mánudagur, október 28, 2002

Dóttir mín, margumrædd Kolfinna Katla, er búin að finna lausn á karlamálum móður sinnar eða skyldi ég segja karlleysisvandamálum móður sinnar. Kolfinna skilur ekki, og hefur aldrei skilið, hvers vegna móðir hennar getur ekki farið og „útvegað“ sér kærasta svo hægt sé að vinna í því að stækka þessa annars ágætu kjarnafjölskyldu okkar mæðgna. Í örvæntingarfullri tilraun (# 30) til að útskýra þetta fyrir henni sagði ég að sennilega þætti strákunum mamma ekki nógu sæt. Hún varð undrandi í fyrstu, hallaði svo undir flatt og sagði það vera bara vegna þess að ég er ekki mamma þeirra......Krúttlegi krakki. Nú er þetta semsagt spurning um að fara út á galeiðuna og leita að einhverjum umkomulausum, vængbrotnum og móðurlausum vesalingi og taka hann í fóstur. Takk fyrir aðstoðina Kolfinna Katla.

Hafi einhverjum þótt eighties hádegi á bylgjunni skemmtileg nostalgía þá ætti sá hinn sami að prófa eighties hádegi á VH1. Sama tónlistinn með öllum hallærislegu myndböndunum í kaupbæti, dásamlegt. Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

miðvikudagur, október 23, 2002

Ég vil líka hafa flott blogg, eins og Svava Rán. Hvernig skildi hún hafa farið að þessu?????

Language

If language were liquid
It would be rushing in
Instead here we are
In a silence more eloquent
Than any word could ever be


These words are too solid
They don't move fast enough
To catch the blur in the brain
That flies by and is gone
Gone
Gone
Gone


I'd like to meet you
In a timeless, placeless place
Somewhere out of context
And beyond all consequences


Let's go back to the building
(Words are too solid)
On Little West Twelfth
It is not far away
(They don't move fast enough)
And the river is there
And the sun and the spaces
Are all laying low
(To catch the blur in the brain)
And we'll sit in the silence
(That flies by and is)
That comes rushing in and is
Gone (Gone)


I won't use words again
They don't mean what I meant
They don't say what I said
They're just the crust of the meaning
With realms underneath
Never touched
Never stirred
Never even moved through


If language were liquid
It would be rushing in
Instead here we are
In a silence more eloquent
Than any word could ever be


And is gone
Gone
Gone
And is gone

Suzanne Vega.

Sumir eru svo flinkir með orð. Vonandi verð ég einhverntíma svona flink. Að leika sér með orð um orð er alger snilld.

Ótrúlegt en satt, mér miðar loksins eitthvað áfram með ritgerðina mína. Ég er búin að streða við að taka hana upp í allt haust og hef einhvernvegin ekki náð sambandi. Hef ekki getað komið mér í rétta ástandið og þá skiptir engu máli hversu mörgum klukkutímum ég eyði í að lesa femínísk fræði, ekki orð fer á blað. Núna horfir allt til betri vegar og rokktíkurnar mínar eru að fæðast. Liz og Lisa og Poe og ani eru svooooo miklir töffarar. „I want to fuck you like a dog, I'll take you home and make you like it“ need I say more? Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

þriðjudagur, október 22, 2002

Ég verð að fara að muna eftir því að hafa blað og penna með mér í rúmið á kvöldin (já já ég veit að þetta hljómar dapurlega). Ég er svo dugleg að hugsa þegar ég er að berjast við svefnin, ég er aldrei frjórri (ok ég veit þetta er líka dapurlegt). Í gærkvöldi, þar sem ég lá og velti því fyrir mér hvers vegna ég gæti ekki sofnað, hvort að 12 bollar af kaffi gætu hugsanlega haft eitthvað með það að gera, tókst mér að klára BA ritgerðina mína, leggja drögin að tveimur skáldsögum, leysa fjárhagsvanda heimilisins og fullkomna kaldan samruna. Ekkert af þessu mundi ég svo nákvæmlega hvernig ég hafði ætlað að framkvæma þegar ég vaknaði í morgun. Það var nú miður!

