fimmtudagur, ágúst 24, 2006

False alarm

Alveg vorum við hjónin við því búin að við þyrftum að stökkva upp á fæðingadeild í nótt, en það slapp fyrir horn. Þegar við vorum búin að horfa á vin vorn Magna bjarga sér fyrir horn í nótt fór ég að finna fyrir talsverðum verkjum sem mér fannst frekar ágerast en hitt. Ég fór nú samt upp í rúm og ákvað bíða og sjá og verkirnir liðu hjá smátt og smátt. Ósköp hefði nú samt verið smart ef barnið hefði fæðst í dag, þann tuttugasta og fjórða. Klukkan er nú ekki nema níu, kannski ég fari og sippi svolítið og komi þessu aftur í gang.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Dokað og dokað

Þá er maður farinn að bíða og kannski telja niður. í dag er tuttugasti og annar sem þýðir að væntanleg fæðing er eftir níu daga.

Sumir halda að það verði fyrr og sumir seinna. Sjálf hef ég enga tilfinningu fyrir því hvernig þetta verður allt saman en vona nú samt að ég fari ekki mikið framyfir. Það er dálítið skrýtið að hugsa til þess að ég hef auðvitað gert þetta áður, það er bara svo langt síðan að ég man varla hvernig þetta gengur fyrir sig. Svo endaði krlílið auðvitað á því að vera keisaraynja svo ég kláraði aldrei pakkann. Kannski ég prófi allt saman núna.

Ég held ég hafi hlíft lesendum mínum við endalausum óléttuvangaveltum síðustu níu mánuði en nú kemst held eg ósköp lítið annað að. Sætastur er búinn að setja saman lista yfir þá sem þurfa að fá sms þegar eitthvað gerist og svo verða vonandi sett inn tíðindi og jafnvel myndir hér þegar allt er yfirstaðið.

Nú er ég að hugsa um að fara í háttinn svo ég geti vaknað í nótt til að hlusta á Magna. Ég er annars orðin yfirburðarmanneskja í hvíld. Gæti keppt á ólympíuleikum í hvíld.

Áfram Ísland!

föstudagur, ágúst 18, 2006

Þarna er hún, eins og búið var að lofa


berfætt og vanfær. Posted by Picasa

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Andleysi óléttunnar

Nei titillinn á pistli dagsins vísar ekki í nýjasta dægurlagatextann eftir Gumma í Sálinni heldur á hann að bera vitni um hversu ég hef ekki fundið mig knúna til að segja neitt skemmtilegt hér á síðunni svo að í stað þess að segja eitthvað sem ekkert er skemmtilegt hef ég haldið mig til hlés að undanförnu. Er það ekki fyrir bestu.

Ég vil nota tækifærið og benda þeim sem ekki voru á Morrissey tónleikunum á laugardag að þeir voru stórkostlegir. Gamli sjarmörinn, sem mér reiknast til að verði sennilega fimmtugur á næsta ári, var svo flottur, svo skemmtilegur, svo góður og svo sexí að Margrét Dóra hreinlega sullaðist út úr sætinu sínu. Slíkt hið sama hefði ég eflaust gert sjálf væri óléttan ekki búin að gera mig að mestu kynlausa núna á allra síðustu dögum.

Eins og við var að búast sá ég fjöldamörg andlit í salnum sem ég þekkti. Suma sem ég hef ekki séð svo árum skipti og aðra sem ég sé oftar. Ég saknaði þess að sjálfsögðu að hafa Svövuna mína ekki með mér á þessum tónleikum. Það hefði bara átt að vera svoleiðis. Ég er að vísu ekki viss um að hún hefði getað valið þessa helgina því eins og alþjóð veit spilaði fyrrum söngvari stórhljómsveitarinnar Supertramp sína vinsælustu slagara á tónleikum kvöldið áður og ég veit að Svövu hefði þótt það erfitt val ;-)

Hamingjuóskir með afmæli undanfarna daga fá Amma Hanna, Elfa og Nanna (sem er nú komin yfir þröskuld hinna þrítugu (nei sko titill á öðru lagi með Gumma í Sálinni)). Auk þess sem sjónvarpsstjörnurnar bróðir minn og mágkonan áttu brúðkaupsafmæli um helgina og Jón Geir og áðurnefnd Nanna eiga brúðkaupsafmæli á morgun. Svo minnir mig að Pjetur nokkur Andrésson veitingamaður á Rauða Húsinu hafi líka átt afmæli í gær.

Að ógleymdum auðvitað Fidel sem varð áttræður um helgina...