þriðjudagur, september 25, 2007

Sérdeilis skemmtilegt

Við hjónin skelltum okkur í bíó í gærkvöldi. Fyrsta skipti sem við förum tvö ein í bíó síðan pínkubarnið fæddist. Fórum að sjá Astrópíuna hans Gunna. Ég verð að vera sammála öllum gagnrýnendum sem segja hana einhverja skemmtilegustu íslensku mynd síðan Sódóma var upp á sitt besta. Verð að játa að litli nördinn minn hló miklu meira og stundum á allt öðrum stöðum en hinir í salnum því hann skildi alla nördabrandarana.

Litli nördinn er annars búinn að koma ár sinni vel fyrir borð í nýju vinnunni sinni. Er búinn að heilla yfirmenn sína upp úr skónum með dugnaði og frumkvæði og er nú að raða á sig hinum og þessum ábyrgðarhlutverkum. Í lok október á hann að fara til útlanda á einhver námskeið. Væri kannski ekki í frásögur færandi nema hvað hann á annað hvort að fara til London eða Cairo. Ekki svo mikill munur á því. Minn situr nú dagen lang á bæn og vonar að hann fá að fara til Cairo.

mánudagur, september 24, 2007

Stundaglas

ég hef enn vöxt eins og stundaglas..........það er bara mjög stórt stundaglas nú orðið.

Gott ef þetta stendur bara ekki heima

Fiskur (19. febrúar - 20. mars):

Þú ert rugluð og týnd sál og hefur ekki hugmynd um hvernig þú átt að nýta hæfileika þína eða í hvaða átt þú átt að fara. Þú vilt vera alls staðar og upplifa allt. En þar sem þetta er ómögulegt, þá fer allt í vitleysu. En það gerir ekkert til, þú ert sérfræðingur í sjálfsblekkingum og því að flýja raunveruleikann.

miðvikudagur, september 19, 2007

Mikið gengið á

Ég hef verið að leggja mig í líma við að reyna að koma hér inn orði alla síðustu viku en hef vart komið upp til að anda fyrir anríki. Pínkubarnið er orðið eins árs og því fylgdu vitaskuld tilheyrandi veisluhöld um helgina. Sykurinntaka langt yfir því sem eðlilegt gæti talist og kaffi ótæpilegt.

þriðjudagur, september 11, 2007

Svei mér

Nú er ég að jafna mig á því antipati sem ég hafði á tölvunni og sjálfri mér. Þó einkum sjálfri mér fyrir framan tölvuna og á þessari bloggsíðu. Þannig er nefninlega að ég er búin að halda úti þessari síðu í nokkur ár og mér hefur alltaf þótt hún nokkuð skemmtileg. Jafnvel staðið í þeirri trú að ég sjálf væri á köflum nokkuð sniðug, stundum fyndin og alltaf málefnaleg. Upp á síðkastið hefur mér þótt sú hefð verið lögð af og endalaust mas um börn og bleyjuskipti farið að ráða ríkjum. Það var aldrei meiningin og þess vegna lagðist ég niður á tímabili.

Nú er ég hins vegar komin í fullorðinna manna tölu á ný. Farin að vinna aftur og raunverulega bara ljómandi lukkuleg með það. Mér fannst dásamlegt að vera heima síðastliðið ár og hefði ekki viljað senda pínkubarnið til dagmömmu deginum fyrr en það hentar mér hins vegar vel að vera farin aftur að vinna.

Ég ætla ekki að lofa neinu um framhaldið. Einungis að óska sjálfri mér til hamingu með upprisuna og vona það besta.