laugardagur, október 05, 2002

Fátt, ef nokkuð, hefur mér þótt jafn niðurlægjandi og að mæta á kvennakvöld fm bla bla eitthvað komma eitthvað. Ef þetta er það sem það þýðir að vera kona þá er ég hætt við. Mér var skapi næst að hlaupa argandi upp á svið með brjóstahaldarann minn logandi í höndunum. Það er greinilega aðeins þrennt sem skiptir máli þegar þú ert kona: kynlíf, kynlíf og kynlíf. Að vísu voru þarna kynningar á einhverjum snyrtivörum og Vikunni en snyrtivörukynningar eru bara til að auka möguleika þína á að verða þér úti um kynlíf og níu af hverjum tíu greinum í vikunni fjalla um kynlíf svo ég get sett þetta allt undir einn hatt. Kynnir kvöldsins (sem ég man ekkert hvað heitir) kallaði okkur elskurnar sínar og lét svo dæluna ganga með tvíræðum bröndurum og lítillækkandi ummælum um konur. Hann byrjaði á að benda okkur á glæsibifreið frá Nissan sem komið hafði verið fyrir á sviðinu, glæsilegur bíll og einstaklega þægilegur fyrir lélega bílstjóra og konur. Billinn var útbúinn með myndavél að aftan og skjá í mælaborðinu hentugt, því eins og allir vita, kunna konur alls ekki að bakka. Hann reyndi að klóra yfir skítinn með því að segja að auðvitað væri hann ekki að halda því fram að konur væru lélegir bílstjórar heldur væri það vitað mál að þegar konur eru að bakka og þurfa að snúa sér við í sætinu fer meikið út um allt................COME ON!!!!! Honum láðist alveg að minnast á hversu stór vél væri í bílnum, hvernig bremsukerfið væri og hverju hann eyddi á hundraðið.

Það var engu líkara en aumingja maðurinn gæti alls ekki opnað á sér munnin án þess að snarflækja báða fætur í honum. Til að koma í veg fyrir frekara klúður kynnti hann til sögunnar aðalræðumann kvöldsins, Jónínu Benediktsdóttur. Almáttugur, ekki veit ég hvort konan hélt að hún ætti að vera „motivative speaker“ eða „stand up comic“ en hvort tveggja fórst henni afar illa úr hendi. Mál hennar snerist að mestu um kvikindisleg skot á gamlan kærasta og klúrar kynlífslýsingar. Okkur, kynsystur sínar, afgreiddi hún fljótt og örugglega sem öfundsjúkar kjaftakerlingar og sneri sér svo aftur að því að tala um sjálfa sig. Takk kærlega fyrir Jónína, viltu í guðsbænum drífa þig í að kaupa nýja líkamsræktarstöð svo þú hafir eitthvað að gera því það kann ekki góðri lukku að stýra en þú ætlar að fara að leggja þetta fyrir þig.

Fyrir hlé var boðið upp á tvö söngatriði (ég forðaði mér í ofboði heim í hléi svo ég get ekki verið dómbær á þau skemmtiatriði sem boðið var uppá eftir hlé). Hið fyrra var sykursætur, væminn og drepleiðinlegur Bjarni Arason, sem komst að því fyrir ári síðan að sambýliskona hans til tíu ára gæti sungið. Glettilega atthugull maður Bjarni. Þessari nýfengnu reynslu sinni vildi hann svo fá að deila með okkur. Ég vildi að hann hefði sleppt því! Nógu átakanleg voru veinin í honum þó hennar aðstoðar nyti ekki við. Þau halda svo sem bæði ágætlega lagi (hann þó betur en hún) en lagavalið, væntalega sérhannað fyrir konur, var svo væmið og, ég verð að segja það, ógeðslegt að hlustirnar á mér voru bólstraðar sakkaríni í tvo daga á eftir.

Seinna söngatriðið verð ég að segja að hafi verið mun skárra. Kvartett sem samanstóð af kynni kvöldsins (elsku krúttinu), Þorvaldi Halldórssyni, syni hans og fjórða aðila sem ég veit ekki hver var. Hápunktur kvöldsins var án efa (ég minni reyndar á að ég fór heim í hléi) þegar gamli strigabassinn tók „Á sjó“, það var æðislegt.

Niðurstaðan er sem sagt sú að ég mæti ekki aftur á „kvennakvöld“ fyrr en kynningarnar verða frá IBM, NTV, B&L eða J&B (þó ég mæli nú heldur með einhverju skosku). Ræðumaðurinn verður Rannveig Rist, Bill Gates eða Andrea Jónsdóttir. Skemmtiatriðin verða.........hér um bil hvað sem er annað en „easylistening“. Og drykkur dagsins verður ekki torkennilegt bleikt glundur með röri og regnhlíf heldur eitthvað sem fær hárin til að spretta á bringunni :-Þ Good night Westley, I'll most likely kill you in the morning.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home