Hvað er ég annars búin að vera að gera skemmtilegt upp á síðkastið. Jú ég fór og horfði á Snorra Hergil vera skemmtilegan á sportkaffi. Hann vann sér rétt til að vera skemmtilegur aftur eftir hálfan mánuð sem gæti endað með því að hann yrði valinn skemmtilegastur á Íslandi.....í boði Tal og Miller. Síðan eyddi ég fríhelginni minni, þegar barnið mitt var í vörslu föður síns, í að passa annara manna börn. Það var ósköp ágæt, rólegheit og sjónvarpsgláp með litlu systur. Yfirseturnar björguðu mér frá því að mæta í svallveislu eina mikla (les. húspartý á hjónagörðum). Mætingin í veisluna var afar dræm en þeir sem mættu ákváðu að drekka allt áfengið sem var keypt með það í huga að allir mættu. ÚFF......mér skilst að stallsystur mínar hafi kynnst klósettinu sínu aðeins betur en þær kærðu sig um. Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

miðvikudagur, október 16, 2002

Blogg, blogg, blogg, snemm'að morgni
blogg, blogg, blogg, seint að kvöldi
blogg, blogg, blogg, dag og nótt
bloggið er eins og hitasótt

Nú ætla ég að reyna að vera rosalega miklu mun meira duglegari að blogga. Ég er bara ekki alveg nógu vel sofin. Vesalings litla barn á hæðinni fyrir ofan mig grét viðstöðulaust í nótt og ég bara gat ekki sofið með þessi sáru vein í eyrunum. Litla barn viltu hætta, þú rífur hjartað úr brjóstinu á mér. Móðureðlið gerði vart við sig og talandi um brjóst þá er ég viss um að ég var komin með stálma, ég var að hugsa um að rífa Kolfinnu Kötlu upp úr rúminu sínu og ganga með hana um gólf bara svo mér þætti að að ég væri að gera gagn. Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

þriðjudagur, október 15, 2002

Svei mér ef ég er ekki lélegasti bloggari á landinu. Það fór eins og ég spáði í upphafi, ég tæklaði þetta nákvæmlega eins og allar aðrar dagbækur sem ég hef haldið hingað til.... Æðislega gaman til að byrja með en svo missi ég áhugan. Það gæti líka haft eitthvað að segja að það gerist svo sem ekki margt markvert í mínu lífi þessa dagana. Maður verður vitaskuld brjálaður þegar maður les bloggið hennar Möggu Dóru. Líf mitt er ekki sambærilegt við litlu stúdínuna í MIT sem tekst á við eitthvað nýtt og spennandi á hverjum degi í kúrekalandinu. Ég verð bara að vera natnari við það að koma auga á fegurðina í því smáa. Í gær tilkynnti dóttir mín mér til að mynda hátíðlega, fyrir hádegi, að hún væri búin að ákveða að vera „mjög jákvæð í dag“. Mér fannst það mjög fallegt.
Svava mín ég er alveg sammála því að Roddenberry hefði verið mun gáfulegri forseti í kúrekalandinu en skotglaði vitleysingurinn sem er þar núna en það er einn hængur á, krúttið mitt, hann er dauður!!!! Ekki þar fyrir, lífs eða liðinn væri hann sennilega skárri.
Ég er án efa heartless bitch....en þú? http://www.heartlessbitches.com SKEMMTILEG SÍÐA. Og nú skal mann skrúbba af sér skítinn svo good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

