mánudagur, september 22, 2003

Kverkaskítur hefur náð bólfestu í kroppnum mínum. Hor og hósti og hiti (þrístuðlað), ekki skemmtilegt. Ég er vita andlaus og aumingjaleg, enda mánudagur í ofanálag...

fimmtudagur, september 18, 2003

Annir, annir, annir. Brjálað að gera þessa dagana. Mæðgurnar eru báðar sestar á skólabekk. Önnur í fyrsta skipti hin í það sem virðist vera zilljónasta skipti. Þegar ég lýk þessu prófi í vor ætla ég aldrei aftur að læra neitt... Eða í það minnsta ekki í bili. Þetta tekur talsvert á, ég þarf að mæta í tíma og sinna mínum heimalærdómi, síðan þarf að sinna hennar heimalærdómi auk þess sem ég reyni að fara í ræktina á hverjum degi og sinna kærastanum þegar færi gefst. Vinir og spilakvöld eru fjarlæg minning sem ég vildi þó gjarnan fara að rifja upp.

Ef einhver skildi vera að velta því fyrir sér hvað hann á að gefa mér í afmælisgjöf (það eru jú ekki nema fimm mánuðir og sex dagar þangað til ég á afmæli) þá má finna það sem mig langar í hér. Það er að segja ef linkurinn virkar! Ég mæli eindregið með því að fólk fari að leggja fyrir og panta, maður veit aldrei hvort póstinum dettur í hug að senda þetta beina leið til Íslands eða hvort millilending í Guam verður nauðsynleg...

fimmtudagur, september 11, 2003

Ég er að reyna að finna nýtt „look“ á bloggsíðu og fæ bara upp einhverja fimm ljóta möguleika á template. Veit einhver hvar er hægt að finna fleiri möguleika í þessu nýja, asnalega umhverfi?

þriðjudagur, september 09, 2003

Leni Riefenstahl er öll... Merkilegur listamaður það.

Svei mér ef það er ekki kominn 9. september. Hvað varð um allan þennan tíma, hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað, hvar er húfan mín, hvar er hettan mín og hvar í ósköpunum er Valli?

Fékk einhver annar en ég hroll við tilhugsunina um Ariel Sharon í opinberri heimsókn á Indlandi?
„Talið er að Ísraelar og Bandaríkjamenn líti á INdverja sem mikilvægan hlekk í baráttunni gegn hryðjverkum, ekki síst vegna nálægðar sinnar við Persaflóa og Íran.
Þá er reiknað með því að Sharon muni ræða við indverska ráðamenn um sölu á vernarflaugum sem Ísraelar hafa þróað í samvinnu við Bandaríkjamenn.

Rokkhundar til sjávar og sveita, hjartanlega til hamingju með upprisuna. Skyldi þetta hafa áhrif á áætlanaflug til Lundúna og Kaupmannahafnar?

Prufaði nýja rækt í dag... var einhvernveginn skíthrædd við það. Hélt að þarna væri bara fallega fólkið, þið vitið þetta sem drekkur 7up, en þetta var alls ekki svo slæmt. Ég er líka með besta einkaþjálfara sem hægt er að hugsa sér, litlu systur, hún er sætust.

mánudagur, september 08, 2003

Mig langaði svo að vera í einhverju drepfyndnu en hlýt að vera of leiðinleg til þess.



CWINDOWSDesktoplionking.jpg
Lion King!


What movie Do you Belong in?(many different outcomes!)
brought to you by Quizilla



fimmtudagur, september 04, 2003

Enn eina ferðina var ég búin að blogga og týndi öllum ósköpunum. Í þetta skiptið var mér sjálfri fullkomlega um að kenna. Ég var í miðju kafi að tjá mig um mátt minn og meginn, yfirstandandi nám mitt og allt sem veitir mér gleði og hamingju þegar mér datt allt í einu í hug að það væri sniðugt að breyta „templatinu“ hjá mér. Þetta hefði hugsanlega getað verið snilldar hugmynd ef ég hefði haft vit á því að geyma einhverstaðar það sem ég var búin að skrifa.

Skólinn virðist hvað sem öðru líður bara vera nokkuð skemmtilegur. Heilmikil „hands on“ vinna fremur en endalaus lestur og ritgerðaskrif. Námið er í nánum tengslum við samfélagið og vinnumarkaðinn, nokkuð sem er ekki alltaf borðleggjandi í Háskóla Íslands, heilmikil æfingakennsla og heimsóknir í skóla. Ég hlakka bara þó nokkuð til vetrarins, ég hlakka reyndar meira til þess að veturinn verði búinn og ég geti farið að koma undir mig fótunum og borga niður skuldir.

þriðjudagur, september 02, 2003

Kvetch var stórfínt. Ein skemmtilegasta leikhúsupplifun síðari ára. Að Krítarhringnum frá Kákasus slepptum Kannski bara sú besta. Það var verulega hressandi að sjá Eddu Heiðrúnu, leikkonu sem mér hefur hingað til ekki þótt hafa mikið til brunns að bera, fara hreinlega á kostum. Ólafur Darri var hreinlega dásamlegur, skrýtið að maður skuli ekki hafa séð meira til hans síðan hann útskrifaðist, skildi það hafa eitthvað með útlitið á honum að gera? Hafa ekki allir spútnik karlleikarar síðustu ára verið tiltölulega mikil kyntröll?

Heilastarfsemin er ekki alveg komin í þann gang sem hún þarf að vera í á komandi önn. Ég veit ekki vel í hvaða kúrsum ég á að vera eða hvers vegna hvað þá að ég viti hver á að vera kenna mér. Ég skil ekkert í þessari nýju deild og veit aldrei hvað klukkan er. Nú verður sennilega að fara í aðgerðir til að koma fattaranum í gang.