þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Andleysi óléttunnar

Nei titillinn á pistli dagsins vísar ekki í nýjasta dægurlagatextann eftir Gumma í Sálinni heldur á hann að bera vitni um hversu ég hef ekki fundið mig knúna til að segja neitt skemmtilegt hér á síðunni svo að í stað þess að segja eitthvað sem ekkert er skemmtilegt hef ég haldið mig til hlés að undanförnu. Er það ekki fyrir bestu.

Ég vil nota tækifærið og benda þeim sem ekki voru á Morrissey tónleikunum á laugardag að þeir voru stórkostlegir. Gamli sjarmörinn, sem mér reiknast til að verði sennilega fimmtugur á næsta ári, var svo flottur, svo skemmtilegur, svo góður og svo sexí að Margrét Dóra hreinlega sullaðist út úr sætinu sínu. Slíkt hið sama hefði ég eflaust gert sjálf væri óléttan ekki búin að gera mig að mestu kynlausa núna á allra síðustu dögum.

Eins og við var að búast sá ég fjöldamörg andlit í salnum sem ég þekkti. Suma sem ég hef ekki séð svo árum skipti og aðra sem ég sé oftar. Ég saknaði þess að sjálfsögðu að hafa Svövuna mína ekki með mér á þessum tónleikum. Það hefði bara átt að vera svoleiðis. Ég er að vísu ekki viss um að hún hefði getað valið þessa helgina því eins og alþjóð veit spilaði fyrrum söngvari stórhljómsveitarinnar Supertramp sína vinsælustu slagara á tónleikum kvöldið áður og ég veit að Svövu hefði þótt það erfitt val ;-)

Hamingjuóskir með afmæli undanfarna daga fá Amma Hanna, Elfa og Nanna (sem er nú komin yfir þröskuld hinna þrítugu (nei sko titill á öðru lagi með Gumma í Sálinni)). Auk þess sem sjónvarpsstjörnurnar bróðir minn og mágkonan áttu brúðkaupsafmæli um helgina og Jón Geir og áðurnefnd Nanna eiga brúðkaupsafmæli á morgun. Svo minnir mig að Pjetur nokkur Andrésson veitingamaður á Rauða Húsinu hafi líka átt afmæli í gær.

Að ógleymdum auðvitað Fidel sem varð áttræður um helgina...

2 Comments:

At 17 ágúst, 2006 22:05, Anonymous Nafnlaus said...

Heldur þykir mér vegið að Gumma í Sálinni í þessari bloggfærslu, en mér finnst þetta samt hrikalega fyndið ;) Ég sá hann syngja í Kastljósinu fyrir einhverjum vikum síðan og ég engdist í sófanum; þetta var alveg hræðilegt hjá manngreyinu. Ég fékk svona kvíðahnút í magann fyrir hans hönd.

Þú ert annars svo yndisleg. Enginn annar myndi nokkru sinni enda bloggfærslu á því að minnast á afmæli Fidels ;) Kannski er þetta bara óléttan.

 
At 22 ágúst, 2006 19:23, Blogger murta said...

Morrissey er fæddur 22. maí 1959 og er því rétt 47! Ég er núna tvisvar búinað missa af honum, einu sinnií Seattle þegar ég ætlaði með Helenu, og núna í klakanum. Hvenær kemur kappinn bara til Salford?

 

Skrifa ummæli

<< Home