laugardagur, október 05, 2002

Fátt, ef nokkuð, hefur mér þótt jafn niðurlægjandi og að mæta á kvennakvöld fm bla bla eitthvað komma eitthvað. Ef þetta er það sem það þýðir að vera kona þá er ég hætt við. Mér var skapi næst að hlaupa argandi upp á svið með brjóstahaldarann minn logandi í höndunum. Það er greinilega aðeins þrennt sem skiptir máli þegar þú ert kona: kynlíf, kynlíf og kynlíf. Að vísu voru þarna kynningar á einhverjum snyrtivörum og Vikunni en snyrtivörukynningar eru bara til að auka möguleika þína á að verða þér úti um kynlíf og níu af hverjum tíu greinum í vikunni fjalla um kynlíf svo ég get sett þetta allt undir einn hatt. Kynnir kvöldsins (sem ég man ekkert hvað heitir) kallaði okkur elskurnar sínar og lét svo dæluna ganga með tvíræðum bröndurum og lítillækkandi ummælum um konur. Hann byrjaði á að benda okkur á glæsibifreið frá Nissan sem komið hafði verið fyrir á sviðinu, glæsilegur bíll og einstaklega þægilegur fyrir lélega bílstjóra og konur. Billinn var útbúinn með myndavél að aftan og skjá í mælaborðinu hentugt, því eins og allir vita, kunna konur alls ekki að bakka. Hann reyndi að klóra yfir skítinn með því að segja að auðvitað væri hann ekki að halda því fram að konur væru lélegir bílstjórar heldur væri það vitað mál að þegar konur eru að bakka og þurfa að snúa sér við í sætinu fer meikið út um allt................COME ON!!!!! Honum láðist alveg að minnast á hversu stór vél væri í bílnum, hvernig bremsukerfið væri og hverju hann eyddi á hundraðið.

Það var engu líkara en aumingja maðurinn gæti alls ekki opnað á sér munnin án þess að snarflækja báða fætur í honum. Til að koma í veg fyrir frekara klúður kynnti hann til sögunnar aðalræðumann kvöldsins, Jónínu Benediktsdóttur. Almáttugur, ekki veit ég hvort konan hélt að hún ætti að vera „motivative speaker“ eða „stand up comic“ en hvort tveggja fórst henni afar illa úr hendi. Mál hennar snerist að mestu um kvikindisleg skot á gamlan kærasta og klúrar kynlífslýsingar. Okkur, kynsystur sínar, afgreiddi hún fljótt og örugglega sem öfundsjúkar kjaftakerlingar og sneri sér svo aftur að því að tala um sjálfa sig. Takk kærlega fyrir Jónína, viltu í guðsbænum drífa þig í að kaupa nýja líkamsræktarstöð svo þú hafir eitthvað að gera því það kann ekki góðri lukku að stýra en þú ætlar að fara að leggja þetta fyrir þig.

Fyrir hlé var boðið upp á tvö söngatriði (ég forðaði mér í ofboði heim í hléi svo ég get ekki verið dómbær á þau skemmtiatriði sem boðið var uppá eftir hlé). Hið fyrra var sykursætur, væminn og drepleiðinlegur Bjarni Arason, sem komst að því fyrir ári síðan að sambýliskona hans til tíu ára gæti sungið. Glettilega atthugull maður Bjarni. Þessari nýfengnu reynslu sinni vildi hann svo fá að deila með okkur. Ég vildi að hann hefði sleppt því! Nógu átakanleg voru veinin í honum þó hennar aðstoðar nyti ekki við. Þau halda svo sem bæði ágætlega lagi (hann þó betur en hún) en lagavalið, væntalega sérhannað fyrir konur, var svo væmið og, ég verð að segja það, ógeðslegt að hlustirnar á mér voru bólstraðar sakkaríni í tvo daga á eftir.

Seinna söngatriðið verð ég að segja að hafi verið mun skárra. Kvartett sem samanstóð af kynni kvöldsins (elsku krúttinu), Þorvaldi Halldórssyni, syni hans og fjórða aðila sem ég veit ekki hver var. Hápunktur kvöldsins var án efa (ég minni reyndar á að ég fór heim í hléi) þegar gamli strigabassinn tók „Á sjó“, það var æðislegt.

Niðurstaðan er sem sagt sú að ég mæti ekki aftur á „kvennakvöld“ fyrr en kynningarnar verða frá IBM, NTV, B&L eða J&B (þó ég mæli nú heldur með einhverju skosku). Ræðumaðurinn verður Rannveig Rist, Bill Gates eða Andrea Jónsdóttir. Skemmtiatriðin verða.........hér um bil hvað sem er annað en „easylistening“. Og drykkur dagsins verður ekki torkennilegt bleikt glundur með röri og regnhlíf heldur eitthvað sem fær hárin til að spretta á bringunni :-Þ Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.