fimmtudagur, apríl 28, 2005

Þá er Kópavogsfjölskyldan stigin úr bælinu. Krílið kom heim frá pabba sínum á sunnudagskvöl ælandi eins og múkki. Henni tókst síðan það snilldarbragð að smita mömmu sína af einhverri óværu sem bætti svo um betur og smitaði köttinn. Aðeins Kjartan ofurmalli slapp í þessari yfirreið. Ég er komin í vinnuna en ég get engan veginn sagt að heilsan sé upp á marga fiska. Ég hef lítið borðað síðustu tvo sólarhringa og er enn ekki komin með matarlyst, lifi á sódavatni og matarkexi, hollt, hollt. Fátt er svo með öllu illt segir móðir mín því mér tókst að léttast um ein fjögur kíló á tveimur dögum. Ælupest er ofurmegrunaraðgerð.

Flóabardagi hinn þriðji geisar líka á heimilinu. Svo virðist sem starrakvikindi hafi gert sig heimakomið einhverstaðar í nágrenninu svo ég er nátturulega sundurstungin svo hvert meðal sigti væri stolt af. Ekki má gleyma því að ég er náttúrulega með ofnæmi fyrir kvikindunum svo kroppurinn minn er ekki fögur sjón þessa dagana. Sem hann nú annars er yfirleitt. Nú er ekki annað að gera en að nasa uppi hvar kvikindið hefur hreiðrað um sig og svæla það út. Kannski maður kalli jafnvel til fyrverandi, hann ku lunkinn við svonalagað.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home