sín og þau hafa sagt starfi sínu lausu. Ég held að mjög fáir innkirtlar virki í hennar líkama akkúrat núna. litli kútur kúlubúi hefur það samt fínt og stefnt er á að hjálpa honum að koma í heiminn í næstu eða þarnæstu viku örlítið á undan áætlun en svo sem innan leyfilegra skekkjumarka.

Hinn sjútlingurinn minn er kominn á kvennadeildina eina ferðina enn og ég veit ekki nákvæmlega hver staðan er þar. Ég veit það eitt að þessu verður að linna og þess verður að linna. Því hvet ég til allar góðar vættir og slæmar líka ef það hjálpar eitthvað og krefst þess að þetta hætti.

Á mínu heimili er fjölgunar von.











Plataði ykkur núna. Ég er ekki ólétt tíhí en það varð einhver misskilningur með pilluna handa kisu (miskilningurinn verandi nátturúlega sá að ég gleymdi að kaupa hana) og svo óheppilega vildi til að þessi líka huggulegi piltur (af norskum ættum) gerði sér dælt við hana svo nú er ég örugglega að verða amma. Ef einhver hefur áhuga þá ætti hún að verða léttari einhverntíma í júnilok.

föstudagur, apríl 08, 2005

Nú er orðið svo langt síðan að ég hef bloggað að það má kallast heppilegt að ég muni að gangsorðin mín. Svo má það líka kallast þjóðlegasti siður þett'að pota útsæðinu niður, útí garði undir morgunsól tra la la la...

Mín alltaf í góðum sköpum á föstudögum. Efst á mínum „þarf að gera“ lista í dag er auðvitað að óska ammælisbarni dagsins til hamingju með daginn. MD ég elska þig, dái og þrái frá haus niðrí tær. Nú krefst ég þess að fara að njóta samvista við þig sem allra fyrst ég held að það séu komnir talsvert margir mánuðir.

Æ æ nú hef ég ekki meiri tíma í bili, þarf að lesa upp eina stafsetningaræfingu. Ég er nefninlega að kenna. Umsjónarbekkurinn minn er bara svo rosalega vel alinn að það má segja að þau séu sjálfbær, ég segi þeim að gera eitthvað og þau gera það í tímanum í fullkomnum rólegheitum. Það gengur hins vegar illa að láta þau vinna upplestur ein og með sjálfum sér.

brb.